Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 949  —  385. mál.




Breytingartillögur



við frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sérnefndar um stjórnarskrármál (BBj, StB, BÁ, JM).



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Við stjórnarskrána bætist ný grein, 79. gr., svohljóðandi:
                  Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
             Eftirfarandi breytingar verða á 79. gr. stjórnarskrárinnar sem verður 81. gr.:
              a.      Í stað 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                     Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi. Slíkt frumvarp má ekki samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við fjórar umræður og skulu þrjár vikur hið minnsta líða milli umræðna.
                     Hljóti frumvarp til stjórnskipunarlaga samþykki að minnsta kosti 2/ 3hluta alþingismanna skal það lagt undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Skal atkvæðagreiðslan vera leynileg og fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó minnst 25 af hundraði allra kosningarbærra manna, skal það staðfest af forseta Íslands og öðlast þá gildi sem stjórnskipunarlög.
                     Sé frumvarp til stjórnskipunarlaga samþykkt án þess að minnst 2/ 3hlutar alþingismanna greiði því atkvæði skal fresta frekari meðferð frumvarpsins. Samþykki Alþingi frumvarpið óbreytt, að loknum næstu almennum þingkosningum og að undangengnum þremur umræðum, sbr. 44. gr., skal það lagt undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Skal atkvæðagreiðslan vera leynileg og fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir endanlega samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu, þó minnst 20 af hundraði allra kosningarbærra manna, skal það staðfest af forseta Íslands og öðlast þá gildi sem stjórnskipunarlög.
              b.      2. mgr. verður 4. mgr.
              c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                       Nánari tilhögun atkvæðagreiðslu skv. 2., 3. og 4. mgr. skal ákveðin með lögum.

Greinargerð.


    Með þessari tillögu vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sérnefnd um stjórnarskrármál leggja fram hugmynd að efnislegri sátt í nefndinni um 1. og 2. gr. frumvarpsins. Að því er varðar 1. gr. er með henni komið til móts við þau sjónarmið umsagnaraðila að hugtakið þjóðareign sé svo óljóst að notkun þess geti valdið of miklum vafa um túlkun til þess að forsvaranlegt sé að hafa það í stjórnarskrá. Flutningsmenn tillögunnar telja að með því orðalagi sem þeir leggja til að verði á greininni sé komið til móts við þau efnislegu markmið sem stefnt er að með ákvæðinu eins og það hefur verið kynnt frá því að auðlindanefnd skilaði skýrslu sinni árið 2000.
    Til skýringar á 2. tölul. breytingartillagnanna vísa flutningsmenn til þess sem segir í skýrslu nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands (stjórnarskrárnefndar) frá árinu 2007, enda er tillagan orðrétt niðurstaða fulltrúa allra stjórnmálaflokka í þeirri nefnd. Tillögu nefndarinnar um frumvarp í þessa veru má finna á vef forsætisráðuneytisins:
     www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/frumvarptilstjornskipunarlaga.pdf.