Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 253. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 407  —  253. mál.
Viðbót.




Beiðni um skýrslu



frá viðskiptaráðherra um peningamarkaðs- og skammtímasjóði.

Frá Kristni H. Gunnarssyni, Álfheiði Ingadóttur, Birki J. Jónssyni, Atla Gíslasyni,
Árna Þór Sigurðssyni, Eygló Harðardóttur, Grétari Mar Jónssyni,
Guðjóni A. Kristjánssyni, Helgu Sigrúnu Harðardóttur, Höskuldi Þórhallssyni,
Jóni Bjarnasyni, Jóni Magnússyni, Katrínu Jakobsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Magnúsi Stefánssyni, Siv Friðleifsdóttur, Steingrími J. Sigfússyni,
Valgerði Sverrisdóttur, Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði. Meðal þess sem óskað er eftir að fram komi í skýrslunni er eftirfarandi:
     1.      Reglur sem giltu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði fyrir hrun bankanna og þar til þeir voru gerðir upp.
     2.      Fjárfestingarstefna sjóðanna, hvort henni hafi verið fylgt og hversu oft og hvernig henni hafi verið breytt síðustu 18 mánuði fyrir lokun sjóðanna í október sl., t.d. er óskað eftir:
                  a.      yfirliti yfir breytingar á eignasamsetningu í sjóðunum á fyrrgreindu tímabili,
                  b.      skýringum á hvernig verðmyndun hafi verið framkvæmd á verðbréfum í sjóðunum, þ.m.t. bréfum sem ekki voru skráð á opinberan markað eða með félög sem menn vissu eða máttu vita að voru í vanda stödd,
                  c.      upplýsingum um hvernig breytingar á fjárfestingarstefnu sjóðanna voru kynntar, t.d. til Fjármálaeftirlitsins, hlutdeildarskírteinishafa, eða í Lögbirtingablaði og hvort Fjármálaeftirlitið hafi samþykkt þær breytingar.
     3.      Hvort rekstraraðilar eða eigendur þeirra hafi átt hagsmuna að gæta við stjórn hinna tilgreindu sjóða í aðdraganda bankahrunsins og þar til þeir voru gerðir upp. Í því sambandi verði m.a. gerð grein fyrir:
                  a.      hverjir voru og eru eigendur þeirra sjóða sem spurt er um og hver var eignarhlutur þeirra,
                  b.      hvort sjóðirnir hafi verið notaðir með einhverjum hætti til þess að halda uppi gengi hlutabréfa, t.d. með kaupum á skuldabréfum útgefnum af bönkunum sjálfum og aðilum og félögum tengdum eigendum bankanna,
                  c.      hvort verulegar breytingar hafi orðið á eignasamsetningu sjóðanna frá 1. janúar 2008 og til slita þeirra,
                  d.      hvort fullyrðingar um áhættustig (áhættuleysi) við kynningu og sölu sjóðanna á bréfum sínum hafi staðist,
                  e.      hugsanlegum fyrirmælum sjóðsstýringar, bankastjórnar, bankastjóra eða annarra hagsmunaaðila innan bankanna um að selja eignir sjóðanna: svo sem skuldabréf, hlutabréf, bankabréf og önnur verðbréf, innstæður hvers konar og önnur verðmæti í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða,
                  f.      sjóðsstjórum og stjórnum sjóðanna, aðalmönnum og varamönnum, við lokun sjóðanna og tilgreint hvaða stöðum þessir aðilar gegndu jafnhliða því að sitja í stjórnum sjóðanna og hvaða stöðum viðkomandi gegna nú.
     4.      Hvort einhver óeðlileg viðskipti hafi átt sér stað með bréf í tilgreindum sjóðum eða með eignir sem þeir fóru með síðustu 18 mánuði fyrir lokun sjóðanna, þ.m.t.:
                  a.      hvort tryggari kröfur í sjóðunum hafi verið seldar fyrir ótryggari kröfur,
                  b.      hvort viðskipti hafi átt sér stað við aðila sem tengjast bönkunum, þ.e. nákomna í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., og ef svo er hverjir þessir tengdu aðilar eru.
     5.      Samsetning hlutdeildarskírteinishafa tilgreindra peningamarkaðssjóða í aðdraganda bankahrunsins þar til þeir voru gerðir upp og hvernig hlutur þeirra skiptist, t.d.:
                  a.      hversu margir einstaklingar og lögaðilar, þ.e. lífeyrissjóðir, sveitarfélög, stofnanir og félög í eigu ríkisins, tryggingafélög, einkahlutafélög, önnur félög o.s.frv., áttu eignir í peningamarkaðs- og skammtímasjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings þegar Fjármálaeftirlitið f.h. ríkissjóðs tók yfir rekstur þeirra í byrjun október sl.,
                  b.      um hversu miklar eignir var að ræða, sundurliðað eftir fjölda hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóðum í hverjum banka fyrir sig og fjölda þeirra sem áttu innstæður á bilinu 0–5 millj. kr., 5–10 millj. kr., 10–50 millj. kr., 50–100 millj. kr., 100–500 millj. kr., 500–1.000 millj. kr. og meira en 1.000 millj. kr.,
                  c.      hver samanlögð eign var í hverjum banka og sjóði 19. júlí 2007, 16. október 2007, 1. janúar 2008, 1. júlí 2008 og 6. október 2008, hver var hæsta innstæða í hverjum banka og sjóði, og hve mikið var tekið út úr þeim síðustu vikuna fyrir yfirtöku ríkisins á bönkunum,
                  d.      að auki er óskað eftir upplýsingum um hvort til eru upptökur af símtölum sjóðsstjóra og/eða þjónustufulltrúa viðkomandi sjóða, rekstrarfélaga þeirra, eða banka við hlutdeildarskírteinishafa síðustu vikuna fyrir bankahrunið, og ef svo er ekki hver skýringin er.
     6.      Ákvarðanir stjórnvalda og stjórnenda bankanna, gömlu og nýju, til að endurfjármagna peningamarkaðs- og skammtímasjóðina og aðdraganda þessara ákvarðana. M.a. er óskað upplýsinga um:
