Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 434. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 956  —  434. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um minnisblöð, hljóðritanir o.fl. varðandi Icesave-ábyrgðir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Eru til minnisblöð, hljóðritanir símtala eða önnur gögn í forsætisráðuneytinu um samskipti íslenskra og breskra stjórnvalda, þ.m.t. ráðherra, dagana 3.–6. október sl.?
     2.      Ef svo er, geta þau gögn varpað ljósi á þá atburðarás sem deilt hefur verið um varðandi mögulegan flýti á því að Bretar tækju Icesave-ábyrgðirnar í breska lögsögu?
     3.      Ef svo er, hvert er meginefni þessara gagna?
     4.      Eru til minnisblöð, hljóðritanir símtala eða önnur gögn sem benda til þess að forsætisráðherra hafi með einhverjum hætti komið að ákvörðun Seðlabankans um lánveitingar til a) Landsbankans, b) Kaupþings á framangreindum tíma – og ef svo er, með hvaða hætti?


    Öll tiltæk gögn í ráðuneytinu sem varða aðdraganda bankahrunsins, þ.m.t. minnisblöð um samtöl þáverandi forsætisráðherra við breska ráðamenn í byrjun október sl., hafa verið afhent rannsóknarnefnd Alþingis sem starfar samkvæmt lögum nr. 142/2008. Það er verkefni rannsóknarnefndarinnar að leita sannleikans um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, sbr. 1. gr. laganna. Forsætisráðuneytið telur því ekki rétt að það leggi mat á þýðingu fyrirliggjandi gagna. Ráðuneytið telur heldur ekki rétt að það endursegi efni gagnanna, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna, þar sem gert er ráð fyrir sérstöku ferli við upplýsingagjöf um störf rannsóknarnefndarinnar til Alþingis. Einnig má benda á að skv. 3. mgr. 16. gr. laganna er opinberum aðilum óheimilt að veita aðgang að gögnum sem rannsóknarnefndin hefur fengið afhent, nema með samþykki nefndarinnar. Ráðuneytið er reiðubúið að kynna utanríkismálanefnd gögnin í trúnaði, sbr. 24. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, enda geri rannsóknarnefndin ekki athugasemdir við það.