Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.

Þskj. 687  —  405. mál.





Frumvarp til laga

um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Orðin „og umboðsmaður Alþingis“ í 2. málsl. 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skilmannahreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur“ í 1. tölul. kemur: Hvalfjarðarsveit.
     b.      Í stað orðanna „Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur, Borgarbyggð, Kolbeinsstaðahreppur“ í 1. tölul. kemur: Borgarbyggð.
     c.      Orðið „Saurbæjarhreppur“ í 1. tölul. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „Hólmavíkurhreppur, Broddaneshreppur“ í 1. tölul. kemur: Strandabyggð.
     e.      Í stað orðanna „Áshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur“ í 1. tölul. kemur: Húnavatnshreppur.
     f.      Orðin „Svínavatnshreppur, Bólstaðarhlíðarhreppur, Höfðahreppur“ í 1. tölul. falla brott.
     g.      Á eftir orðinu „Skagabyggð“ í 1. tölul. kemur: Sveitarfélagið Skagaströnd.
     h.      Í stað orðanna „Siglufjarðarkaupstaður, Ólafsfjarðarbær“ í 2. tölul. kemur: Fjallabyggð.
     i.      Orðið „Hríseyjarhreppur“ í 2. tölul. fellur brott.
     j.      Í stað orðanna „Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær“ í 2. tölul. kemur: Norðurþing.
     k.      Orðin „Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Raufarhafnarhreppur“ í 2. tölul. falla brott.
     l.      Í stað orðanna „Þórshafnarhreppur, Skeggjastaðahreppur“ í 2. tölul. kemur: Langanesbyggð.
     m.      Í stað orðsins „Norður-Hérað“ í 2. tölul. kemur: Fljótsdalshérað.
     n.      Orðin „Fellahreppur, Austur-Hérað“ í 2. tölul. falla brott.
     o.      Orðin „Mjóafjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur“ í 2. tölul. falla brott.
     p.      Í stað orðsins „Gaulverjabæjarhreppur“ í 3. tölul. kemur: Flóahreppur.
     q.      Orðin „Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur“ í 3. tölul. falla brott.
     r.      Í stað orðsins „Grindavíkurkaupstaður“ í 3. tölul. kemur: Grindavíkurbær.
     s.      Í stað orðsins „Gerðahreppur“ í 3. tölul. kemur: Sveitarfélagið Garður.
     t.      Í stað orðsins „Vatnsleysustrandarhreppur“ í 3. tölul. kemur: Sveitarfélagið Vogar.
     u.      Í stað orðsins „Bessastaðahreppur“ í 4. tölul. kemur: Sveitarfélagið Álftanes.

3. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Við útreikning skv. 1. mgr. skal fyrst miða við fjölda þingsæta í kjördæmum skv. 1. mgr. 8. gr. Ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi skal færa eitt kjördæmissæti frá því kjördæmi sem hefur fæsta kjósendur að baki hverju þingsæti til þess kjördæmis sem hefur flesta kjósendur að baki hverju þingsæti. Að því loknu er fjöldi kjósenda að baki hverjum þingmanni reiknaður að nýju miðað við þessa breytingu og kjördæmissæti fært milli kjördæma svo oft sem þörf krefur þar til hlutfall kjósenda að baki hverju þingsæti fer hvergi yfir þau mörk sem koma fram í 1. mgr.

4. gr.

    Í stað orðanna „kjörstjórn, hverfis- eða yfirkjörstjórn“ í 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: hverfiskjörstjórn.

5. gr.

