Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 244. máls.

Þskj. 361  —  244. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um bókhald, nr. 145/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. A laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó er félögum skv. 1. gr. heimilt þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, t.d. vegna erlends eignarhalds eða erlendra stjórnarmanna, að texti bókhaldsbókanna sé á dönsku eða ensku.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „sbr. 2. mgr. 11. gr.“ í 2. mgr. kemur: sbr. 2. mgr. 7. gr.
     c.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. hafa félög, skv. 1. gr., heimild til að varðveita gögn skv. 1. mgr. erlendis í allt að sex mánuði.
     b.      Í stað orðanna „tölvubúnaði“ og „tölvutækan“ í 3. mgr. kemur: rafrænum útbúnaði; og: rafrænan.

3. gr.

    Við 3. mgr. 25. gr. laganna bætist við nýr málsliður sem orðast svo: Þó er félögum skv. 1. gr. heimilt þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, t.d. vegna erlends eignarhalds eða erlendra stjórnarmanna, að texti ársreiknings sé á dönsku eða ensku.

4. gr.

    32. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Endurskoðun ársreikninga.


    Félagsmenn í félögum sem ber að semja ársreikninga samkvæmt þessum kafla sem fara með minnst einn fimmta hluta atkvæða í félagi, geta á félagsfundi krafist þess, ef ekki er um það getið í samþykktum félagsins, að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki. Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um starf endurskoðanda sem kosinn er skv. 1. málsl.
    Uppfylli endurskoðandi ekki lengur skilyrði til starfans skal stjórn félagsins annast um að valinn verði nýr endurskoðandi eins fljótt og unnt er og skal hann gegna því starfi þar til kosning getur farið fram.
    Ef endurskoðandi telur að nauðsynlegar upplýsingar vanti í ársreikninginn eða skýrslu stjórnar eða upplýsingar séu villandi og enn fremur ef hann telur að fyrir liggi atvik sem varðað geti stjórnendur ábyrgð skal hann vekja athygli á því í áritun sinni.

5. gr.

    Orðin „og skoðunarmenn“ í 33. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    34. gr. laganna orðast svo:
    Ef endurskoðandi telur að nauðsynlegar upplýsingar vanti í ársreikninginn eða skýrslu stjórnar eða upplýsingar séu villandi og enn fremur ef hann telur að fyrir liggi atvik sem varðað geti stjórnendur ábyrgð skal hann vekja athygli á því í áritun sinni. Áritun endurskoðanda telst hluti ársreiknings og skal varðveitt ásamt honum.
    Endurskoðandi á rétt á að sitja fundi félagsins þar sem fjallað er um ársreikninga. Honum er óheimilt að gefa einstökum félagsmönnum eða öðrum upplýsingar um hag félags umfram það sem fram kemur í ársreikningi.

7. gr.

    35. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Skoðunarmenn.


