Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 265. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 449  —  265. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á samkeppnislögum.

Flm.: Ármann Kr. Ólafsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Greinargerð.


    Í kjölfar bankahrunsins er mikilvægt að hefja strax endurreisn á íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Til að það sé mögulegt á sem stystum tíma verður að ríkja öflug samkeppni hér á landi. Því miður er mikil hætta á að ríkjandi ástand ýti undir samþjöppun og hún verði enn meiri en við höfum upplifað á undanförnum árum. Slíkt getur dregið mjög úr hraða endurreisnarinnar þar sem frumkvæði og framtakssemi þjóðarinnar nær ekki fullum skriðþunga. Í skýrslu Samkeppniseft,irlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi er greint frá reynslu annarra ríkja af þýðingu samkeppni í efnahagskreppum og hvaða lærdóm megi draga af henni. Sú reynsla og rannsóknir í hagfræði sýna að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.
    Nú þegar við stöndum frammi fyrir miklum efnahagserfiðleikum í kjölfar bankahrunsins hefur aldrei verið mikilvægara að horfa til framtíðar og undirbúa næstu skref til viðreisnar íslensku efnahagslífi. Ljóst er að samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja er gallað. Hringamyndun og krosseignarhald hefur fengið að þrífast hér á landi, fákeppni hefur blómstrað og fyrirtæki hafa misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni um áraraðir. Þetta sést glöggt þegar horft er til smásöluverslunar, matvöruiðnaðarins, fjölmiðla- og fjarskiptamarkaðarins, samgöngufyrirtækja og lyfjamarkaðarins svo eitthvað sé nefnt.
    Íslenskt þjóðfélag má engan tíma missa. Krónan hefur fallið mjög hratt og hafa verðhækkanir ekki látið á sér standa eðli málsins samkvæmt. Nauðsynlegt er að þær gangi með sama hraða til baka í styrkingarferli krónunnar. Ef fákeppni eða samkeppnisskortur ríkir á markaðnum mun myndast mikil tregða til verðlækkana eins og sagan og dæmin hafa sýnt okkur. Við slíku ástandi verður að sporna og má ljóst vera að forsenda þess er öflugri samkeppnismarkaður.
    Mörg úrræði eru til að efla samkeppni innan núverandi löggjafar. Önnur kalla á að reglu- og lagaumgjörð fyrirtækjanna eða samkeppnismarkaða sé breytt og úrræði Samkeppniseftirlitsins efld. Sérstaklega mikla áherslu þarf að leggja á að hlúa að og bæta rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, m.a. með því að ryðja úr vegi hindrunum sem takmarka möguleika nýrra fyrirtækja til að komast inn á samkeppnismarkaði (aðgangshindranir), eða möguleika smærri fyrirtækja til að vaxa við hlið stærri fyrirtækja, sbr. m.a. fyrrgreinda skýrslu Samkeppniseftirlitsins.