Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 113. máls.

Þskj. 142  —  113. mál.




Frumvarp til laga

um heilbrigðisstarfsmenn.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið og gildissvið.

    Markmið laga þessara er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.
    Um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna og annarra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu gilda lög þessi, lög um réttindi sjúklinga, lög um landlækni, lög um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
     1.      Heilbrigðisstarfsmaður: Einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hefur hlotið leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.
     2.      Löggilt heilbrigðisstétt: Heilbrigðisstétt sem öðlast hefur löggildingu samkvæmt sérlögum sem í gildi voru við gildistöku laga þessara og reglugerðum sem settar voru með stoð í lögum um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, nr. 24/1985, og samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga þessara.
     3.      Heilbrigðisstofnun: Stofnun þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt.
     4.      Heilbrigðisþjónusta: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.
     5.      Sjúklingur: Notandi heilbrigðisþjónustu.
     6.      Meðferð: Rannsókn, aðgerð eða önnur heilbrigðisþjónusta sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veitir til að greina, lækna, endurhæfa, hjúkra eða annast sjúkling.

II. KAFLI
Löggiltar heilbrigðisstéttir.
3. gr.
Tilgreining löggiltra heilbrigðisstétta.

    Löggiltar heilbrigðisstéttir samkvæmt lögum þessum eru:
     1.      Áfengis- og vímuvarnaráðgjafar.
     2.      Félagsráðgjafar.
     3.      Fótaaðgerðafræðingar.
     4.      Geislafræðingar.
     5.      Hjúkrunarfræðingar.
     6.      Hnykkjar (kírópraktorar).
     7.      Iðjuþjálfar.
     8.      Lífeindafræðingar.
     9.      Ljósmæður.
     10.      Lyfjafræðingar.
     11.      Lyfjatæknar.
     12.      Læknar.
     13.      Læknaritarar.
     14.      Matartæknar.
     15.      Matvælafræðingar.
     16.      Náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu.
     17.      Næringarfræðingar.
     18.      Næringarráðgjafar.
     19.      Næringarrekstrarfræðingar.
     20.      Osteópatar.
     21.      Sálfræðingar.
     22.      Sjóntækjafræðingar.
     23.      Sjúkraflutningamenn.
     24.      Sjúkraliðar.
     25.      Sjúkranuddarar.
     26.      Sjúkraþjálfarar.
     27.      Stoðtækjafræðingar.
     28.      Talmeinafræðingar.
     29.      Tannfræðingar.
     30.      Tannlæknar.
     31.      Tanntæknar.
     32.      Þroskaþjálfar.

4. gr.

Réttur til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.


    Rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar skv. 3. gr. og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.

5. gr.
Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

    Ráðherra skal, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og kennslustofnun hér á landi, setja reglugerðir um skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta leyfi til að nota heiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi. Þar skal m.a. kveðið á um það nám sem krafist er til að hljóta starfsleyfi, um starfsþjálfun sé gerð krafa um hana og um starfssvið viðkomandi heilbrigðisstéttar og afmörkun þess. Enn fremur skal kveðið á um í hvaða tilvikum skuli leitað umsagnar kennslustofnunar eða annarra aðila um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um nám.
    Við setningu reglugerða skv. 1. mgr. skal gætt skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur tekið á sig um staðfestingu starfsleyfa og gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða á grundvelli annarra gagnkvæmra samninga, sbr. 29. gr.
    Þegar ekki eru í gildi samningar við önnur ríki um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina og ekki hefur verið sýnt fram á að nám uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um viðkomandi heilbrigðisstétt er heimilt að setja í reglugerð skilyrði um að umsækjandi frá þeim ríkjum gangist undir hæfnispróf sem sýni fram á að hann búi yfir kunnáttu sem krafist er af heilbrigðisstarfsmönnum í viðkomandi heilbrigðisstétt. Auk þess er heimilt að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf eftir því sem við á hverju sinni, enda sé slík kunnátta talin nauðsynleg í starfi og þá einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.
    Ekki skal veita umsækjanda starfsleyfi ef fyrir hendi eru skilyrði til sviptingar starfsleyfis samkvæmt lögum um landlækni.
    Heimilt er að taka gjald fyrir hæfnispróf sem lagt er fyrir umsækjanda um starfsleyfi. Gjaldið skal standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd hæfnisprófs.

