Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 381. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 768  —  381. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um sjónvarpsútsendingar í dreifbýli.

     1.      Hefur ráðherra áform um að knýja á um viðgerð á sjónvarpssendinum á Gagnheiði?
    Stöðin á Gagnheiði er í eigu Ríkisútvarpsins sem heyrir undir menntamálaráðuneytið, ekki samgönguráðuneytið, og því er rétt að beina spurningunni til menntamálaráðherra.

     2.      Hefur Póst- og fjarskiptastofnun beitt sér gagnvart rekstraraðila Gagnheiðarstöðvarinnar í samræmi við heimildir í 5. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun?
    Í lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, er ekki að finna almennar kröfur um útbreiðslu og gæði fjarskiptaþjónustu, að undanskilinni svokallaðri alþjónustu, en það eru afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Er hér t.d. um að ræða talsímaþjónustu og lágmarksgagnaflutningsþjónustu. Sjónvarps- og hljóðvarpsþjónusta telst ekki til alþjónustu samkvæmt fjarskiptalögum. Samkvæmt þessu byggist framboð á fjarskiptaþjónustu og gæði hennar fyrst og fremst á markaðslögmálum. Þó er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að binda útgáfu tíðniheimilda skilyrðum um ákveðna lágmarksútbreiðslu, en það hefur t.d. verið gert varðandi farsímaþjónustu. Hins vegar eru tíðniréttindi Ríkisútvarpsins ohf. án slíkra kvaða, enda til komin í tíð eldra lagaumhverfis og annarra aðstæðna en nú eru, auk þess sem starfsemi fyrirtækisins hefur lotið sérstökum lögum á málefnasviði menntamálaráðuneytisins. Samkvæmt þessu eru því hvorki í fjarskiptalögum né í tíðniréttindum Ríkisútvarpsins ohf. gerðar kröfur um útbreiðslu eða gæði sjónvarps- eða útvarpsþjónustu fyrirtækisins. Þegar af þeim ástæðum kemur eftirfylgni af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, ekki til álita.

     3.      Hefur ráðherra áform um að bæta sjónvarpsútsendingar í dreifbýli?

    Eitt af markmiðum fjarskiptaáætlunar 2005–2010 var að dreifa sjónvarpsdagskrá RÚV, auk hljóðvarps rásar 1 og 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða í gegnum gervihnött. Árið 2007 sömdu fjarskiptasjóður og RÚV við Telenor UK Ltd. um veitingu þjónustunnar til 1. apríl 2010. Á grundvelli samningsins hafa því nú rúmlega 700 staðir eða skip aðgang að stafrænum sjónvarpsútsendingum í gegnum gervihnött.
    Nú stendur yfir endurskoðun fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2009–2014. Vinnan við endurskoðunina er í miklu samráði við hina ýmsu hagsmunaaðila, en tillögur að verkefnum eða aðgerðum sem áætlunin mun taka til liggja ekki fyrir.