Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.

Þskj. 676  —  398. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2010.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 7. júní 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, sem fól m.a. í sér breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, í þá veru að gerð er krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja verði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009. Í kjölfar lagabreytinganna hafa bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur unnið að undirbúningi þess að aðskilja starfsemina í samræmi við ákvæði laganna. Á hluthafafundi í Hitaveitu Suðurnesja hf. 1. desember 2008 var samþykkt að skipta fyrirtækinu í HS Orka hf., sem annast skyldi virkjanir og raforkusölu, og HS Veitur hf., sem skyldi taka við veitustarfsemi fyrirtækisins. Formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. átti sér stað 1. janúar sl.
    Með bréfi dags. 20. febrúar sl. fór Orkuveita Reykjavíkur þess á leit við iðnaðarráðherra að hann hlutaðist til um að flutt yrði frumvarp til laga um frestun gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga. Í bréfinu kemur fram að stjórn og starfsmenn hafi unnið að undirbúningi skiptingar fyrirtækisins í samræmi við áskilnað laganna og yfirfarið þær leiðir sem til greina koma við útfærslu hennar. Þá segir enn fremur að frá því að lög um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði tóku gildi hafi orðið verulegar breytingar á fjárhagslegu umhverfi orkufyrirtækja, eins og annarra fyrirtækja í landinu. Gengi íslensku krónunnar hafi veikst og skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem einkum eru í erlendri mynt, hafi hækkað mikið og eiginfjárhlutfall því lækkað umtalsvert milli áranna 2008 og 2009. Í bréfinu kemur enn fremur fram að lánardrottnum fyrirtækisins og væntanlegum lánveitendum hafi verið gerð grein fyrir þeim lagabreytingum sem samþykktar hafa verið og afleiðingum þeirra fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Telur fyrirtækið vonir standa til þess að fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda ljúki á seinni hluta þessa árs. Hins vegar kunni breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækisins áður en fjármögnun er lokið að tefja fyrir gerð lánasamninga. Telur Orkuveita Reykjavíkur því varhugavert að skipta fyrirtækinu upp við ríkjandi aðstæður. Er því óskað eftir frestun á gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga, sbr. a-lið 4. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 58/2008, til 1. janúar 2010.
    Meginefni laga nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, var að kveða á um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, setja reglur um opinbert eignarhald fyrirtækja sem stunda sérleyfisstarfsemi, leggja bann við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum, og lögfesta sjónarmið er varða atriði tengd leigu afnota af vatns- og jarðhitaréttindum. Rökin að baki kröfu um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri fyrirtækjanna voru tvíþætt. Annars vegar þurfti að gera þessa kröfu svo að unnt væri að setja reglur um opinbert eignarhald fyrirtækja sem stunda sérleyfisstarfsemi og hins vegar að með aðgreiningu þessara þátta í starfsemi raforkufyrirtækja væri betur unnt að tryggja að allir raforkuframleiðendur sitji við sama borð í samskiptum sínum við þau fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku.
    Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun má fallast á að rétt sé að fresta tímabundið framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Önnur ákvæði er varða opinbert eignarhald og bann við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum hafa hins vegar þegar öðlast gildi.
    Með vísan til þessa er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2010.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum,
nr. 65/2003, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2010. Ákvæði þau sem hér um ræðir voru samþykkt á Alþingi árið 2008 með lögum nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, en þau lög fólu m.a. í sér breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður ekki sé að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.