    Þeir sem taka að sér að semja ársreikninga fyrir félög, skv. 1. gr., sem ekki eru skyld til að kjósa endurskoðanda í samræmi við lög eða samþykktir sínar skulu hafa þá reynslu í bókhaldi og reikningsskilum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins telst nauðsynleg til rækslu starfans. Þeir skulu staðfesta þá vinnu sem þeir inna af hendi varðandi reikningsskilin með undirskrift sinni og dagsetningu á ársreikninginn og telst undirskriftirn hluti ársreiknings.
    Ef kosinn er skoðunarmaður, einn eða fleiri, úr hópi félagsmanna sem trúnaðarmaður þeirra gagnvart stjórn, í samræmi við samþykktir félagsins, skal hann fylgjast með því að farið hafi verið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar um öflun, ráðstöfun og ávöxtun fjármuna og önnur atriði í rekstrinum á reikningsárinu.
    Skoðunarmönnum er óheimilt að gefa einstökum félagsmönnum eða öðrum upplýsingar um hag félags umfram það sem fram kemur í ársreikningi.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009. Hjá þeim sem hafa annað reikningsár en almanaksárið koma lög þessi þó ekki til framkvæmda fyrr en við upphaf fyrsta reikningsárs sem hefst eftir 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða lagafrumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga. Lög um bókhald hafa að geyma ákvæði um bókhaldsskyldu, bókfærslu og bókhaldsskjöl og geymslu þessara gagna, auk almennra ákvæða um ársreikninga fyrir önnur félög en þeirra sem falla undir lög um ársreikninga, en það eru hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög, auk tiltekinna sameignarfélaga og samlaga.
    Meginbreytingar þær sem hér eru lagðar til eru í samræmi við breytingar í frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga varðandi hlutverk endurskoðenda annars vegar og skoðunarmanna hins vegar. Til viðbótar er lagt til að heimild félaganna að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku eða ensku í stað íslensku verði víkkuð út til annarra félaga en þeirra sem hafa heimild til að hafa reikningsskilin í erlendum gjaldmiðli, svo og ákvæði varðandi geymslu bókhaldsgagna erlendis í allt að sex mánuði.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem samþykkt voru á síðasta vorþingi. Töluverðar breytingar voru gerðar á áður gildandi lögum og reglum um endurskoðendur. Lögin taka til endurskoðenda og starfa þeirra sem felast í endurskoðun eins og hún er skilgreind í lögunum. Samkvæmt þeim lögum geta ekki aðrir en þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoðað reikningsskil og áritað þau í samræmi við endurskoðunina. Í frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga er lagt til að falla frá endurskoðunarskyldu minni félaga eins og þau eru skilgreind í 98. gr. laga um ársreikninga, sbr. 11. frumvarps til breytinga á þeim lögum. Er það í samræmi við heimild í 2. mgr. 51. gr. í fjórðu tilskipun Evrópusambandsins, um ársreikninga félaga með takmarkaðri ábyrgð, að falla frá endurskoðunarkröfu minni félaga.
    Í lögum um bókhald er kosning endurskoðenda eða skoðunarmanna ekki gerð að skyldu hjá þeim félögum sem semja ber ársreikninga sína samkvæmt III. kafla laganna eins og er með félög með takmarkaða ábyrgð félagsaðila sem semja ársreikninga í samræmi við lög um ársreikninga. Undir III. kafla bókhaldslaga falla margvísleg félög, sjóðir og stofnanir sem stofnsett eru og starfrækt um ýmis áhuga- og hagsmunamál félagsmanna. Mörg þessara félaga, sjóða og stofnana hafa með höndum fjármuni og velta milljónum króna árlega. Þau þurfa að gera félagsmönnum sínum og öðrum grein fyrir öflun og ráðstöfun þeirra. Telja verður eðlilegt að hagsmunir félagsmanna í slíkum félagsskap séu tryggðir með bókhaldsskyldu og samningu ársreiknings. Þessum félögum er í sjálfvald sett að kjósa sér endurskoðanda samkvæmt samþykktum sínu eða að kröfu a.m.k. 20% félagsmanna á fundi félagsins eða velja sér eða kjósa skoðunarmann eins og hann er skilgreindur í lögunum. Yfirleitt er í samþykktum þessara félaga, sjóða og stofnana ákvæði um að kjósa skuli endurskoðanda eða skoðunarmann ársreikninga sem er þá aðkeypt þjónusta bókhaldsfróðra manna eða að kosnir eru skoðunarmenn úr hópi félagsmanna, þ.e. félagskjörnir skoðunarmenn. Félagskjörinn skoðunarmaður er í reynd fulltrúi félagsmanna sem ekki hafa aðgang að bókhaldi félagsins. Ekki er gerð krafa til sérstakrar bókhaldskunnáttu hjá þeim og er hægt að fela þeim hvert það hlutverk sem félagsaðilar og samþykktir segja þeim varðandi yfirferð reikningsuppgjörsins eða önnur sértæk atriði er varðar rekstur félagsins. Engin breyting er lögð til á slíku fyrirkomulagi.
