Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 650  —  386. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, með síðari breytingum.

Flm.: Björn Bjarnason, Össur Skarphéðinsson, Kolbrún Halldórsdóttir,     


Kjartan Ólafsson, Arnbjörg Sveinsdóttir,     Höskuldur Þórhallsson,


Lúðvík Bergvinsson.



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þjóðgarðurinn er að öllu leyti undanþeginn lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.

Gildistaka.


2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Um þjóðgarðinn á Þingvöllum gilda sérstök lög. Markmið þeirra er að varðveita ásýnd þjóðgarðsins sem friðlýsts helgistaðar þjóðarinnar. Lögin fela Þingvallanefnd að annast málefni þjóðgarðsins.
    Frá stofnun þjóðgarðsins hefur land innan hans verið leigt undir sumarhús. Allir leigusamningar eru gerðir til skamms tíma, enda mikilvægt að unnt sé með tiltölulega skömmum fyrirvara að grípa til ráðstafana í því skyni að tryggja að markmið þjóðgarðslaganna náist.
    Hinn 1. júlí 2008 tóku gildi lög nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, þar sem meðal annars er mælt fyrir um að leigusamningar vegna frístundahúsa skuli vera til 20 ára hið skemmsta. Samningar Þingvallanefndar eru gerðir til skemmri tíma, eða 10 ára, eins og nú er. Til að taka af allan vafa um að það sé á valdi Þingvallanefndar að semja um lengd leigutíma vegna frístundahúsa innan þjóðgarðsins er þetta frumvarp flutt.