Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 357. máls.

Þskj. 607  —  357. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Viðauki við lögin orðast svo:

Viðauki.

    Til iðnaðar skv. 1. mgr. 2. gr. skulu teljast eftirtaldar atvinnugreinar samkvæmt Íslenskri atvinnugreinaflokkun, ÍSAT2008:

05     Kolanám.
06     Vinnsla á hráolíu og jarðgasi.
07     Málmnám og málmvinnsla.
08     Nám og vinnsla annarra hráefna úr jörðu.
09    Þjónustustarfsemi við námuvinnslu.
Úr 10     Matvælaframleiðsla.
10.20.4     Framleiðsla lagmetis úr fiskafurðum, krabbadýrum og lindýrum.
10.3     Vinnsla ávaxta og grænmetis.
10.42     Framleiðsla á smjörlíki og svipaðri feiti til manneldis.
10.6     Framleiðsla á kornvöru, mjölva og mjölvavöru.
10.7    Framleiðsla á bakarís- og mjölkenndum vörum.
10.8     Framleiðsla á öðrum matvælum.
10.9     Fóðurframleiðsla.
11     Framleiðsla á drykkjarvörum.
12     Framleiðsla á tóbaksvörum.
13     Framleiðsla á textílvörum.
14     Fatagerð.
15     Framleiðsla á leðri og leðurvörum.
16    Framleiðsla á viði, viðarvörum og korki, önnur en húsgagnagerð; framleiðsla á vörum úr hálmi og fléttuefnum.
17     Framleiðsla á pappír og pappírsvöru.
18     Prentun og fjölföldun upptekins efnis. Þó ekki 18.20.0, fjölföldun upptekins efnis.
19     Framleiðsla á koksi og hreinsuðum olíuvörum.
20     Framleiðsla á efnum og efnavörum.
21     Framleiðsla á lyfjum og efnum til lyfjagerðar.
22     Framleiðsla á gúmmí- og plastvörum.
23     Framleiðsla á vörum úr málmlausum steinefnum.
24     Framleiðsla málma.
25     Framleiðsla á málmvörum, að undanskildum vélum og búnaði.
26     Framleiðsla á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum.
27     Framleiðsla á rafbúnaði og heimilistækjum.
28     Framleiðsla á öðrum ótöldum vélum og tækjum.
29     Framleiðsla á vélknúnum ökutækjum og tengivögnum.
30     Framleiðsla annarra farartækja.
31     Framleiðsla á húsgögnum og innréttingum.
32     Framleiðsla, ót.a.
33     Viðgerðir og uppsetning vélbúnaðar og tækja.
Úr 38     Sorphirða, meðhöndlun og förgun sorps; endurnýting efnis.
38.3     Endurnýting efnis.
41    Bygging húsnæðis; þróun byggingarverkefna. Þó ekki 41.10.0, þróun byggingarverkefna.
42     Mannvirkjagerð.
43     Sérhæfð byggingarstarfsemi.
Úr 45     Sala, viðgerðir og viðhald á vélknúnum ökutækjum og tengivögnum.
45.2     Bílaviðgerðir og viðhald.
Úr 58     Útgáfustarfsemi.
58.2     Hugbúnaðarútgáfa.
62     Þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni.
Úr 63     Starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu.
63.1     Gagnavinnsla, hýsing og tengd starfsemi, vefgáttir.
Úr 74     Önnur sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi.
74.2     Ljósmyndaþjónusta.
95     Viðgerðir á tölvum og hlutum til einka- og heimilisnota.
Úr 96     Önnur þjónustustarfsemi.
96.02     Hárgreiðslu- og snyrtistofur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2009 vegna tekna ársins 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í núgildandi lögum um iðnaðarmálagjald er um skilgreiningu á iðnaði vísað til Íslenskrar atvinnugreinaflokkunar frá árinu 1995, ÍSAT 95. Ný flokkun, ÍSAT2008, tók gildi 1. janúar 2008 og hefur hún verið tekin í notkun í skattkerfinu og mun verða notuð við álagningu opinberra gjalda ársins 2009. Af þeim sökum er nauðsynlegt að gera þá tæknilegu breytingu að breyta atvinnugreinaflokkun úr ÍSAT 95 í ÍSAT2008. Flokkunin er byggð á nýrri atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins, NACE Rev. 2, sem hefur gilt í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins frá 1. janúar 2008. Frá þeim tíma hefur nýju flokkuninni verið beitt í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og í opinberri hagskýrslugerð af Hagstofu Íslands.
    Gildistaka hins nýja flokkunarkerfis er lögbundin samkvæmt EES-samningnum. Atvinnugreinaflokkun er meðal mikilvægustu flokkunarkerfa í hagskýrslugerð, þar sem samræmt flokkunarkerfi tryggir samanburðarhæfni á hagstærðum atvinnulífsins milli þjóða. Öllum lögskráðum félögum og einstaklingum í atvinnurekstri ber samkvæmt því að hafa skráða starfsemi samkvæmt ÍSAT2008 í fyrirtækjaskrá frá og með 1. janúar 2008. ÍSAT2008 leysir af hólmi ÍSAT 95 frá árinu 1995. Uppbygging flokkunarkerfisins er í grunninn óbreytt þar sem fyrstu fjórir stafirnir eru í samræmi við NACE og fimmti stafur notaður þar sem talin er þörf á meiri sundurgreiningu en NACE-flokkunarkerfið býður upp á. Þar sem NACE Rev. 2 er töluvert ítarlegra en fyrri útgáfa þá fækkar séríslenskum undirgreinum frá því sem var í ÍSAT 95.
    Með frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á gjaldskyldu eða fjölda gjaldskyldra aðila heldur er einungis um tæknilega breytingu að ræða.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 134/1993,
um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum.

    Markmið þessa frumvarps er að innleiða nýjan staðal um atvinnugreinaflokkun fyrir álagningu iðnaðarmálagjalds þannig að í stað IST95 staðalsins komi IST 2008. Ekki eru gerðar efnisbreytingar á álagningunni að öðru leyti.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.