Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 614  —  307. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um framlög til framkvæmdar byggðaáætlunar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er heildarfjárhæð sem varið hefur verið til byggðaáætlunar á árunum 2006–2009? Svar óskast sundurliðað eftir verkefnum og árum.

    Eftirfarandi tafla sýnir yfirlit um öll framlög til verkefna sem fjármögnuð eru af fjárheimildum til byggðaáætlunar. Í sumum tilfellum getur verið um að ræða greiðslu t.d. á árinu 2006 til verkefna sem að mestu leyti voru unnin á árinu 2005 og í öðrum tilvikum getur verið um að ræða verkefni sem ekki lýkur fyrr en á árinu 2010 og koma því ekki til uppgjörs fyrr en þá. Í þessari töflu er eingöngu gerð grein fyrir greiðslum frá iðnaðarráðuneyti en í mörgum verkefnum, t.d. samstarfsverkefnum með öðrum ráðuneytum, tvöfaldast heildarumfang verkefna með mótframlagi annarra þáttakenda.

Ráðstöfun fjárheimilda byggðaáætlunar 2006–2009, millj. kr.
Viðfang 2006 2007 2008 Áætlun 2009
Vaxtarsamningar:
Vesturland 1.227 35.024 20.000 10.000
Eyjafjörður 30.244 30.905 30.000 30.000
Norðvesturland 30.000 30.000
Vestfirðir 15.017 25.000 20.000 30.000
Austurland 4.607 20.984 10.000 30.000
Norðausturland 30.000 30.000
Suðurland 4.510 30.000 20.000 25.000
Ýmis kostnaður vegna vaxtarsamninga 1.673 524
Samtals: 57.277 141.912 160.524 185.000
Samstarfsverkefni með öðrum ráðuneytum:
Staðardagskrá 21 og sjálfbær byggðaþróun í fámennum sveitarfélögum 3.500 3.500 3.500
Uppbygging ferðaþjónustu á landsbyggðinni 15.000
Átak í menntun og menningu á landsbyggðinni 50.000
Háskólasetur Vestfjarða og þekkingarsetur Austurlands 36.000 37.080 38.452 40.000
Efling rannsókna og þróunarstarfsemi á sviði sjávarútvegs 24.200 2000 3.000
Upplýsingaveita sveitarfélaga
Öndvegissetur í auðlindalíftækni 21.127 21.513
Samtals: 146.327 62.093 43.952 46.500
Verkefni á vegum iðnaðarráðuneytis og stofnana þess:
Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri 60.000 120.000 90.000 90.000
Byggðastofnun, rafrænt samfélag 31.800 24.800
Norrænt samstarf, NPP/NORA/ESPON 82.820 43.169 75.606 75.000
Ýmis kynningar- og undirbúningskostnaður 3.407 5.863 4.000
Rannsóknastofn. HA, samfélagsáhrif á Austurlandi 4.000
Verkefni í ferðaþjónustu 200.000
Verkefni unnin frá Höfn, Ísafirði og Vestmannaeyjum 56.034 23.966
Samtals: 178.027 167.169 252.303 392.966
Samtals greiðslur vegna byggðaáætlunar 381.631 371.174 456.779 624.466
Framlög á fjárlögum 314.500 456.000 439.900 477.600
Flutt ónýtt fjárheimild frá árinu 2005 280.467

    Heildarfjárheimildir til byggðaáætlunar á árunum 2006–2009 nema 1.968 millj. kr. Greiðslur vegna verkefna byggðaáætlunar á árunum 2006–2009 nema 1.834 millj. kr. og árið 2010 verða lokagreiðslur vegna verkefna á byggðaáætlun 2006–2009 134 millj. kr.