    Í stað orðanna „framangreind ákvæði“ í fyrri málslið 1. mgr. 101. gr. laganna kemur: einn eða fleiri stafliði 100. gr.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við fyrirhugaðar kosningar 25. apríl 2009 gilda eftirfarandi reglur um fresti:
     a.      Miða skal við íbúaskrá þjóðskrár fjórum vikum fyrir kjördag í stað fimm vikna skv. 1. mgr. 7. gr., a-lið 1. mgr. 23. gr. og 3. mgr. 27. gr. laganna. Sama á við þegar önnur ákvæði laganna vísa til þessara ákvæða.
     b.      Kjörskrá skal leggja fram almenningi til sýnis átta dögum fyrir kjördag í stað tíu daga skv. 1. mgr. 26. gr. laganna.
     c.      Landskjörstjórn skal birta auglýsingu um mörk kjördæmanna í Reykjavík skv. 2. mgr. 7. gr. laganna eigi síðar en þremur vikum fyrir kjördag í stað fjögurra vikna.
     d.      Frestur til að tilkynna framboð skv. 1. mgr. 30. gr. laganna er til kl. 12 á hádegi 11 dögum fyrir kjördag.
     e.      Auglýsingar á framboðum skv. 2. mgr. 44. gr. laganna skulu birtast eigi síðar en fimm dögum fyrir kjördag.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum dómsmálaráðuneytisins. Þá var frumvarpið sent til Landskjörstjórnar er gaf umsögn sína um frumvarpið. Ríkisstjórnin hefur gefið út yfirlýsingu um að kosið verði til Alþingis 25. apríl næstkomandi. Á Alþingi hefur verið samþykkt frumvarp um breytingar á kosningalögum þar sem bætt er við lögin ákvæði til bráðabirgða um að íslenskum ríkisborgurum sem búsettir hafa verið erlendis lengur en átta ár en sóttu ekki um að verða teknir á kjörskrá fyrir 1. desember 2008 verði heimilað að sækja um að verða teknir á kjörskrá í síðasta lagi 25. mars 2009. Verði gengið til kosninga 25. apríl eins og ráðgert er mun viðmiðunardagur kjörskrár að óbreyttum lögum verða 21. mars, þ.e. fimm vikum fyrir kjördag. Þá verður ekki liðinn umsóknarfrestur íslenskra ríkisborgara sem búsettir hafa verið erlendis lengur en átta ár. Óhjákvæmilegt er að færa viðmiðunardag kjörskrár eina viku nær kjördegi svo framangreindir kjósendur séu á kjörskrárstofni þegar landskjörstjórn tekur ákvarðanir skv. 1. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 23. gr. laganna. Miðað við að kosið verði 25. apríl mun framboðsfrestur skv. 1. mgr. 30. gr. laganna að óbreyttu renna út kl. 12 á föstudaginn langa. Hér er lagt til að þessi frestur færist fjórum dögum nær kjördegi. Með vísan til þess sem að framan er talið er í frumvarpi þessu lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði þessir frestir samkvæmt lögunum ásamt öðrum sem þeim tengjast styttir fyrir kosningarnar í vor.
    Jafnframt eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögunum og vísast til athugasemda við einstakar greinar um þær. Þær fela ekki í sér efnislegar breytingar heldur miða að því að skýra ýmis atriði eða lagfæra. Meðal annars er lagt til í samráði við landskjörstjórn að bæta nýrri málsgrein við 9. gr. laganna þar sem lýst er með hvaða hætti staðið sé að útreikningi á tilfærslu þingsæta milli kjördæma skv. 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 4. gr. laganna segir að hæstaréttardómarar og umboðsmaður Alþingis séu ekki kjörgengir í kosningum til Alþingis. Í ljósi 34. gr. stjórnarskrárinnar orkar tvímælis að umboðsmaður Alþingis sé ekki kjörgengur við alþingiskosningar. Því er lagt til að fella brott vísun til umboðsmanns Alþingis í 2. málsl. ákvæðisins. Almenna hæfisskilyrðið í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem segir að umboðsmaður megi ekki vera alþingismaður, stendur þó áfram. Samkvæmt því getur maður ekki gegnt þessum embættum á sama tíma en það leiðir ekki til þess að umboðsmaður Alþingis sé ekki kjörgengur við alþingiskosningar.

Um 2. gr.

    Hér er listi með öllum sveitarfélögum landsins uppfærður miðað við breytingar sem hafa orðið við sameiningu sveitarfélaga eða við breytingar á heitum þeirra.

Um 3. gr.

    Í 9. gr. laganna er fjallað um tilfærslu kjördæmissæta milli kjördæma þegar fjöldi kjósenda að baki hverju þingsæti er helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru, sbr. 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Hér er lagt til að bæta við greinina málsgrein sem lýsir því með hvaða hætti útreikningurinn fari fram. Tekið er af skarið um að við útreikninginn skuli leggja fjölda þingsæta í hverju kjördæmi skv. 8. gr. laganna til grundvallar en ekki fjölda þeirra við síðustu alþingiskosningar eftir að þingsæti höfðu verið færð milli kjördæma, en ákvæðið hefur ekki þótt vera skýrt að þessu leyti. Með þessari aðferð er tryggt að í ljós komi hvaða kjördæmi á með réttu að fá viðbótarsæti miðað við þróun búsetu ef skilyrði eru til flutnings, auk þess sem hún leiðir til þess að þingsæti sem hefur verið fært frá kjördæmi getur færst til baka ef misvægi atkvæða er ekki lengur yfir mörkum 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er kveðið á um að útreikningurinn skuli endurtekinn þar til misvægið fer hvergi yfir leyfileg mörk.