6. gr.
Veiting starfsleyfis.

    Landlæknir veitir umsækjendum leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem slíkir hér á landi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sbr. 29. gr.
    Synjun landlæknis um veitingu starfsleyfis er kæranleg til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

7. gr.
Réttur til að kalla sig sérfræðing.

    Rétt til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.

8. gr.
Skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis.

    Ráðherra getur kveðið á um löggildingu sérfræðigreina innan löggiltrar heilbrigðisstéttar með reglugerð, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og kennslustofnun hér á landi. Við löggildingu nýrra sérfræðigreina skal einkum litið til hagsmuna sjúklinga.
    Í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skal kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta leyfi til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi, m.a. skal kveðið á um það sérfræðinám sem krafist er til að hljóta sérfræðileyfi og um starfsþjálfun sé gerð krafa um hana. Enn fremur skal kveðið á um í hvaða tilvikum skuli leitað umsagnar kennslustofnunar eða annarra aðila um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um sérfræðinám.
    Við setningu reglugerða skv. 1. mgr. skal gætt skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur tekið á sig vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða á grundvelli annarra gagnkvæmra samninga, sbr. 29. gr.

9. gr.
Veiting sérfræðileyfis.

    Landlæknir veitir umsækjendum leyfi til að kalla sig sérfræðinga innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem slíkir hér á landi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sbr. 29. gr.
    Synjun landlæknis um veitingu sérfræðileyfis er kæranleg til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

10. gr.
Óheimil notkun starfsheitis.

    Þeim sem ekki hefur fengið til þess leyfi landlæknis er óheimilt að nota löggilt starfsheiti eða starfa sem slíkur. Honum er jafnframt óheimilt að veita sjúklingi meðferð sem fellur undir lögverndað starfssvið löggiltrar heilbrigðisstéttar, gefa læknisfræðilegar eða aðrar faglegar ráðleggingar eða afhenda lyf sem einungis er heimilt að selja í lyfjabúðum.

11. gr.
Tímabundið starfsleyfi.

    Landlækni er heimilt að gefa út tímabundið starfsleyfi til heilbrigðisstarfsmanna með erlent nám eða próf sem er viðurkennt samkvæmt samningum, sbr. 29. gr., en uppfyllir ekki kröfur um nám hér á landi.
    Nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis skal setja í reglugerð.

12. gr.
Svipting og endurveiting starfsleyfis.

    Um sviptingu og afsal starfsleyfis, takmörkun starfsleyfis og endurveitingu starfsleyfis fer samkvæmt ákvæðum laga um landlækni.

III. KAFLI
Réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna.
13. gr.
Faglegar kröfur.

    Heilbrigðisstarfsmaður skal sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
    Heilbrigðisstarfsmanni ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma.
    Heilbrigðisstarfsmaður ber, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita. Um upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanns gagnvart sjúklingi fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.
    Heilbrigðisstarfsmaður skal virða faglegar takmarkanir sínar og vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns ef ætla má að hann sé hæfari til að veita honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um endurmenntun heilbrigðisstarfsmanna í reglugerð.

14. gr.
Undanþága frá starfsskyldu.

    Heilbrigðisstarfsmanni er heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við trúarleg eða siðferðileg viðhorf hans, enda séu störfin ekki framkvæmd í lækningaskyni.

15. gr.
Áfengi og vímuefni.

    Heilbrigðisstarfsmanni er óheimilt að starfa undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Heilbrigðisstofnunum er heimilt að höfðu samráði við landlækni að setja reglur um bann við notkun heilbrigðisstarfsmanna á áfengi eða öðrum vímuefnum tiltekinn tíma áður en vinna þeirra hefst.

16. gr.
Aðstoðarmenn og nemar.

    Heilbrigðisstarfsmaður skal sjá til þess að aðstoðarmenn og nemar, sem starfa undir hans stjórn, hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að inna af hendi störf sem hann felur þeim.
    Ráðherra getur, að fenginni umsögn landlæknis, sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis.

