Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 350. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 598  —  350. mál.




Frumvarp til laga



um almennan eignarskatt.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til skattlagningar á eignum.

2. gr.
Skattskyldir aðilar.

    Skylda til að greiða eignarskatt af öllum eignum sínum hvílir á mönnum sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga um tekjuskatt og lögaðilum sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum 2. gr. sömu laga.
    Allir aðilar sem eiga eignir hér á landi skv. 4.–8. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt skulu greiða eignarskatt af þeim eignum.
    Aðilar sem tilgreindir eru í 4. gr. laga um tekjuskatt skulu undanþegnir eignarskatti.

3. gr.
Skattstofn.

    Eignarskattsstofn er þær eignir sem eftir verða þegar frá verðmæti eigna sem um ræðir í 72. gr. laga um tekjuskatt hafa verið dregnar skuldir skattaðila sem um ræðir í 75. gr. sömu laga.
    Eignarskatt skal miða við eignarskattsstofn skattaðila í árslok. Þó mega þeir sem með leyfi skattstjóra nota annað reikningsár en almanaksár telja fram eignir sínar í lok þess reikningsárs síns sem er næst á undan skattálagningu.
    Lögaðilum sem bera ótakmarkaða skattskyldu skal heimilt að draga frá eignum sínum hlutafé, stofnsjóði og nafnskráð stofnfé.
    Eignarskattsstofni þeirra sem falla undir 80. gr. laga um tekjuskatt skal skipt að jöfnu og eignarskattur reiknaður af hvorum helmingi fyrir sig.
    Um heimild til lækkunar á eignarskattsstofni og mat skattskyldra eigna gilda ákvæði 65. og 73. gr. laga um tekjuskatt eftir því sem við getur átt.

4. gr.
Skattprósenta og útreikningur eignarskatts.

    Eignarskattur er 0,6% af eignarskattsstofni.
    Af fyrstu 15.000.000 kr. af eignarskattsstofni manna greiðist enginn skattur.

5. gr.
Framtöl, skýrslugjafir, álagning, eftirlit, kærur, innheimta o.fl.

    Skattstjórar annast álagningu eignarskatts á skattaðila samkvæmt framtali hans.
    Ákvæði VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt gilda um eignarskatt eftir því sem við á.

6. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka þegar gildi og koma til framkvæmdar við álagningu opinberra gjalda árið 2010.

Greinargerð.


    Markmið frumvarpsins er að auka tekjur ríkisins vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs og jafna stöðu eignaminni einstaklinga gagnvart hinum eignameiri. Ætla má að þeir eignaminni séu fremur yngra fólk eða tekjulitlir einstaklingar sem vegna stutts starfsaldurs eða minni ráðstöfunartekna hafa ekki byggt upp eignir.
    Eignarskattur á sér langa sögu en var afnuminn á árinu 2004 með lögum nr. 129/2004. Álagning frumvarpsins byggist á sams konar sjónarmiðum og þá voru í gildi en ekki hafa þó verið tekin upp í það sérstök ákvæði er lúta að bankainnstæðum, ríkisverðbréfum og hlutafjáreign að tilteknu marki eins og þá giltu. Ekki heldur hafa verið sett í frumvarpið ákvæði er undanþiggja tiltekna aðila eða tilgreinda starfsemi frá álagningu eignarskatts sem hreinsuð voru út með tilgreindum breytingalögum.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir álagningu eignarskatts á nettóeignir einstaklinga og lögaðila og er lagt til að skattfrjáls eignarskattsstofn einstaklinga verði 15 millj. kr. og 30. millj. kr. hjá hjónum og sambýlisfólki. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra má ætla að eignarskattur einstaklinga miðað við framtöl ársins 2008 og ákvæði frumvarpsins hefði orðið um 2,5 milljarðar kr.


Fylgiskjal.


Reiknaður eignarskattur einstaklinga miðað við mismunandi álagningarforsendur og skattstofna samkvæmt framtölum ársins 2008 (millj. kr.).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.