Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.

Þskj. 836  —  456. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Á eftir 4. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir eru samkvæmt lögum þessum vetnisflúorkolefni (HFC), fjölflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF 6).
                  Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem stjórnar tæknilegri virkni þess búnaðar sem lög þessi taka til.
                  Þjónustuaðili er einstaklingur eða lögaðili sem þjónustar þann búnað sem lög þessi taka til.
     b.      5. mgr., sem verður 8. mgr., orðast svo:
                  Markmið þessara laga er að eiturefni, hættuleg efni, sæfiefni, fegrunar- og snyrtiefni og flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir notist með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum né dýrum, né að matvæli eða umhverfi mengist af efnunum.

2. gr.

    Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli, Ákvæði um flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, með fimm nýjum greinum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla laganna samkvæmt því:

    a. (27. gr.)

Geymsla flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda.


    Rekstraraðilum fastra kælikerfa, loftkælinga, varmadæla og fastra slökkvikerfa sem innihalda flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir ber að hindra leka þessara lofttegunda og stöðva slíkan leka komi hann til, með öllum þeim tæknilegu ráðstöfunum sem eru mögulegar. Enn fremur ber rekstraraðilum að sjá til þess að haldin sé skrá yfir flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir og að lekaleit sé framkvæmd af vottuðum aðilum.

    b. (28. gr.)

Endurnýting.


    Rekstraraðilar fasts búnaðar sem inniheldur flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, og nánar er tiltekinn í reglugerð, bera ábyrgð á endurnýtingu flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda til að tryggja endurvinnslu, endurheimt eða eyðingu þeirra. Endurnýting skal framkvæmd af vottuðum aðilum.

    c. (29. gr.)

Menntun og vottun.


    Starfsmenn sem annast uppsetningu, viðhald, áfyllingu, lekaleit og aðra þjónustu vegna fastra kælikerfa, loftkælinga, varmadælukerfa, spenna með hárri rafspennu, loftkælinga í vélknúnum ökutækjum, leysiefna og fastra slökkvikerfa sem innihalda flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir skulu hafa vottun. Til að hljóta slíka vottun skulu þeir hafa lokið námi með fullnægjandi hætti samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Rekstrar- og þjónustuaðilar skulu hafa vottun um að þeir uppfylli kröfur reglugerða sem ráðherra setur um húsnæði, öryggi og lágmarkstækjabúnað vegna starfsemi sinnar. Enn fremur skulu rekstrar- og þjónustuaðilar hafa vottun um að starfsmenn þeirra hafi hlotið vottun skv. 1. mgr.
    Vottun samkvæmt lögum þessum er framkvæmd af faggiltri skoðunarstofu samkvæmt lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og gildir í fjögur ár. Hafi viðkomandi sannanlega verið að vinna við umrædd kerfi framlengist vottunin um önnur fjögur ár.

    d. (30. gr.)

Merking.


    Óheimilt er að flytja, setja á markað eða afhenda vöru og búnað sem inniheldur flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir nema á vörunni og búnaðinum sé merkiskilti með viðurkenndum iðnaðarheitum, innihaldslýsingu og varnaðarorðum.

    e. (31. gr.)

Reglugerðir um flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir.


    Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, að setja reglugerð vegna flúoreraðra lofttegunda um eftirtalin atriði:
     a.      nánari ákvæði um framkvæmd lekaleitar, áskilnað um lekaleitarkerfi og skráningu flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda,
     b.      framkvæmd endurnýtingar,
     c.      framkvæmd vottunar,
     d.      framkvæmd og mat menntunar,
     e.      húsnæði, öryggi og lágmarkstækjabúnað starfsemi sem tengist notkun og meðferð efnanna,
     f.      nánari ákvæði um merkingar vöru og búnaðar,
     g.      ákvæði um notkun og bann við notkun flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Heimilt er að gefa út bráðabirgðavottun skv. 29. gr. Slík bráðabirgðavottun gildir ekki lengur en til 4. júlí 2011. Umhverfisráðherra gefur út reglugerð um skilyrði bráðabirgðavottunar.
    Heimilt er að meta aðra menntun sem umsækjandi hefur sem jafngildi náms skv. 29. gr. Skal slíkt mat fara fram fyrir 4. júlí 2011.

