Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 125. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 827  —  125. mál.
Viðbót.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um ábyrgðarmenn.

Frá viðskiptanefnd.



    Eftir aðra umræðu ræddi nefndin einkum um 8. gr. frumvarpsins.
    Í 6. kafla laga um aðför, nr. 90/1989, er fjallað um andlag fjárnáms og eru þar tilgreindir hlutir sem ekki verður gert fjárnám í. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er ekki hugsuð til að undanþiggja fasteign fjárnámi almennt heldur aðeins þegar um er að ræða kröfur af tilteknum uppruna, þ.e. ábyrgðarkröfur samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins, og þegar ábyrgðarmaður á þar heimili. Ef aðför reynist árangurslaus sökum þess að fasteign er undanþegin aðför getur sú niðurstaða ekki orðið grundvöllur fyrir kröfu um gjaldþrotaskipti á búi ábyrgðarmanns. Í 2. mgr. 8. gr. er kveðið á um að kröfuhafi geti ekki átt frumkvæði að gjaldþrotaskiptum á búi ábyrgðarmanns við slíkar aðstæður, ella væri kröfuhafa í lófa lagið að komast framhjá ákvæði 1. mgr. 8. gr.
    Nefndin vill sérstaklega taka fram að árangurslaust fjárnám vegna þess að óheimilt er að gera fjárnám í fasteign er annars eðlis en árangurslaust fjárnám sökum eignaleysis gerðarþola. Í slíkum tilvikum er ekki um eignaleysi að ræða hjá gerðarþola heldur er aðför árangurslaus sökum þess að óheimilt er að gera aðför. Gjaldþrotalögin gera ekki ráð fyrir því að eignafólk verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin ítrekar að greinin nær aðeins til persónulegra ábyrgða en á ekki við um það þegar ábyrgðarmaður veitir veðleyfi í fasteign sinni. Jafnframt ítrekar nefndin að greinin nær ekki til ábyrgðarsamninga sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, sbr. 12. gr. þess og ákvæði til bráðabirgða. Enn fremur vill nefndin taka fram að með eigin atvinnurekstri er átt við atvinnurekstur þar sem viðkomandi þiggur meginhluta launa sinna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Guðfinna S. Bjarnadóttir og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. mars 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Gunnar Svavarsson.


Birgir Ármannsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Pétur H. Blöndal.


Birkir J. Jónsson.



Jón Magnússon.