Um 4. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna eru þriggja manna kjörstjórnir þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á hverjum kjörstað kallaðar hverfis- eða yfirkjörstjórnir. Hér er lagt til að þessar kjörstjórnir verði framvegis kallaðar hverfiskjörstjórnir svo ekki skapist hætta á að þeim verði ruglað saman við yfirkjörstjórnir skv. b-lið 11. gr. og 13. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Hér er lögð til breyting á 1. mgr. 101. gr. laganna til skýringar.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hafa verið gefnar yfirlýsingar um að kosningar til Alþingis fari fram 25. apríl næstkomandi. Af ástæðum sem þar eru raktar er hér lagt til að ýmsir frestir sem kveðið er á um í lögunum og miðast við kjördag verði styttir í tengslum við þessar kosningar. Jafnframt er framboðsfrestur færður aftur fyrir páskahelgina en að óbreyttu hefði hann runnið út föstudaginn langa miðað við að kosið yrði 25. apríl. Þessir frestir eru nánar tiltekið eftirfarandi:
    Við gerð kjörskrár skal miða við íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag, sbr. a-lið 1. mgr. 23. gr. laganna, og óheimilt er að breyta kjörskrá vegna nýs lögheimilis nema að flutningurinn hafi átt sér stað í síðasta lagi fyrir þetta tímamark, sbr. 3. mgr. 27. gr. laganna. Þá skal landskjörstjórn miða við íbúaskrá þjóðskrár á sama tímamarki þegar mörk kjördæmanna í Reykjavík eru ákveðin, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Hér er lagt til að þessi viðmiðunartími styttist um viku, úr fimm vikum í fjórar.
    Til samræmis við styttingu þess tíma sem gefst til að vinna kjörskrárstofna samkvæmt framangreindu og leggja fyrir sveitarstjórnir er hér lagt til að sá frestur sem kjósendum gefst til að kynna sér kjörskrána verði styttur úr tíu dögum í átta.
    Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna ber landskjörstjórn að auglýsa mörk kjördæmanna í Reykjavík viku eftir að íbúaskrá þjóðskrár hefur verið „fryst“ eða fjórum vikum fyrir kjördag. Í ljósi þess að þessi viðmiðunartími færist nær kjördegi ef frumvarpið verður samþykkt verður að stytta þennan frest til samræmis.
    Miðað við að kosið verði 25. apríl ætti framboðsfrestur skv. 30. gr. laganna að öllu óbreyttu að renna út 10. apríl sem ber upp á föstudaginn langa. Það er óheppilegt og því er hér lagt til að framboðsfrestur færist aftur fyrir páska. Er við það miðað að skila þurfi framboðum 11 dögum fyrir kjördag í stað 15 daga.
    Frestur landskjörstjórnar til að birta auglýsingar um framboð skv. 2. mgr. 44. gr. laganna færist nær kjördegi til samræmis við áðurgreinda breytingu á framboðsfrestinum. Lagt er til að auglýsingarnar birtist fimm dögum fyrir kjördag í stað tíu daga.
    Ákvæðið mun aðeins gilda um þessar tilteknu kosningar og að því gefnu að þær fari fram 25. apríl 2009.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis,
nr. 24/2000, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er fyrst og fremst verið að bæta inn í lögin ákvæði til bráðabirgða um breytingar á ýmsum frestum sem gilda í aðdraganda kosninga. Gert er ráð fyrir því að kosið verði til Alþingis 25. apríl nk. Breytingarnar eru að viðmiðunardagur staðfestrar kjörskrár er styttur úr fimm vikum í fjórar fyrir kjördag. Kjörskrá skal leggja fram almenningi til sýnis átta dögum fyrir kjördag í stað tíu daga. Mörk kjördæmanna í Reykjavík skal birta með auglýsingu þremur vikum fyrir kjördag í stað fjögurra vikna. Frestur til að tilkynna framboð rennur út kl. 12 á hádegi 11 dögum fyrir kjördag í stað 15 daga eins og nú er og auglýsingar á framboðum skulu birtast eigi síðar en fimm dögum fyrir kjördag í stað tíu daga.
    Þá eru með frumvarpinu gerðar breytingar á nokkrum ákvæðum laganna sem eru til frekari skýringar á lögunum. Auk þess eru gerðar lagfæringar vegna breyttra aðstæðna, m.a. er í frumvarpinu uppfærður listi með sveitarfélögum landsins miðað við breytingar sem hafa orðið út af sameiningu sveitarfélaga eða út af breytingum á heitum þeirra.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.