4. gr.

Innleiðing á reglugerð.


    Lög þessi eru sett til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/ 2006 um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Jafnframt var höfð hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 303/2008 sem er í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, um lágmarkskröfur og aðstæður fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottorðum fyrirtækja og starfsfólks sem þjónusta föst kælikerfi, loftkælingar og varmadælur sem innihalda tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í ii. lið í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 112/2008, frá 7. nóvember 2008.

5. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Evrópuþingið og ráðið samþykktu í maí 2006 reglugerð (EB) nr. 842/2006 um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Reglugerðin varð hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 112/2008 frá 7. nóvember 2008. Tilgangur reglugerðarinnar er að minnka losun flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda sem Kyoto-bókunin við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar nær yfir og vernda þannig umhverfið. Þessar lofttegundir eru öflugar gróðurhúsalofttegundir með háan hlýnunarstuðul og hafa margföld áhrif á umhverfið til upphitunar lofthjúpsins miðað við koltvísýring (CO 2). Þær flúoreruðu gróðurhúsalofttegundir sem reglugerð (EB) nr. 842/2006 nær til eru brennisteinshexaflúoríð (SF 6), vetnisflúorkolefni (HFC) og fjölflúorkolefni (PFC). Með frumvarpinu, og innleiðingu þeirra reglugerða sem tengjast reglugerð (EB) nr. 842/2006 er leitast við að takmarka leka þessara gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Gerð verður krafa um lekaleit og að lagfæra skuli leka umræddra gróðurhúsalofttegunda tafarlaust, uppgötvist hann. Einnig er með reglugerðinni gerð krafa um að flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir verði endurnýttar fyrir tiltekinn búnað. Með reglugerðinni eru settar fram kröfur um lágmarksþekkingu og menntun þeirra sem vinna með flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Að sama skapi er gerð krafa um vottun fyrir bæði þá starfsmenn sem vinna með þessar gróðurhúsalofttegundir og einnig þá rekstrar- og/eða þjónustuaðila sem mega meðhöndla lofttegundirnar. Einnig er gerð krafa um upplýsingagjöf til stjórnvalda sem og merkingar á búnaði. Til nánari útfærslu á einstökum greinum reglugerðarinnar hafa á vettvangi Evrópubandalagsins verið settar 10 aðrar reglugerðir og voru allar nema ein þeirra teknar inn í EES- samninginn í nóvember 2008. Í frumvarpinu er lagt til að hin nýju ákvæði verði sérstakur kafli, V. kafli, í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni. Þessi tillaga er gerð þar sem umrædd ákvæði hafa að ákveðnu leyti sérstöðu miðað við aðrar greinar laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni. Hins vegar er rétt að geta þess að 8. og 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 842/2006 kveða á um bann við sölu og markaðssetningu tiltekinna efna. Þykir 3. mgr. 29. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni veita fullnægjandi lagastoð fyrir slíku banni og því ekki lagt til að sett verði sérstakt ákvæði þar að lútandi í hinn nýja kafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að við ákvæðið bætist þrjár nýjar skilgreiningar. Í fyrsta lagi eru flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir skilgreindar en einnig þykir nauðsynlegt að kveða skýrt á um skilgreiningu á rekstraraðila sem og þjónustuaðila.

Um 2. gr.