17. gr.
Trúnaður og þagnarskylda.

    Heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu ber að gæta fyllstu þagmælsku og hindra að óviðkomandi fái upplýsingar um einkamál er þeir kunna að komast að í starfi sínu. Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.
    Samþykki sjúklings eða forráðamanns, ef við á, leysir heilbrigðisstarfsmann undan þagnarskyldu.
    Þagnarskylda fellur ekki niður við andlát sjúklings eða þegar heilbrigðisstarfsmaður lætur af störfum. Um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings fer samkvæmt lögum um sjúkraskrár.
    Heilbrigðisstarfsmaður getur, þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar, veitt öðrum heilbrigðisstarfsmönnum nauðsynlegar upplýsingar vegna rannsóknar á sjúklingi og meðferðar hans.
    Þagnarskylda samkvæmt þessari grein nær ekki til atvika sem heilbrigðisstarfsmanni ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Í þeim tilvikum ber heilbrigðisstarfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær yfirvöld.

18. gr.
Upplýsinga- og vitnaskylda.

    Um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að veita landlækni upplýsingar, m.a. vegna eftirlits með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu og til gerðar heilbrigðisskýrslna, fer samkvæmt lögum um landlækni.
    Heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar er skylt að veita ráðuneyti nauðsynlegar upplýsingar vegna meðferðar og úrlausnar stjórnsýslumála. Ákvæði 17. gr. um trúnað og þagnarskyldu takmarka ekki upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanna og annarra starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt ákvæði þessu.
    Heilbrigðisstarfsmaður verður ekki leiddur fram sem vitni í einkamálum gegn vilja sjúklings nema ætla megi að úrslit málsins velti á vitnisburði hans eða málið sé mikilvægt fyrir málsaðila eða þjóðfélagið, hvort tveggja að mati dómara. Í slíkum tilvikum ber heilbrigðisstarfsmanni að skýra frá öllu sem hann veit og telur að hugsanlega geti haft áhrif á málið. Slíkur vitnisburður skal fara fram fyrir luktum dyrum.
    Um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til samstarfs og upplýsingagjafar til barnaverndaryfirvalda fer samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.

19. gr.
Vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur.

    Heilbrigðisstarfsmönnum ber að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki.
    Heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er þeir annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna samskipta sjúklings við hið opinbera.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari reglur um útgáfu vottorða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna.

20. gr.
Um lyfjaávísanir og lyfjakaup.

    Um lyfjaávísanir heilbrigðisstarfsmanna og heimild til kaupa í heildsölu á tilteknum nauðsynlegum lyfjum til reksturs starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns fer samkvæmt lyfjalögum og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum.

21. gr.
Sjúkraskrár.

    Heilbrigðisstarfsmaður sem veitir sjúklingi meðferð skal færa sjúkraskrá samkvæmt ákvæðum laga um sjúkraskrár og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.

22. gr.
Skylda til að veita hjálp.

    Heilbrigðisstarfsmanni ber, sé hann nærstaddur eða sé til hans leitað, að veita fyrstu nauðsynlegu aðstoð í skyndilegum og alvarlegum sjúkdóms- eða slysatilfellum, í samræmi við menntun sína og þjálfun, nema þeim mun alvarlegri forföll hamli.

23. gr.
Hófsemi.

    Heilbrigðisstarfsmenn skulu gæta þess við veitingu heilbrigðisþjónustu og framkvæmd starfa sinna að sjúklingar, sjúkratryggingar eða aðrir sem standa straum af kostnaði vegna hennar verði ekki fyrir óþarfa útgjöldum eða óþægindum.

24. gr.
Upplýsingar um þjónustu heilbrigðisstarfsmanna.

    Við veitingu upplýsinga um heilbrigðisþjónustu skal ávallt gætt málefnalegra sjónarmiða, fyllstu ábyrgðar, nákvæmni og sanngirni.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um veitingu upplýsinga um heilbrigðisþjónustu.

25. gr.
Um sjúklingatryggingar.

    Heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa sjálfstætt og fyrirtækjum sem veita heilbrigðisþjónustu er skylt að hafa vátryggingu sem uppfyllir skilyrði laga um sjúklingatryggingu og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra laga.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
26. gr.
Aldursmörk.

