Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 951  —  385. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál.



    Málið var tekið aftur inn til umfjöllunar í sérnefnd um stjórnarskrármál áður en 2. umræðu lauk í því skyni að reyna að ná samkomulagi milli fulltrúa þingflokks Sjálfstæðisflokksins annars vegar og fulltrúa allra annarra þingflokka hins vegar um afgreiðslu málsins. Tilefni þess að málið var kallað inn til nefndar var það að í umræðum um málið á Alþingi höfðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem einir eru andvígir frumvarpinu, ítrekað lýst yfir að þeir gætu hugsað sér að styðja fyrstu þrjár greinar frumvarpsins sem fjalla um náttúruauðlindir í þjóðareign, einföldun á breytingu á stjórnarskrá og að gera almenningi kleift að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem varða almannahag. Hins vegar hafa þeir lýst yfir eindreginni andstöðu við 4. gr. frumvarpsins um stjórnlagaþing.
    Í formlegum og óformlegum viðræðum meiri hluta nefndarmanna við minni hluta Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd undanfarna tvo daga var látið á það reyna hvort ná mætti samkomulagi um afgreiðslu 1. og 2. gr. frumvarpsins.
    Þeim viðræðum lauk með því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram formlegar breytingartillögur á fundi nefndarinnar í dag um að fella brott efnisatriði 1. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign. Sömuleiðis lögðu þeir til á fundinum að fellt yrði brott efnisatriði þess efnis að náttúruauðlindir í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi.
    Varðandi 2. gr. frumvarpsins heldur minni hluti Sjálfstæðisflokksins sig áfram við það skilyrði að 2/ 3 hlutar alþingismanna verði að samþykkja breytingar á stjórnarskrá til að bera megi þær upp í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef frumvarp til stjórnarskipunarlaga er samþykkt á Alþingi án þess að minnst 2/ 3 hlutar alþingismanna greiði því atkvæði skal fresta frekari meðferð frumvarpsins. Ef Alþingi samþykkir frumvarp til stjórnarskipunarlaga aftur óbreytt er lagður til flókinn ferill sem m.a. felur í sér að breytingar þurfi að ganga í gegnum þingkosningar, endurteknar umræður og samþykki Alþingis, og þá að lokum lagt undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mati meiri hlutans er þessi tillaga ekki til þess fallin að ná samkomulagi í nefndinni. Tillaga minni hluta Sjálfstæðisflokksins er sú sama og stjórnarskrárnefnd lagði til árið 2007 en náði ekki fram að ganga. Tillagan er að danskri fyrirmynd, en Danir hafa ekki náð fram breytingum á stjórnarskrá frá því ákvæðið var lögfest þar í landi, einkum vegna þess hversu útfærslan er flókin.
    Af umræðu í nefndinni og á þinginu má ráða að minni hluti Sjálfstæðisflokksins leggst eindregið gegn ákvæðum frumvarpsins um þjóðaratkvæðagreiðslur og að komið verði á fót stjórnlagaþingi.
    Breytingartillögur minni hluta Sjálfstæðisflokksins sem kynntar voru í nefndinni gera ráð fyrir því að íslenska ríkið geti afhent, selt eða gefið náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign, verði það ákveðið með lögum. Meiri hlutinn lýsir undrun á tillöguflutningi minni hluta Sjálfstæðisflokksins, vitandi það að hann væri með engu móti til þess fallinn að skapa sátt um stjórnarskrárbreytingar. Tillöguflutningurinn verður ekki skilinn öðruvísi en svo að minni hluti Sjálfstæðisflokksins hafni því að náttúruauðlindir skuli varanlega vera í þjóðareign. Breytingartillaga minni hluta Sjálfstæðisflokksins sem kynnt var í nefndinni verður túlkuð þannig að hún veiti löggjafanum stjórnarskrárvarða heimild til að ráðstafa, selja eða gefa náttúruauðlindir sem í dag eru sameign þjóðarinnar. Hér má sem dæmi nefna nytjastofna á Íslandsmiðum skv. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.
    Meiri hlutinn lýsir furðu sinni á breytingartillögum minni hluta Sjálfstæðisflokksins við frumvarpið sem kynntar voru í nefndinni í ljósi þess að málið var kallað inn í nefndina áður en 2. umræðu lauk í því skyni að reyna að ná sátt um efni frumvarpsins og afgreiðslu málsins. Með tillöguflutningnum eins og hann var kynntur í nefndinni staðfestir minni hluti Sjálfstæðisflokksins í fyrsta lagi andstöðu sína við að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og verði ekki látnar varanlega af hendi og setur í öðru lagi fótinn fyrir tillögur sem auðvelda breytingar á stjórnarskrá, t.d. með hugsanlega aðild að ESB í huga. Í þriðja lagi gerir minni hlutinn ekki ráð fyrir því að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál er varða almannahag og í fjórða lagi, eins og fram hefur komið, hafnar minni hlutinn því að almenningur geti valið fulltrúa sína á stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána. Með tillögunum hefur minni hluti Sjálfstæðisflokksins í raun slegið á útrétta sáttahönd meiri hluta nefndarmanna í sérnefnd um stjórnarskrármál.
    Með tillögunum hafnar minni hluti Sjálfstæðisflokksins alfarið hugmyndum allra annarra þingflokka á Alþingi um lýðræðisumbætur til handa íslensku þjóðinni. Meiri hlutinn harmar tillöguflutning minni hlutans, fulltrúa þingmanna Sjálfstæðisflokksins í sérnefnd um stjórnarskrármál, en í ljósi hans telur meiri hlutinn fullreynt að hægt sé að ná samkomulagi um efni og afgreiðslu málsins. Því leggur meiri hlutinn til að tekið verði að nýju til við 2. umræðu um málið.

Alþingi, 16. apríl 2009.



Lúðvík Bergvinsson,


varaform., frsm.


Atli Gíslason.


Ellert B. Schram.



Siv Friðleifsdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.