    Orðið skoðunarmaður kemur víða fram í lögum og reglugerðum. Orðið kemur ekki alltaf fram með sömu merkinguna. Í átta lögum kemur það fram í tengslum við matsmenn verðmæta en í 13 lögum kemur það fram í tengslum við reikningsskil og ársreikninga. Skoðunarmenn eru skilgreindir í 32. gr. laga um bókhald sem „menn sem hafa þá reynslu í bókhaldi og viðskiptaháttum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins er nauðsynleg til rækslu starfsins.“ Samkvæmt sveitastjórnarlögum, nr. 45/1998, eru tveir skoðunarmenn kosnir af sveitarstjórn „sem skulu yfirfara ársreikning sveitarfélagsins“ auk þess að athuga einstök fjárhagsleg málefni sveitarfélagsins. Jafnframt er sveitarfélaginu skylt að ráða „löggiltan endurskoðanda eða endurskoðendafyrirtæki sem vinna skal endurskoðun hjá sveitarfélaginu“. Í lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, kemur fram hugtakið „sjálfstæður skoðunarmaður“, þ.e. sá sem hefur eftirlit með útgáfu á sértryggðum skuldabréfum og staðfestir Fjármálaeftirlið skipan hans.
    Í frumvarpinu er lagt til í 7. gr., sem er breyting á 35. gr. laganna, að þeir sem taki að sér að semja ársreikning skuli staðfesta þá vinnu sem þeir inna af hendi með undirskrift sinni og dagsetningu á ársreikninginn og telst sú undirskrift hluti hans. Er það ekki síst með tilliti til hagsmuna félagsmanna að ætla það með fulltingi laga að þeir sem veljast til slíkra starfa fyrir félagið eigi að hafa til að bera lágmarkskunnáttu í reikningsskilum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins er nauðsynleg til rækslu starfsins. Tekið skal þó fram að vinna þeirra telst ekki vera endurskoðun þar sem hún er skilgreind í lögum um endurskoðendur sem „óháð og kerfisbundin öflun gagna og mat á þeim í þeim tilgangi að láta í ljós rökstutt og faglegt álit endurskoðanda...“.
    Lagt er til að nota áfram orðið skoðunarmaður með sömu kröfum og er í lögum um bókhald um menn sem taka að sér að semja ársreikning fyrir félag jafnt sem einstaklinga í atvinnurekstri.
    Vaxandi tilhneigingar félaga til að hafa texta ársreiknings á ensku kemur einkum af því að um erlenda eignaraðild og/eða stjórnaraðild er að ræða. Það er því aukakostnaður hjá þeim sem þurfa að láta þýða texta ársreiknings á íslensku aðeins vegna þess að það ber að birta hann opinberlega með framlagningu hans hjá ársreikningaskrá.
    Því eru lagðar til breytingar á ákvæðinu um texta bókhaldsbókanna og ársreikninga Þegar heimilað var á árinu 2002 að félög gætu fengið að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum var jafnframt heimilað að þau ein mættu víkja frá því að texti bókhaldsbókanna og ársreikninga væri á íslensku. Texti mátti vera á dönsku eða ensku auk þess sem þau máttu hafa bókhaldsgögn sín erlendis vegna færslu bókhaldsins í allt að sex mánuði, en skylt var að flytja þau heim fyrr ef eftirlitsaðilar krefðust aðgangs að þeim. Reynsla sýnir að fjöldi félaga hafa ársreikninga sína á ensku þrátt fyrir að vera með reikningsskilin í íslenskum krónum og ekkert samband er á milli þess að færa bókhaldið í erlendum eða innlendum gjaldmiðli og texta bókhaldsins eða varðandi færslu bókhalds hérlendis eða erlendis. Er því lagt til í þessu frumvarpi að gera það að almennri heimild að texti bókhaldsbóka og ársreikninga megi vera á ensku eða dönsku og staðsetning bókhaldsgagna geti verið erlendis í allt að sex mánuði verði almenn og ekki bundin færslu þess í erlendum gjaldmiðli. Benda má á að rafrænt fært bókhald er að verða algengara og er þá alltaf óheftur aðgangur að rafrænum bókhaldsgögnum án tillits til hvar bókhald er vistað í heiminum. Tekið er þó fram að það verði að vera eðlilegar forsendur fyrir þessum frávikum, t.d. að um erlenda eignaraðild sé að ræða, svo og stjórnaraðild erlendra manna, þegar textinn er ekki á íslensku.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a-lið er lagt til að það verði heimilað þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, og þá helst ef um erlenda eignaraðild eða stjórnaraðild er að ræða, að hafa texta bókhaldsbókanna á dönsku eða ensku.
    Í b-lið er leiðrétt tilvísun til laga um ársreikninga, sem breyttist við endurútgáfu laganna.
    Í c-lið er lagt til að fella brott 2. málsl. 2. mgr., þar sem kveðið er á um hvaða tungumál skuli notuð, en lagt er til að heimildin verði almenn, sbr. a-lið.

