Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 812  —  397. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 25. mars.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við 2. tölul. bætist: og yfirtöku starfandi einkaleyfisveitna á einkahitaveitum.
     b.      Við bætist nýr töluliður sem orðast svo: Greiðslu styrkja vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða aðgerða sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun.

2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með vistvænni orkuöflun er í lögum þessum átt við hagkvæma nýtingu endurnýjanlegra orkulinda til húshitunar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Í samræmi við fjárhæð niðurgreiðslna sem samþykkt er í fjárlögum viðkomandi árs skal iðnaðarráðherra ár hvert ákveða upphæð niðurgreiðslna á raforku í kr./kWst, á vatni frá kyntum hitaveitum í kr./kWst eða kr./m 3 og á olíu í kr./l fyrir hverja dreifiveitu rafmagns, hitaveitu eða virkjun. Miða skal upphæð niðurgreiðslna á olíu við að kostnaður notenda verði svipaður við olíuhitun og þar sem hann er dýrastur með rafhitun.
     b.      Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Niðurgreiðslur til notenda sem hljóta styrk vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða aðgerða sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun skulu skerðast í samræmi við þau markmið um orkusparnað sem samið er um milli notanda og Orkustofnunar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Til íbúðareigenda sem vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun og/eða ráðast í aðgerðir sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skilyrði styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna, umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar.

5. gr.

    Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Styrkir á grundvelli 4. tölul. 11. gr. skulu jafngilda átta ára áætluðum niðurgreiðslum sem lækka í réttu hlutfalli við orkusparnað tengdan umhverfisvænni orkuöflun og/eða aðgerðum sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun.

6. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Umsóknir um styrki skulu sendar Orkustofnun. Umsóknum skulu eftir atvikum fylgja upplýsingar um umsækjanda, fyrirhugaðar framkvæmdir, ráðstöfun styrks og önnur atriði sem máli skipta varðandi afgreiðslu styrkumsóknar. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um styrkumsóknir.

7. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Styrkir á grundvelli 4. tölul. 11. gr. greiðast íbúðareiganda samkvæmt nánara samkomulagi milli Orkustofnunar og íbúðareiganda.

8. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Stofnun nýrra hitaveitna, umhverfisvæn orkuöflun og bætt orkunýting.

9. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „1%“ í 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: 3%.

10. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Iðnaðarráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd laga þessara, m.a. um útreikning niðurgreiðslna, íbúðarflokka, úthlutun styrkja til nýrra hitaveitna vegna yfirtöku starfandi einkaleyfisveitna á einkahitaveitum, úthlutun styrkja vegna umhverfisvænnar orkuöflunar til húshitunar sem leiðir til lækkunar á orkuþörf til hitunar og eftirlit. Þá skal ráðherra í reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag styrkja vegna endurbóta á húsnæði.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.