Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 232. máls.

Þskj. 320  —  232. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „58,70 kr.“ í 1. tölul. kemur: 66,04 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „52,80 kr.“ í 2. tölul. kemur: 59,40 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „70,78 kr.“ í 3. tölul. kemur: 79,63 kr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „228,46 kr.“ í 1. tölul. kemur: 257,02 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „2,70 kr.“ í 2. tölul. kemur: 3,04 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „8,17 kr.“ í 3. tölul. kemur: 9,19 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „286,97 kr.“ í 1. tölul. kemur: 322,84 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „14,34 kr.“ í 2. tölul. kemur: 16,13 kr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu eru, í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2009, lagðar til hækkanir á tilgreindum gjöldum í lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Um er að ræða 12,5% hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi.
    Í upphaflegu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 kemur fram að reiknað sé með 11,5% hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi. Var sú hækkun áætluð í samræmi við áætlaða hækkun á vísitölu neysluverðs milli ársmeðaltala 2007 og 2008. Samkvæmt breytingum á tekjuáætlun fjárlagafrumvarps 2009 er nú gert ráð fyrir að þessi hækkun sé 12,5% og er því í frumvarpinu lagt til að umrædd gjöld hækki um 12,5%.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins er sú hækkun sem hér er lögð til innan þeirra marka sem umrædd gjöld hafa rýrnað að verðgildi, ef miðað er við þróun á vísitölu neysluverðs frá því umrædd gjöld voru síðast hækkuð.
    Viðbótartekjur ríkissjóðs af þeirri hækkun sem frumvarp þetta kveður á um eru áætlaðar samtals um 1.300 millj. kr. á ársgrundvelli.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að fjárhæð áfengisgjalds verði hækkuð um 12,5%, sbr. umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð áfengisgjalds af sterku víni hækkaði síðast í nóvember 2004, en fjárhæð áfengisgjalds af léttu víni og bjór hefur verið óbreytt frá 1. júlí 1998. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 70% frá 1. júlí 1998 og 31% frá nóvember 2004 og hefur áfengisgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð tóbaksgjalds verði hækkuð um 12,5%, sbr. umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð tóbaksgjalds hefur verið óbreytt frá nóvember 2004. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 31% frá þeim tíma og hefur tóbaksgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð tóbaksgjalds af tóbaki sem ferðamenn eða farmenn hafa með sér til landsins verði hækkað um 12,5%, sbr. umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð tóbaksgjalds hefur verið óbreytt frá nóvember 2004. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 31% frá þeim tíma og hefur tóbaksgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru, í samræmi við áform í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009, lagðar til hækkanir á tilgreindum gjöldum í lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Um er að ræða 12,5% hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 11,5% hækkun sem var í samræmi við spá um hækkun á vísitölu neysluverðs milli ársmeðaltala 2007 og 2008 þegar frumvarpið var lagt fram. Sú spá hefur breyst nokkuð til hækkunar. Eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins er sú hækkun sem hér er lögð til innan þeirra marka sem umrædd gjöld hafa rýrnað um að verðgildi, ef miðað er við þróun á vísitölu neysluverðs frá því gjöldin voru síðast hækkuð. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 70% frá júlí 1998, þegar áfengisgjaldi af léttu víni var síðast breytt, og um 31% frá nóvember 2004, þegar áfengisgjaldi af sterku víni og tóbaksgjaldi var síðast breytt. Jafnframt má gera ráð fyrir að verðlag útgjalda sem þessum tekjustofnum er ætlað að standa undir hafi hækkað álíka mikið.
    Tekjur af áfengis- og tóbaksgjaldi voru áætlaðar samtals 13,1 ma.kr. í fjárlagafrumvarpinu 2009 en reiknað er með að þær verði rúmum 100 m.kr. hærri ef frumvarp þetta verður að lögum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.