    Heilbrigðisstarfsmanni samkvæmt lögum þessum er óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir að hann nær 70 ára aldri. Landlækni er þó heimilt, að fenginni umsókn viðkomandi, að framlengja leyfi til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar.

27. gr.
Um meðferðar- eða rannsóknaraðferðir o.fl.

    Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð:
     a.      að tilgreindum rannsóknar- eða meðferðaraðferðum skuli aðeins beitt af heilbrigðisstarfsmönnum eða nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum,
     b.      að tiltekinni meðferðar- eða rannsóknaraðferð skuli aðeins beitt af þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem til þess hafa fengið sérstakt leyfi landlæknis,
     c.      bann við notkun tiltekinna meðferðar- og rannsóknaraðferða.
    Reglugerðir um takmarkanir skv.1. mgr. skulu byggðar á hagsmunum sjúklinga og skulu þær settar að fengnum tillögum landlæknis og umsögn fagfélags viðkomandi löggiltrar heilbrigðisstéttar.

28. gr.
Refsingar.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
    Með brot gegn lögum þessum skal farið samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

29. gr.
Alþjóðlegir samningar.

    Landlækni er heimilt að gefa út leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar á grundvelli gagnkvæms samnings við önnur ríki um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og gagnkvæma viðurkenningu starfsleyfa.
    Ráðherra getur sett nánari ákvæði um skilyrði sem uppfylla þarf til að öðlast starfsleyfi á grundvelli alþjóðlegra samninga með reglugerð.

30. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

31. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

32. gr.
Brottfall laga.

    Við gildistöku laga þessara falla brott eftirfarandi lög, með síðari breytingum:
     1.      Læknalög, nr. 53/1988.
     2.      Lög um tannlækningar, nr. 38/1985.
     3.      Hjúkrunarlög, nr. 8/1974.
     4.      Lög um félagsráðgjöf, nr. 95/1990.
     5.      Lög um iðjuþjálfun, nr. 75/1977.
     6.      Ljósmæðralög, nr. 67/1984.
     7.      Lög um lyfjafræðinga, nr. 35/1978.
     8.      Lög um lífeindafræðinga, nr. 99/1980.
     9.      Lög um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984.
     10.      Lög um sjúkraliða, nr. 58/1984.
     11.      Lög um sjúkraþjálfun, nr. 58/1976.
     12.      Lög um þroskaþjálfa, nr. 18/1978.
     13.      Lög um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, nr. 24/1985.
     14.      Lög um sálfræðinga, nr. 40/1976.

33. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Í stað orðsins „læknalaga“ í 3. mgr. 13. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, kemur: laga um heilbrigðisstarfsmenn.
     2.      Í stað orðanna „skv. 19. gr. læknalaga“ í d-lið 4. mgr. 27. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, kemur: skv. 18. gr. laga um landlækni.
     3.      Í stað orðsins „læknalaga“ í 5. gr. laga um græðara, nr. 34/2005, kemur: laga um heilbrigðisstarfsmenn.
     4.      Orðið „læknalögum“ í 3. mgr. 7. gr. laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði, nr. 139/ 1998, fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsleyfi aðstoðarlyfjafræðinga sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Um alllangt skeið hefur verið unnið að því í heilbrigðisráðuneytinu að semja rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn. Drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisstarfsmenn hafa þrisvar verið send til umsagnar, síðast í desember 2008, en þá voru drög að frumvarpi send til allra fagfélaga löggiltra heilbrigðisstétta svo og til hjúkrunarráðs, ljósmæðraráðs, Lyfjastofnunar, landlæknisembættisins, heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík, Kennaraháskóla Íslands, Ármúlaskóla, Snyrtiakademíunnar, SÁÁ, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Umsagnir bárust frá 25 aðilum.
    Löggiltar heilbrigðisstéttir eru nú 33 talsins. Sérlög gilda um 14 heilbrigðisstéttir en 19 stéttir hafa verið löggiltar með reglugerðum, sem settar eru með stoð í lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta.
    Gildandi laga- og reglugerðaákvæði um heilbrigðisstéttir eru að ýmsu leyti úrelt og gætir talsverðs ósamræmis, t.d. varðandi það hvaða heilbrigðisstéttir geta starfað sjálfstætt og hverjar starfa á ábyrgð annarrar heilbrigðisstéttar, hvaða heilbrigðisstéttir mega hafa aðstoðarmenn og hverjar ekki, hvaða heilbrigðisstéttir þurfa að halda skýrslur um störf sín og hverjar ekki.
    Megintilgangurinn með rammalöggjöf um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna er að samræma og einfalda gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn, tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur til heilbrigðisstarfsmanna. Ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn eru gerð markvissari og hnitmiðaðri en áður, felldar brott ónauðsynlegar takmarkanir á starfssviði heilbrigðisstétta og þau færð til nútímahorfs þannig að heilbrigðisþjónustan og störf og starfssvið heilbrigðisstétta geti þróast með eðlilegum hætti innan ramma löggjafar. Verði frumvarpið að lögum verða nýjar heilbrigðisstéttir framvegis ekki löggiltar nema með breytingu á lögunum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherra geti með reglugerðum kveðið á um ýmis atriði sem eru þess eðlis að betur fer á að þau séu ákveðin í stjórnvaldsfyrirmælum. Má m.a. nefna:
     a.      Hvaða skilyrði um nám, námsskilyrði og eftir atvikum starfsreynslu einstaklingur innan löggiltrar heilbrigðisstéttar þarf að uppfyllta til að eiga rétt á leyfi til að starfa innan viðkomandi löggiltrar heilbrigðisstéttar og kalla sig starfsheiti stéttarinnar.
     b.      Starfssvið heilbrigðisstétta og afmörkun þess.
     c.      Hvaða reglur gildi um hverja heilbrigðisstétt varðandi viðhaldsmenntun, aðstoðarmenn og sérfræðiráð. Við gerð slíkra reglugerða er gert ráð fyrir að haft verði samráð við aðila eins og landlækni, fagfélög, kennslustofnanir og eftir atvikum aðra sem málið kann að varða.
    Frumvarp þetta byggist að stofni til á ákvæðum læknalaga, nr. 53/1988, eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar, enda er tilvísun til læknalaga í flestum lögum og reglugerðum um heilbrigðisstéttir. Ýmis ákvæði læknalaga gilda því almennt um heilbrigðisstarfsmenn og má því segja að þau séu að vissu marki grundvallarlög um heilbrigðisstéttir. Við undirbúning frumvarps þessa hefur einnig verið höfð hliðsjón af sambærilegum norskum lögum.
    Með lögum um landlækni voru stigin skref til samræmingar og ákvæði flutt úr læknalögum. Með lögum nr. 12/2008, um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis, sem gengu í gildi 1. apríl sama ár, var útgáfa starfsleyfa flutt frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis. Helstu rökin fyrir flutningi starfsleyfa heilbrigðisstétta voru þau að um er að ræða stjórnsýslu sem telja verður að eigi frekar heima á verksviði stofnunar en ráðuneytis, enda er það svo að annars staðar á Norðurlöndum hafa undirstofnanir ráðuneyta umsjón með útgáfu starfsleyfa og vottorða vegna þeirra, en frumvörp og reglugerðir er varða starfsleyfi eru undirbúin af ráðuneytum.
    Helstu breytingar og nýmæli sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Ein samræmd rammalög um heilbrigðisstarfsmenn í stað 13 sérlaga og laga um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta.
     2.      Heimild til að löggilda nýjar heilbrigðisstéttir með reglugerð fellur brott.
     3.      Starfssvið heilbrigðisstétta verði ákveðið á grundvelli þekkingar og hæfni með tilliti til hagsmuna sjúklinga og úrelt ákvæði um takmarkanir á starfsréttindum felld brott.
     4.      Kveðið á um að heilbrigðisstarfsmaður skuli virða faglegar takmarkanir sínar og vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns þegar við á.
     5.      Undirstrikað að óheimilt sé að starfa undir áhrifum áfengis eða vímuefna og heilbrigðisstofnunum heimilað að setja reglur um bann við notkun áfengis og vímuefna í tiltekinn tíma áður en vinna hefst.
     6.      Heilbrigðisstarfsmenn skulu sjá til þess að aðstoðarmenn þeirra hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að sinna störfum sem þeir fela þeim.
     7.      Kveðið er á um að heilbrigðisstarfsmenn skuli gæta þess að sjúklingar, sjúkratryggingar eða aðrir verði ekki fyrir óþarfa útgjöldum eða óþægindum.
     8.      Í stað núgildandi ákvæða um auglýsingar kemur ákvæði um þær kröfur sem gera skal til veitingar upplýsinga um þjónustu heilbrigðisstarfsmanna.
     9.      Ákvæði um hámarksaldur þeirra sem heimilt er að reka eigin starfsstofu er lækkaður úr 75 í 70 ár. Heimild landlæknis til að framlengja leyfi takmarkað við 76 ára aldur.
     10.      Ráðherra heimilað að ákveða með reglugerð að tilgreindri meðferð sé aðeins beitt af heilbrigðisstarfsmönnum, nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum eða þeim sem fengið hafa til þess sérstakt leyfi landlæknis. Jafnframt verði heimilt að banna tiltekna meðferð. Reglugerðir um slíkar takmarkanir skulu settar að fengnum tillögum landlæknis og umsögn viðkomandi fagfélags.

