Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 267. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 483  —  267. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „60% þess virðisaukaskatts“ tvívegis í 1. mgr. kemur: virðisaukaskatt.
     b.      Við bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
             Endurgreiða skal sveitarfélögum virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið af vinnu manna á byggingarstað vegna nýbygginga og vegna vinnu við endurbætur eða viðhald húsnæðis í eigu sveitarfélaga. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Eigendum íbúðarhúsnæðis er í dag endurgreiddur hluti af þeim virðisaukaskatti sem þeir greiða af vinnu iðnaðar/verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds. Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af byggingarefni, vélavinnu né sérfræðiþjónustu, t.d. vegna þjónustu verkfræðinga eða arkitekta. Það er skattstjóri, í því umdæmi þar sem umsækjandi er skráður með lögheimili, sem afgreiðir endurgreiðslubeiðnir þessar.
    Markmið frumvarpsins er að hækka þessa endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald. Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar er talið ráðlegt að láta endurgreiðsluna einnig ná til framkvæmda á vegum sveitarfélaga. Það er gert til að ýta undir og styðja við mannfrek verkefni í byggingariðnaði á þeirra vegum hvort heldur sem um er að ræða nýbyggingar eða viðhalds- og endurbótaverkefni og koma þannig í veg fyrir að stöðva þurfi framkvæmdir sem þegar eru hafnar og stuðla að fjölgun starfa á sviði sem orðið hefur illa úti vegna samdráttar í samfélaginu.
    Endurgreiðsla nemur í dag 60% af greiddum virðisaukaskatti og er nánar útfærð í reglugerð. Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af þessu tagi var fyrst lögfest árið 1989. Til ársins 1996 var virðisaukaskattur vegna vinnu manna á byggingarstað endurgreiddur að fullu. Sú heimild var lækkuð niður í 60% með lögum nr. 86/1996, um breytingu á lögum nr. 50/ 1988, og var sú breyting rökstudd með vísan í breytingar á vörugjaldslögum, nr. 97/1987, sem orsökuðu skerðingu á tekjum ríkissjóðs. Lækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði var gerð til að mæta þessu tekjutapi ríkisins. Skömmu síðar var endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald einnig lækkuð í 60%, sbr. lög nr. 149/1996, um breytingu á lögum nr. 50/1988.
    Hækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts til þessara aðila er vænleg leið til að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna þeirra efnahagsþrenginga sem dunið hafa yfir þjóðina. Auk þess sem breytingin mun stuðla að minni undanskotum frá skatti og mögulega minnka „svarta“ atvinnustarfsemi.
    Fyrr á þessu þingi lagði Jón Bjarnason fram fyrirspurn (156. mál) til fjármálaráðherra um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði. Í svari ráðherra kemur fram að hann hefur ekki áform um að beita sér fyrir breytingum á núgildandi reglum og vísar í því efni til stöðu ríkissjóðs. Á hinn bóginn er í svarinu viðurkennt að hækkað endurgreiðsluhlutfall hvetur til framkvæmda, en það er einmitt mikilvægt þegar atvinnuástandið er jafn bágt og nú er orðið og horfur eru á á næstunni, m.a. í byggingargeiranum, og getur jafnframt dregið úr greiðslum vegna atvinnuleysisbóta. Ekkert mat er lagt á þann þátt málsins af hálfu fjármálaráðuneytisins og vekur það nokkra furðu.





Fylgiskjal.


Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði.
(Þskj. 288, 156. mál 136. löggjafarþings.)


     1.      Hverjar eru upphæðir endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggingaraðila vegna vinnu á byggingarstað sl. þrjú ár, sundurliðað eftir nýbyggingum, endurbótum eða viðhaldi á íbúðarhúsnæði?
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra eru endurgreiðslur vegna nýbyggingar eða endurbóta og viðhalds á íbúðarhúsnæði til eigin nota sem hér segir:

2005 2006 2007 2008*
Endurbætur og viðhald kr. 372.000.000 506.000.000 532.000.000 299.000.000
Nýbyggingar kr. 161.000.000 244.000.000 472.000.000 264.000.000
Samtals kr. 533.000.000 750.000.000 1.004.000.000 563.000.000
* Tímabilið janúar.ágúst 2008.

     2.      Hefur verið lagt mat á hvort og þá hve stór hluti af heildarlaunum fyrir þessa vinnu er ekki gefinn upp til skatts?
    Ekki liggur fyrir sérstakt mat á því hvort eða hve stór hluti af heildarlaunum vegna vinnu við íbúðarhúsnæði er ekki gefinn upp til skatts. Í þessu sambandi má benda á að í skýrslu fjármálaráðherra um umfang skattsvika sem lögð var fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002.2003 kemur fram að erfitt sé að leggja mat á það hvort svört atvinnustarfsemi hafi aukist vegna lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 100% í 60% árið 1997 og þá hversu mikið.

     3.      Kemur til greina að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskattsins? Hefur ráðherra slíkar aðgerðir til skoðunar og hverjir væru kostir og gallar við að hækka endurgreiðsluhlutfallið verulega?
    
Upphaflega var endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði 100% en hlutfallið var lækkað í 60% á árunum 1996–1997. Sú breyting tengdist aukinni fjárþörf ríkisins vegna breytinga á lögum um vörugjald. Upphaflega endurgreiðslan var lögfest þar sem ljóst þótti að full skattskylda á þessu sviði hefði í för með sér hækkun á byggingarkostnaði og þar með byggingarvísitölu. Helsti kostur þess að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts er hvatning til eigenda íbúðarhúsnæðis að fara út í endurbætur eða viðhald á eign sinni en aftur á móti mundi hækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts auka útgjöld ríkissjóðs sem tæpast eru forsendur fyrir um þessar mundir. Slíkar aðgerðir eru því ekki til skoðunar sem stendur.