                  a.      hver aðkoma ríkisstjórnarinnar, ráðherra og embættismanna ráðuneytanna og stjórnkerfisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka var í þessari atburðarás,
                  b.      á hverju sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins byggðist að láta loka öllum verðbréfasjóðum bankanna 6. október sl. og á hverju tilmæli Fjármálaeftirlitsins byggðust um að þeim skyldi slitið 17. október sl. og greitt úr þeim,
                  c.      hvort gömlu og nýju bankarnir, bankastjórar, bankastjórnir, bankaráð, bráðabirgðastjórnir/skilanefndir bankanna, sjóðsstjórnir og sjóðsstjórar hafi haft umboð og heimild stjórnvalda til að taka svo stórar ákvarðanir. Óskað er eftir að viðkomandi fundargerðir á tímabilinu þar sem fjallað er um kaup á skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða verði birtar sem viðaukar við skýrsluna,
                  d.      hvort keypt voru bankabréf, útgefin af Landsbankanum, Kaupþingi eða Glitni, og hvert var verðmat þeirra við kaupin,
                  e.      hvort stjórnendur peningamarkaðssjóðanna hafi leitað bestu verða við sölu á eignum sjóðanna, skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum, hvort kaupendur hafi leitað að bestu verðum á markaðnum við kaup á þessum eignum, hver keypti og hver er nú eigandi eignanna,
                  f.      hvernig þess var gætt að ákvæðum stjórnarskrár um fjárveitingarvald Alþingis væri fylgt.
     7.      Hversu miklu af skattfé ríkisins var ráðstafað, með beinum eða óbeinum hætti, til að endurfjármagna peningamarkaðssjóðina í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins og hvort annars konar fjárhagslegri fyrirgreiðslu var beitt, þ.m.t.:
                  a.      hversu mikið fé ríkissjóður hefur lagt til í þeim tilgangi að styrkja stofnfjár- og eiginfjárstöðu bankanna,
                  b.      hversu miklum fjármunum nýju ríkisbankarnir hafa, hver um sig, varið til kaupa á eignum peningamarkaðssjóðanna,
                  c.      hvernig kaup á eignum sjóðanna voru fjármögnuð.
     8.      Hvort gætt hafi verið jafnræðis við uppgjör tilgreindra peningamarkaðs- og skammtímasjóða annars vegar gagnvart eigendum verðbréfa í öðrum sjóðum í þessum þremur bönkum eða öðrum bönkum og sparisjóðum og hins vegar gagnvart fjármálastofnunum sem ekki áttu hlut að máli, þ.m.t.:
                  a.      hvort reglur um sjálfstæði og óhæði hafi verið virtar að vettugi þar sem bankarnir keyptu nær eingöngu eignir í „sínum“ sjóðum,
                  b.      mati á hvort ekki hefði verið eðlilegra að ríkisbankarnir þrír hefðu gætt jafnræðis og keypt eignir út úr öllum peningamarkaðssjóðum innlendra fjármálastofnana.
                  c.      hvað sambærileg fyrirgreiðsla mundi kosta ríkissjóð / nýstofnaða ríkisbanka, þ.e. að kaupa út bréf í peningamarkaðssjóðum smærri fjármálafyrirtækja.
     9.      Hvernig staðið var að slitum og uppgjöri tilgreindra peningamarkaðssjóða af hálfu fulltrúa ríkisvaldsins, á hvaða aðferðafræði var byggt og hvort samræmis hafi verið gætt. M.a. verði greint frá:
                  a.      eignaverðmæti þeirra eigna sem standa/stóðu á bak við sjóðina, svo sem skuldabréfa, hlutabréfa, bankabréfa og annarra verðbréfa, innstæða hvers konar og annarra verðmæta í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða,
                  b.      hvort um var að ræða bréf eða aðra fjármálagerninga frá tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum, t.d. Stoðum,
                  c.      hvort kaup á eignum peningamarkaðs- og skammtímasjóðanna hafi verið tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar,
                  d.      hvort rétt hafi verið staðið að slitum og uppgjöri sjóðanna og í samræmi við góða reikningsskilavenju,
                  e.      hversu hátt hlutfall var greitt úr hverjum sjóði og hverjar voru tíu hæstu greiðslur sem greiddar voru til einstaklings eða lögaðila,
                  f.      hverjar svonefndar viðskiptalegar forsendur nýju ríkisbankanna, hvers um sig, voru fyrir kaupum á eignum af peningamarkaðs- og skammtímasjóðum gömlu bankanna þriggja, svo sem skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum? Óskað er eftir að sjálfstætt mat matsfyrirtækja um verðgildi eignanna og greinargerð þeirra til bankanna verði birt sem viðauki skýrslunnar,
                  g.      hvernig stendur á þeim mun sem var á útgreiðslu úr peningamarkaðs- og skammtímasjóðum viðskiptabankanna annars vegar og hins vegar úr peningamarkaðssjóði BYR sem var nær 96% hlutfalli innstæðna,
                  h.      hvort við kaup á skuldabréfum út úr þessum sjóðum og greiðslu á þeim hafi verið borgað raunvirði og hvort jafnvel sé eftir að borga hluta af þeim peningum síðar,
                  i.      að auki er óskað eftir að ársreikningar peningamarkaðs- og skammtímasjóða í rekstri bankanna og félaga þeirra, svo sem Glitnis sjóða hf. í rekstri Glitnis banka, Landsvaka hf. í rekstri Landsbankans, og Rekstrarfélag Kaupþings Banka hf. í rekstri Kaupþings banka, fyrir síðustu fimm ár verði lagðir fram sem viðaukar við skýrsluna.
     10.      Tillögur til úrbóta.
    Óskað er eftir því að skýrslubeiðnin sé prentuð með skýrslu ráðherra og jafnframt að skýrslan verði tekin til umræðu þegar hún hefur verið lögð fram á Alþingi.

