Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 430. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 834  —  430. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um almenna notkun íslensks merkis fyrir ábyrgar fiskveiðar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Með hvaða hætti er hið íslenska merki fyrir ábyrgar fiskveiðar komið í „almenna notkun“ án þess að fyrir liggi viðeigandi kröfulýsing og án þess að fenginn hafi verið óháður vottunaraðili til að ábyrgjast notkun merkisins, sbr. nýlegt svar ráðherra (þskj. 706, 341. mál)?

    Í október 2008 var kynnt íslenskt merki um ábyrgar fiskveiðar. Merkið vísar til íslensks uppruna og til yfirlýsingar um ábyrgar veiðar frá árinu 2007, en að henni stóðu Fiskifélag Íslands, fyrir hönd hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnunin og Fiskistofa. Nú liggja fyrir reglur um notkun merkisins og er því aðilum sem á því hafa áhuga nú heimil notkun merkisins enda fullnægi þeir skilyrðum um notkun þess. Merkið hefur verið skráð hjá Einkaleyfastofu og verður einnig skráð á alþjóðavísu til að tryggja einkarétt á notkun þess.
    Eins og fram kom í fyrra svari er umrædd yfirlýsing og upprunamerki liður í verkefni sem unnið hefur verið að á síðustu árum á vettvangi Fiskifélags Íslands. Eins og jafnframt hefur komið fram er nú unnið að undirbúningi vottunar. Er að því stefnt að slík vottun náist á árinu 2010. Á grunni slíkrar vottunar verður mögulegt að auðkenna vörur úr vottuðum stofnum og þá með sérstöku merki. Þannig er annars vegar um að ræða upprunamerki sem þegar hefur verið tekið til notkunar. Hins vegar er um að ræða áframhaldandi vinnu við gerð kröfulýsingar sem verður verkfæri vottunaraðila sem gera munu úttektir og vinna að vottun ábyrgra veiða.