Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 901  —  355. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um kostnað við gjaldeyrisvaraforðann.

     1.      Hver var ávöxtun gjaldeyrisvaraforðans árlega eftir myntum árin 2004–2008, annars vegar í prósentum og hins vegar upphæðum fyrir hverja mynt?

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Frá árinu 2004 hefur gulleign Seðlabankans verið um 64.000 únsur. Ávöxtun gulls hefur verið óveruleg á þessu tímabili.

     2.      Hver er áætlaður kostnaður hins opinbera af sambærilegum lántökum eftir myntum á sama árabili, annars vegar í prósentum og hins vegar upphæðum fyrir hverja mynt?
    Skiptar skoðanir eru um hvernig meta eigi kostnað við að halda gjaldeyrisforða. Ein aðferð er að bera saman kostnað af lántöku við fjárfestingu í áhættulausri eign. Í þessu tilfelli mætti hugsa sér að ríkið gæfi út skuldabréf í evrum til fimm ára og andvirði skuldabréfsins yrði fjárfest í fimm ára þýsku ríkisskuldabréfi.
    Á undanförnum árum hefur ríkissjóður gefið út tvö skuldabréf, annars vegar í mars 2004 og hins vegar í desember 2006 og einnig tók ríkissjóður 300 milljóna evru lán í september sl.
    Hinn 8. mars 2004 gaf ríkissjóður út skuldabréf til 10 ára að fjárhæð 200 milljónir bandaríkjadala í samvinnu við Citi Group. Lán þetta var ekki hugsað til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Fastir vextir skuldabréfsins voru 4,375%. Á sama tíma var ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisbréfa um 3,73%. Mismunur á ávöxtunarkröfu bandaríska ríkisbréfsins og útgáfu ríkissjóðs var því um 64,5 punktar. Punktur jafngildir 1:100 úr prósentu, þ.e. 1% jafngildir 100 punktum. Vaxtagreiðslur af þessu láni eru 8,75 milljónir bandaríkjadala á ári.
    Hinn 1. desember 2006 gaf ríkissjóður út skuldabréf til fimm ára (2011) fyrir 1 milljarð evra með 3,75% föstum vaxtagreiðslum. Því eru vaxtagreiðslur af láninu 37,5 milljónir evra á ári. Ávöxtunarkrafa fimm ára þýsks ríkisbréfs (OBL 149) þann 4. desember 2006 var ríflega 3,59% en ávöxtunarkrafa á skuldabréfi ríkissjóðs sama dag var um 3,94%. Mismunur á ávöxtunarkröfu þýska ríkisbréfsins og útgáfu ríkissjóðs var því um 35 punktar.
    Í dag er munur á ávöxtunarkröfu sömu skuldabréfa ( OBL 149 og evruútgáfa ríkissjóðs) um 1.700 punktar. Ef litið er á skuldatryggingarálag ríkissjóðs í dag er það um 1.000 punktar en á árinu 2008 hefur það verið á bilinu 100–1.400 punktar. Það er því erfitt að áætla hver kostnaður ríkissjóðs hefði getað verið á árinu 2008, en í september 2008 tók ríkissjóður að láni 300 milljónir evra til 3 ára á 90 punktum yfir 6 mánaða Euribor sem þó var tekið áður en fjármálakerfi landsins hrundi. Þann 31. mars nk. þarf að greiða 9,3 milljónir evra í vaxtagreiðslur af láninu. Það er ekki óvarlegt að áætla að kostnaður ríkissjóðs vegna útgáfu ríkissjóðs á árinu 2008 hefði getað verið a.m.k. 300 punktar.
    Það er því ljóst að kostnaður ríkissjóðs mældur á þennan mælikvarða hefur verið um 65 punktar á árunum 2004–2005. Á árunum 2006–2007 hafi þetta verið 35 punktar en á árinu 2008 má gera ráð fyrir kostnaði upp á um 300 punkta. Ekki er óvarlegt að áætla að þessi kostnaður hefði nokkurn veginn verið sá sami hvort sem litið er til evru, bandaríkjadala eða sterlingspunda.
    Byggt er á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.