Skýringar:
Vaxtarsamningar.
    Vaxtarsamningar eru einna veigamesti hluti byggðaáætlunarinnar. Með vaxtarsamningum skuldbinda opinberir aðilar og einkaaðilar sig til að vinna saman að uppbyggingu atvinnulífs á tilteknum svæðum með það að markmiði að efla samkeppnishæfni þeirra og stuðla að auknum hagvexti. Byggt er á styrk hvers svæðis og unnið að því að efla vaxtargreinar og auka svæðisbundna þekkingu með uppbyggingu klasa og tengslaneta. Vaxtarsamningar hafa verði gerðir við sjö atvinnuþróunarsvæði til þriggja ára í senn. Fjórir þeirra renna út síðari hluta þessa árs en hinir þrír í byrjun 2011.

Samstarfsverkefni ráðuneyta.
    Til samstarfsverkefna ráðuneyta á öðrum fagsviðum er stofnað þar sem þau stuðla að framgangi markmiða byggðaáætlunarinnar. Kostnaður við framkvæmd slíkra verkefna deilist jafnt á milli ráðuneytanna, en verkefnin eru oft þess eðlis að án sameiginlegrar aðkomu væri óvíst um framgang þeirra.
    Staðardagskrá 21 og sjálfbær byggðaþróun í fámennum sveitarfélögum eru verkefni sem unnin eru með umhverfisráðuneyti til innleiðingar velferðaráætlunar Sameinuðu þjóðanna frá Ríó de Janeró 1992, um umbætur í umhverfis-, efnahags- og félagslegum málum. Stuðningur ráðuneytanna er ætlaður litlum sveitarfélögum sem hafa takmarkaða burði til að takast óstudd á við þetta mikilvæga verkefni.
    Árið 2006 var unnið með samgönguráðuneyti að verkefnum í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Framlög af byggðaáætlun til þeirra verkefna voru 8 millj. kr. til uppbyggingar upplýsingamiðstöðva fyrir ferðamenn, 3 millj. kr. til uppbyggingar menningar- og fræðslusetursins Grettistaks, 2,5 millj. kr. til uppbyggingar markaðsstofu Vestfjarða og 1,5 millj. kr. til uppbyggingar Selaseturs Íslands á Hvammstanga.
    Á árinu 2006 voru veittar 50 millj. kr. til margvíslegra verkefna er lúta að uppbyggingu menntunar og menningarstarfsemi á landsbyggðinni í samstarfi við menntamálaráðuneyti. Verkefni þessi hófust á árinu 2003 á grundvelli fyrri byggðaáætlunar 2002–2005. Lögð var áhersla á tengsl menntunar og menningar við eflingu atvinnulífs og hagnýtingu upplýsingatækni til að auka námsframboð á landsbyggðinni, t.d. með fjarmenntun.
    Frá árinu 2006 hefur verið í gildi samkomulag milli menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um 36 millj. kr. árlegt framlag af byggðaáætlun til uppbyggingar og reksturs Háskólaseturs Vestfjarða og Fræðslunets Austurlands. Samkomulagið gildir út árið 2010. Þetta samstarfsverkefni er hluti af sameiginlegri sýn ráðuneytanna um uppbyggingu þekkingarsetra á landsbyggðinni sem eiga að verða miðstöðvar þekkingar, rannsókna og nýsköpunar í þágu atvinnulífsins.
    Á árinu 2006 voru 24,2 millj. kr. veittar af byggðaáætlun til þróunarverkefna á sviði sjávarútvegs í samstarfi við sjávarútvegsráðuneyti. Þau voru fiskeldisrannsóknir í sjókvíum á Ísafirði, veiðafærarannsóknir unnar frá starfsstöð Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði og þróun á vinnslutækni fyrir ál og humar unnar á Höfn. Auk þessa var stofnað til samstarfs um menntun, rannsóknir og nýsköpun í þróunarsetri Hólaskóla á Sauðárkróki og um próteinframleiðslu á Sauðárkróki. Þá verða á árunum 2008 og 2009 veittar 5 millj. kr. til sameiginlegs verkefnis til að meta hvort unnt sé að stunda þorskeldi í Mjóafirði á Austurlandi á hagkvæman hátt.
    Samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis um öndvegissetur í sjávarlíftækni hófst árið 2004 og lauk 2007. Verkefnið var sett af stað undir byggðaáætlun 2002–2005 en dróst vegna langs undirbúningstíma. Tilgangur þess var að koma rannsóknum og þróunarstarfi við rannsóknarstofnanir á landsbyggðinni á það stig að geta sótt um styrki í samkeppnissjóðina, t.d. Tækniþróunarsjóð og AVS-sjóð sjávarútvegsráðuneytis.