Um 2. gr.


    Í a-lið er lagt er til að öll félög fái heimild til að varðveita bókhaldsgögn vegna færslu bókhalds þeirra erlendis í allt að sex mánuði án tillit til þess hvort þau færa bókhaldið í íslenskum gjaldmiðli eða erlendum.
    Í b-lið er um samræmingu á orðanotkun að ræða. Hugtakið „rafrænn“ hefur rutt brott orðum á borð við tölvubúnaður og tölvutækur.

Um 3. gr.


    Lagt er til að það verði heimilað þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, og þá helst ef um erlenda eignaraðild eða stjórnaraðild er að ræða, að hafa texta ársreiknings á dönsku eða ensku.

Um 4. gr.


    1. mgr. fjallar um endurskoðun reikningsskila hjá þeim aðilum sem ekki falla undir ákvæði laga um ársreikninga. Lagt er til að ákvæðið um að félagsmenn sem fara með tuttugu prósent atkvæða í tilteknum félögum, sjóðum og stofnunum, þ.e. sem falla undir 7. tölul. 1. mgr. laganna, geti krafist þess á fundi að kosinn verði endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki verði nú látið ná til allra félaga sem falla undir 1. gr. Ákvæðið um skoðunarmann er fellt brott úr 32. gr. laganna og er vísað til 7. gr. frumvarpsins. 4. mgr. núverandi 32. gr. verður 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar samkvæmt frumvarpinu.
    2. mgr. er núverandi 3. mgr. 32. gr. en 2. mgr. greinarinnar, um skoðunarmenn, er felld brott.
    3. mgr. er núverandi 2. mgr. 34. gr.

Um 5. gr.


    Lagt er til að fellt verði brott orðið skoðunarmenn í 33. gr. laganna.

Um 6. gr.


    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er felld brott 1. mgr. 34. gr. laganna, um skoðunarmenn, en 2. mgr. verður 1. mgr., þá eru ákvæði 35. gr. um endurskoðendur færð í 34. gr.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að setja sérstakt ákvæði um skoðunarmenn. Eins og fram kemur í inngangi er um að ræða menn sem hafa þá bókhalds- og reikningsskilakunnáttu að geta fært bókhald og samið ársreikninga hjá þeim aðilum sem ekki er skyldir til að hafa endurskoðendur. Þar sem þetta orð hefur unnið sér inn þegnrétt í reikningsskilum er talið eðlilegt þó ekki sé nema fyrir hinn almenna félagsmann sem treystir á vinnu þessara manna að um þá sé fjallað í lögum um bókhald. Hér er lagt til að félög sem ekki eru skyld til að kjósa sér endurskoðanda í samræmi við lög eða samþykktir sem félögin setja sér geti snúið sér til aðila sem hafa þessa þekkingu. Er fyrst og fremst litið til þeirra sem hafa að atvinnu að bjóða fyrirtækjum þessa þjónustu. Einnig getur þessi vinna verið unnin innan félags eða fyrirtækis af launþega þess, jafnvel stjórnarmanni eða eiganda. Þegar svo er gert er ætlast til að viðkomandi staðfesti þá vinnu sem hann hefur innt af hendi og skili því til hins almenna félagsmanns með framlagningu ársreiknings á félagsfundi eða birtingu hans hjá ársreikningaskrá ef um skilaskylt félag er að ræða. Ábyrgð reikningsskila er alltaf á stjórn félags og breytir það í engu ábyrgð stjórnar þótt endurskoðandi áriti ársreikning eða skoðunarmaður staðfesti með undirritun vinnu sína.
    Í 2. mgr. er tekið upp ákvæði, sem nú er í 1. mgr. 34. gr. laganna, um hlutverk félagskjörinna skoðunarmanna. Þeir eru fulltrúar félagsmanna sem ekki hafa aðgang að bókhaldi félagsins og eiga að gæta hagsmuna þeirra. Ekki er gerð krafa um sérstaka bókhaldskunnáttu en þeir þurfa að fullvissa sig um að eignir þær og skuldir sem eru tilgreindar séu raunverulega fyrir hendi og farið hafi verið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar varðandi tekjuöflun og kostnað. Einnig má fela þeim hvert það hlutverk sem félagsaðilar og samþykktir segja þeim varðandi önnur sértæk atriði er varðar rekstur félagsins.
    Í 3. mgr. eru samsvarandi ákvæði um þagnarskyldu skoðunarmanna og endurskoðenda.

Um 8. gr.


    Í greininni er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2009 en fyrir félög sem hafa annað reikningsár en almanaksárið taki lögin gildi við upphaf næsta reikningsárs eftir 1. janúar 2009.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 145/1994,
um bókhald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem leiðir af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem samþykkt voru á síðasta vorþingi. Samkvæmt þeim lögum geta ekki aðrir en þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoðað reikningsskil og áritað þau í samræmi við endurskoðunina. Meginbreytingar þær sem hér eru lagðar til eru í samræmi við breytingar í frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga varðandi hlutverk endurskoðenda annars vegar og skoðunarmanna hins vegar. Til viðbótar er lagt til að heimild félaganna til að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku eða ensku í stað íslensku verði víkkuð út til annarra félaga en þeirra sem hafa heimild til að hafa reikningsskilin í erlendum gjaldmiðli, svo og ákvæði varðandi geymslu bókhaldsgagna erlendis í allt að sex mánuði.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.