    Í a-lið 2. gr., sem verður 27. gr. laganna verði frumvarp þetta að lögum, er fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til geymslu flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda. Gerð er tillaga um að hindra beri leka þessara lofttegunda og að fram fari tafarlaus viðgerð komi leki í ljós. Gert er ráð fyrir að gera eigi við leka með öllum tæknilegum ráðstöfunum. Þannig skal ætíð lágmarka það tjón sem verður en þó ber að hafa í huga að slíkt hafi ekki í för með sér óeðlilega háan kostnað miðað við umhverfislegan ávinning. Að auki er kveðið á um að rekstraraðilum beri að sjá til þess að haldin sé skrá yfir flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir og að lekaleit sé framkvæmd af til þess vottuðum aðilum. Ákvæðið er sett í samræmi við þær kröfur sem 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 842/2006 gerir.
    B-liður kveður á um hvernig endurnýting (e. recovery) flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda skuli framkvæmd. Er ákvæði þetta sett til að innleiða kröfur 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 842/2006 um skyldu til endurnýtingar þeirra flúoreruðu lofttegunda sem frumvarpið tekur til. Starfsmenn sem endurnýta efni af föstum búnaði skulu, samkvæmt ákvæðinu, hafa réttindi til þess og vera vottaðir af faggiltri skoðunarstofu.
    C-liður, sem verður 29. gr. laganna verði frumvarp þetta að lögum, er nýmæli og í samræmi við þær kröfur sem 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 842/2006 gerir. Með greininni er gerð krafa um að skilgreina þurfi lágmarksþekkingu þeirra sem vinna með flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir sem og vottun fyrir starfsmenn og rekstrar- og þjónustuaðila sem mega meðhöndla þessar lofttegundir. Hér er því um það að ræða að lögfest er skylda um ákveðna starfsmenntun fyrir þá sem vinna með þessar lofttegundir og verða kröfurnar skilgreindar í viðaukum reglugerða sem settar verða með stoð í hinum nýju ákvæðum. Réttindi þau sem hægt er að öðlast eru í fjórum flokkum, sem nánar eru skilgreindir í reglugerð (EB) nr. 842/ 2006. Hið nýja nám mun annars vegar verða hluti af núverandi vélstjórnarnámi. Hins vegar mun hefjast nýtt löggilt nám í kælivélavirkjun í framhaldsskólum haustið 2009 sem taka mun mið af þessum nýju námskröfum. Þeir sem hafa vélstjóraréttindi eða háskólamenntun á þessu sviði, t.d. kælitæknifræðingar og kæliverkfræðingar, geta sótt um vottun á því námi. Þó er gerð krafa um að sótt sé um slíka vottun innan ákveðins tíma. Fyrir þá sem starfa nú þegar á þessu sviði en eru með aðra menntun, t.d. rafvirkjar og málm- og skipasmiðir, mun verða boðið upp á styttri námskeið til þess að þeir geti uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til þess að fá vottun.
    Annað nýmæli er að krafist er vottunar fyrir annars vegar starfsmenn og hins vegar rekstraraðila eða þjónustuaðila. Starfsmenn munu sækja um vottun að loknu námi. Rekstraraðilar eða þjónustuaðilar fá aftur á móti vottun ef þeir uppfylla skilyrði reglugerða um að hafa t.d. ákveðinn búnað til endurheimtar gróðurhúsalofttegunda. Að auki er það skilyrði vottunar rekstrar- og þjónustuaðila að þeir hafi starfsmenn sem hafa hlotið vottun. Um faggiltar skoðunarstofur sem sjá munu um að votta nám sem og rekstraraðila og þjónustuaðila fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl., nr. 24/2006. Gerð er tillaga um að vottun gildi í fjögur ár en hafi viðkomandi sannanlega verið að vinna við slík kerfi þá framlengist vottunin um önnur fjögur ár. Þannig er hámarksgildistími vottunar átta ár.
    D-liður 2. gr. kveður á um skyldu til þess að merkja á viðeigandi hátt allan búnað og vörur sem innihalda flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Krafa þessi er í samræmi við 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 842/2006. Slík krafa hefur verið í íslenskri reglugerð um kæli- og varmadælukerfi, nr. 553/1993, með síðari breytingum. Með hinu nýja ákvæði er hins vegar gerð tillaga um töluvert ítarlegri og nákvæmari merkingar og verða nákvæm fyrirmæli sett í reglugerðir þar sem m.a. verður kveðið á um hvernig merkiskiltið skal líta út og hvaða upplýsingar skuli koma fram á því. Gert er ráð fyrir að slíkar merkingar séu varanlegar og að ekki verði hægt að afmá þær.
    Kveðið er á um heimild ráðherra til þess að setja reglugerðir um ýmis atriði er varða flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir í e-lið 2. gr., sem verður 31. gr. laganna verði frumvarp þetta að lögum. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki nánari skýringa.

Um 3. gr.