Verkefni á vegum iðnaðarráðuneytis og stofnana þess.
    Stofnun og rekstur Impru hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur verið þungamiðja í aðgerðum ráðuneytisins til að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni, einkum eftir opnun starfsstöðvar á Akureyri í desember 2002. Starfsemi Impru hefur aukist og eflst og við lok þessa árs er stefnt að því að reknar verði starfsstöðvar á sjö stöðum úti á landi: á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Höfn og í Vestmannaeyjum. Þessar starfsstöðvar gætu myndað grunn að þekkingarsetrum með annarri þekkingarstarfsemi sem nú þegar er að finna á þessum stöðum eða verða þar síðar.
    Rafrænt samfélag var þróunarverkefni sem hófst árið 2004 og lauk að mestu 2006, en lokauppgjör þess var 2008. Verkefnið byggðist á þróun rafrænna samskipta á milli sveitarfélaga og íbúa og um þróun rafrænnar vinnslu á mörgum stigum stjórnsýslu sveitarfélaga. Lykilþátttakendur voru Árborg og nærliggjandi sveitarfélög og Norðurþing og nágrenni.
    Samstarfsverkefni er tengjast norðurslóðum hafa reynst sveitarfélögum og fyrirtækjum á landsbyggðinni farsæl leið til að hefja alþjóðlegt samstarf um ýmis framfaramál. Veigamestu verkefnin eru annars vegar NORA, samstarfsverkefni Vestur-Noregs, Færeyja, Íslands og Grænlands og hins vegar norðurslóðaáætlun ESB (NPP), en sá hlutur sem fer til fjármögnunar verkefna á vegum íslenskra þátttakenda er greiddur af þessum lið.
    Ýmiss kynningar- og undirbúningskostnaður sem bókfærður er á árunum 2006 og 2008 tengist undirbúningi og kynningu á ýmsum verkefnum byggðaáætlunarinnar.
    Hluti af kostnaði við rannsóknir á samfélagslegum áhrifum af virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi var á árinu 2007 greiddur af byggðaáætlun.
    Af byggðaáætlun verða veittar 200 millj. kr. til verkefna í ferðaþjónustu árið 2009. Þau eru bætt móttökuaðstaða í höfnum fyrir farþega skemmtiferðaskipa, nýsköpun í ferðaþjónustu, þróunarverkefni í menningartengdri ferðaþjónustu, ferðaþjónusta sem byggist á sérkennum svæðis- eða staðbundinnar íslenskrar matargerðar og til gæðamála í ferðaþjónustu.
    Verkefni sem unnin eru á starfsstöðvum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Höfn og Ísafirði og í Vestmannaeyjum hófust á árinu 2008. Á Höfn er unnið að stuðning við starfandi fyrirtæki í þeim tilgangi að bæta rekstur þeirra, efla vöruþróunarstarf og getu þeirra til útflutnings. Á Ísafirði er unnið að vöruþróun í starfandi fyrirtækjum á Vestfjörðum og Norðvesturlandi og að þróun vistvænna veiðarfæra sem nota ljóstækni. Í Vestmannaeyjum er unnið að þróun á varmadælum fyrir fjarvarmaveitur í þeim tilgangi að lækka kyndingarkostnað og nýta jarðvarmaorku.