Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 337. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 577  —  337. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Umfjöllun fastanefndar um mál sem vísað hefur verið til hennar skal ekki taka skemmri tíma en sex vikur. Ákveði nefnd að senda mál til umsagnar skal að lágmarki gefinn tveggja vikna umsagnarfrestur. Þó getur nefnd ákveðið að umfjöllun um mál taki skemmri tíma, þó aldrei minna en eina viku, enda séu a.m.k. sjö þingmenn því samþykkir en í fjárlaganefnd níu þingmenn. Þá getur aukinn meiri hluti nefndar ákveðið að umsagnarfrestur verði styttur en verði þó aldrei styttri en þrír virkir dagar.

2. gr.

    Við 63. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal þingmaður sem er flutningsmaður frumvarps eða tillögu til þingsályktunar eiga þess kost að mæla fyrir málinu eigi síðar en á 10. þingdegi eftir framlagningu þess. Kjósi þingmaður að færa sér þetta í nyt skal forseti skipuleggja umræðu um málið. Í því felst m.a. heimild til að ákveða heildarræðutíma um málið og skipta honum milli þingflokka. Að öðrum kosti fer um umræður um málið með hefðbundnum hætti.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2009.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á þingsköpum. Annars vegar lúta þær að því að í þingsköpum verði nánar kveðið á um þinglega meðferð mála í fastanefndum. Þannig er lögð til sú meginregla að málsmeðferð í fastanefnd taki ekki skemmri tíma en sex vikur og að frestur sem veittur er til að utanaðkomandi aðilar geti gefið skriflegar umsagnir um þingmál verði eigi skemmri en tvær vikur. Sé það vilji afgerandi meiri hluta nefndarmanna, þ.e. sjö af níu í öllum fastanefndum nema fjárlaganefnd, þar sem meiri hlutinn þyrfti að vera níu þingmenn af ellefu, að víkja frá meginreglunni skal málsmeðferð í fastanefnd eigi að síður aldrei taka skemmri tíma en eina viku og umsagnarfrestur verði aldrei styttri en þrír virkir dagar.
    Hins vegar er lagt til að þingmaður sem er flutningsmaður frumvarps eða tillögu til þingsályktunar skuli eiga þess kost að mæla fyrir málinu eigi síðar en á 10. þingdegi eftir framlagningu þess. Ef þingmaður velur að fara þessa leið skal forseti Alþingis skipuleggja umræðu um málið innan tilskilinna tímamarka og hefur þá m.a. heimild til að ákveða heildarræðutíma um málið og skipta honum milli þingflokka. Kjósi þingmaður að málið verði tekið á dagskrá með hefðbundnum hætti, þ.e. eftir ákvörðun forseta, gilda almennar reglur þingskapa um ræðutíma.
    Lagt er til að breytingarnar öðlist gildi 1. maí 2009 þannig að hægt verði að beita þeim frá þeim tíma sem nýtt þing kemur saman að loknum kosningum í vor.