Greinargerð.


    Farið er fram á að viðskiptaráðherra afli allra upplýsinga um viðskipti ríkisbankanna, hvers fyrir sig, sem hafa varðað peningamarkaðs- og skammtímasjóði gömlu bankanna þriggja og endurfjármögnun þeirra síðan Fjármálaeftirlitið f.h. ríkissjóðs tók yfir rekstur þeirra í byrjun október sl. og geri grein fyrir þeim í skýrslu til Alþingis.
    Um er að ræða alla peningamarkaðs- og skammtímasjóði Glitnis sjóða hf. í rekstri Glitnis banka, Landsvaka hf. í rekstri Landsbankans, og Rekstrarfélag Kaupþings banka hf. í rekstri Kaupþings banka. Mikill fjöldi fólks lagði peninga inn á þessa reikninga í góðri trú. Svo virðist sem það hafi jafnvel verið sérstaklega hvatt til þess af bönkunum og jafnvel til að færa fé af öruggum reikningum yfir í sjóði sem áhætta var bundin við.
    Komið hefur fram að miklir fjármunir voru teknir út úr peningamarkaðssjóðunum skömmu áður en bankarnir komust í þrot og voru þjóðnýttir. Það kann að benda til þess að einhverjir hafi haft vitneskju um var hvað í vændum og getað forðað sér en aðrir ekki.
    Fjármálaeftirlitið f.h. ríkissjóðs þjóðnýtti og tók yfir rekstur gömlu bankanna þriggja, Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings, í byrjun október sl. Í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið beindi tilmælum til ríkisbankanna þriggja um upplausn sjóðanna og að samræmis skyldi gætt voru öll skuldabréf sem eftir voru í sjóðunum keypt af bönkunum áður en greitt var úr þeim. Áður höfðu gömlu bankarnir keypt bréf úr peningamarkaðssjóðum sínum.     Talið er að bankarnir, þeir gömlu undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og skilanefnda fyrir þess hönd, og nýju bankarnir undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og bankastjórna fyrir þess hönd, hafi samtals varið allt að 200.000 millj. kr. í kaup á bréfum sjóðanna. Fyrir bréf sjóðanna var því greitt með ríkisfé, bæði þau sem gömlu og nýju bankarnir keyptu, enda bankarnir komnir í hendur ríkisins.
    Erfitt hefur reynst að afla staðfestra upplýsinga um uppgjör sjóðanna, eignasamsetningu þeirra, verðmæti eigna á bak við þá og hreyfingar úr sjóðunum. Ríkisstjórnin, sérstaklega viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, hafa jafnvel borið við bankaleynd.
    Mikilvægir þjóðarhagsmunir standa til þess að fram komi hvernig aðdraganda og ákvörðun var háttað um ráðstöfun allt að 200.000 millj. kr. af ríkisfé í þessu máli. Skýrslubeiðendur telja að bankaleynd eigi ekki við þegar svo miklir hagsmunir eru í húfi auk þess sem ekki er óskað upplýsinga um málefni nafngreindra einstaklinga eða lögaðila. Bent er á að Fjármálaeftirlitið hefur heimildir til að krefjast flestra ef ekki allra þeirra gagna sem skýrslubeiðendur óska eftir, sbr. t.d. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Skýrslubeiðendur telja skýrslu þessa afar mikilvæga svo Alþingi sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu.