Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 270. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 547  —  270. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um gjaldþrot fyrirtækja að kröfu hins opinbera.

     1.      Hversu mörg fyrirtæki hafa verið lýst gjaldþrota árlega síðustu 10 árin vegna skulda við opinbera aðila?
    Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar frá tollstjóra. Eru þær byggðar á kröfum embættisins sem innheimtir opinber gjöld í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur sem eru á milli 65–70% af opinberum gjöldum á landsvísu. Ekki reyndist unnt að fá umbeðnar upplýsingar úr tekjubókhaldskerfi ríkisins sem heldur utan um þessar kröfur, en embættið hefur haldið hluta þessara upplýsinga til haga. Leitað var til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna fyrirspurnarinnar en í ljós kom að málaskrá dómstólsins býður ekki upp á að slíkar upplýsingar séu unnar upp úr henni. Þær upplýsingar sem á eftir fara eru vegna tímabilsins 2002–2008. Ekki eru til handhægar upplýsingar frá fyrri árum.
    Í töflunni eru upplýsingar um heildarfjölda gjaldþrotaskiptabeiðna og fjölda gjaldþrotaskiptaúrskurða innan sama árs. Slíkar upplýsingar gefa til kynna hversu margir aðilar komast hjá gjaldþrotaúrskurði með því að gera greiðsluáætlun hjá innheimtumanni ríkissjóðs, fá leiðréttingu í gegnum framtalsskil eða greiða upp kröfuna.

Fjöldi gjaldþrotaskiptabeiðna Fjöldi úrskurða
Ár Lögaðilar Lögaðilar
2002 412 213
2003 432 258
2004 500 282
2005 603 237
2006 503 165
2007 582 322
2008 626 291


     2.      Hvernig skiptast mál þessara fyrirtækja eftir fjárhæð krafna (innan við 250 þús. kr., á bilinu 250–500 þús. kr., 500–750 þús. kr., 750–1.000 þús. kr., 1–2,5 millj. kr., 2,5–5 millj. kr., 5–7,5 millj. kr., 7,5–10 millj. kr., 10–15 millj. kr., 15–20 millj. kr., 20–25 millj. kr., hærri en 25 millj. kr.) og hver er skiptingin eftir kjördæmum?
    Fjárhæðir gjaldþrotaskiptabeiðna eru alltaf yfir 1.000.000 kr., en samkvæmt verklagsreglum sem giltu út árið 2008 varð fjárhæð beiðna að ná a.m.k. þeirri fjárhæð. Nú hefur þetta viðmið verið hækkað í 2.000.000 kr. Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu á fjárhæð krafna né skiptingu eftir kjördæmum.

     3.      Hver hefur verið árlegur innheimtukostnaður vegna þessara aðila, bæði fastur innheimtukostnaður og kostnaður vegna vinnu lögfræðinga?
    Innheimtukostnaður er einungis í formi útlagðs kostnaðar. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, skal greiða 3.900 kr. fyrir hverja gjaldþrotaskiptabeiðni. Jafnframt þarf að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði vegna vinnu skiptastjóra. Fram til ársins 2003 var sú fjárhæð 150.000 kr. en frá þeim tíma til dagsins í dag 250.000 kr. Sú trygging fæst endurgreidd í héraðsdómi ef máli lýkur áður en til úrskurðar kemur. Þess má geta að skiptakostnaður er forgangskrafa samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sem felur í sér að ef einhverjar eignir finnast greiðist skiptakostnaður af andvirði þeirra þannig að útlagður skiptakostnaður fæst endurgreiddur.