    Fyrirséð er að ekki verður hægt að votta alla sem starfa í greininni áður en lögin öðlast gildi, verði frumvarp þetta að lögum. Jafnvel þó að aðilar hafi einhverja menntun í kælitækni þá þurfa þeir mögulega að sækja sér viðbótarþekkingu til þess að uppfylla öll skilyrði vottunar samkvæmt frumvarpinu. Því er lagt til, og er jafnframt gerð krafa um samkvæmt þeirri EB-gerð sem lagt er til að innleidd sé í lög með frumvarpi þessu, að boðið verði upp á vottun til bráðabirgða fyrir starfsmenn og rekstrar- og þjónustuaðila til 4. júlí 2011. Sú dagsetning er samræmd á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og undanþágan mun falla úr gildi á þeim degi enda gert ráð fyrir því að aðilar séu þá komnir með öll tilskilin réttindi. Er gerð tillaga til þessarar tilhögunar í 1. mgr.
    Í 2. mgr. er aftur á móti gerð tillaga um að heimilt verði að meta fyrra nám einstaklinga sem jafngilt því námi sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Hér er t.d. um að ræða þekkingu og færni sem aflað er í öðru námi. Eðlilegt þykir að binda heimildina þeim takmörkunum að einungis verði hægt að fá slíkt mat innan þriggja ára frá gildistöku laga þessara.

Um 4. og 5. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/1988,
um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

    Frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 842/2006, um flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, en meginmarkmið hennar er að takmarka losun þessara lofttegunda út í andrúmsloftið. Í því skyni er í frumvarpinu mælt fyrir um skyldur rekstraraðila er lúta að geymslu og endurnýtingu þessara lofttegunda, merkingu á vörum og búnaði sem innihalda þær, auk þess sem gerð er krafa um vottun og tiltekna menntun þeirra starfsmanna sem annast uppsetningu, viðhald, áfyllingu, lekaleit og aðra þjónustu við kerfi og búnað sem innihalda flúoreraðar lofttegundir. Skal ráðherra setja nánari menntunarkröfur í reglugerð. Einnig er mælt fyrir um að rekstrar- og þjónustuaðilar fasts búnaðar og kerfa sem innihalda þessar lofttegundir skuli hafa vottun um að þeir uppfylli kröfur reglugerða sem ráðherra setur um húsnæði, öryggi og lágmarks tækjabúnað vegna starfsemi sinnar. Enn fremur skulu þeir hafa vottun fyrir því að starfsmenn þeirra hafi vottun um tiltekna menntun. Vottun skal framkvæmd af faggiltri skoðunarstofu samkvæmt lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. Umsækjendur greiða sjálfir gjald fyrir vottunina og er hér ekki lagt mat á þann kostnað.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að nám sem veiti réttindi til starfa samkvæmt lögunum verði annars vegar hluti af núverandi vélstjóranámi en auk þess sé áformað að hefja nýtt löggilt nám í kælivélavirkjun í framhaldsskólum haustið 2009 sem taki mið af hinum nýju námskröfum. Gert er ráð fyrir að það verði fjögurra ára nám, þar af eitt ár í starfsnámi. Þeir sem hafa vélstjóraréttindi eða háskólamenntun á þessu sviði, t.d. kælitæknifræðingar og kæliverkfræðingar, geta sótt um vottun á því námi. Fyrir þá sem starfa nú þegar á þessu sviði en hafa aðra menntun, t.d. rafvirkja og málm- og skipasmiði, mun verða boðið upp á styttri námskeið til þess að þeir geti uppfyllt þær kröfur sem gerðar verða til að fá vottun.
    Menntamálaráðuneytið áætlar, með fyrirvara um að enn eigi eftir að skilgreina nánar menntunarkröfur, að heildarframlag ríkisins á hvern nemanda í hinu nýja námi í kælivélavirkjun verði um 3,3 m.kr., eða um 1,1 m.kr. á ári. Sú fjárhæð er mjög nálægt framlagi ríkisins fyrir hvern nemanda í verkmenntaskólum nú. Sem dæmi má nefna Tækniskólann sem í fjárlögum ársins 2009 fær 977 þús. kr. á hvern ársnemanda. Að því gefnu að samþykkt frumvarpsins leiði ekki til verulegra breytinga í skólasókn á framhaldsskólastigi má ætla að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði óveruleg.