Ákvæði gildandi laga og reglugerða um heilbrigðisstéttir.
    Heilbrigðisstéttir sem um gilda sérlög eru 14 talsins. Þessar heilbrigðisstéttir eru:
    1. Læknar. Um lækna gilda læknalög, nr. 53/1988, með síðari breytingum. Samkvæmt læknalögum hefur sá einn rétt til að stunda lækningar og kalla sig lækni sem uppfyllir skilyrði laganna fyrir læknaleyfi, sbr. 1. gr. laganna, og er öðrum óheimilt að nota starfsheiti eða kynningarheiti sem til þess eru fallin að gefa hugmyndir um að þeir séu læknar eða stundi lækningar, sbr. 6. gr. laganna. Í lögunum eru ítarleg ákvæði um skyldur, sbr. III. kafla þeirra. Þar kemur og fram að læknar geta við störf sín notið aðstoðar annars heilbrigðisstarfsfólks að svo miklu leyti sem slíkt er nauðsynlegt og forsvaranlegt vegna hæfni þess og sérkunnáttu. Aðstoðarmenn starfa á ábyrgð lækna nema önnur lög bjóði annað, sbr. 7. gr. laganna. Um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa gildir reglugerð nr. 305/1997, með síðari breytingum.
    2. Tannlæknar. Um tannlækna gilda lög um tannlækningar, nr. 38/1985, með síðari breytingum. Skv. 1. gr. laganna hafa eingöngu þeir sem uppfylla skilyrði laganna um leyfi heimild til að stunda tannlækningar og kalla sig tannlækni. Verksvið tannlækna skv. 6. gr. laganna tekur til varna, greiningar og meðferðar á tannskemmdum, tannskekkju og tannleysis, til sjúkdóma, slysa og galla er þessu tengjast, þar með talið í mjúkvefjum og beinum. Tannlæknum er heimilt að hafa aðstoðarfólk, sbr. 8. gr. laganna, og starfar það ávallt undir handleiðslu og á ábyrgð tannlæknisins, sbr. 9. gr. Öðrum en tannlæknum og sérhæfðu aðstoðarfólki undir þeirra stjórn er óheimilt að stunda tannlækningar, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Tannlæknar skulu færa sjúkraskrá yfir sjúklinga sem þeir annast, sbr. 14. gr. laganna. Um sérfræðileyfi tannlækna gildir reglugerð nr. 545/2007. Um ávísanir tannlækna á lyf gildir reglugerð nr. 1077/2006.
    3. Hjúkrunarfræðingar. Um hjúkrunarfræðinga gilda hjúkrunarlög, nr. 8/1974, með síðari breytingum. Rétt til að stunda hjúkrun og kalla sig hjúkrunarfræðing hafa þeir sem fengið hafa leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Ekki má ráða aðra en hjúkrunarfræðinga til sjálfstæðra hjúkrunarstarfa við sjúkrastofnanir, elliheimili, heilsuvernd eða hjúkrun í heimahúsum, sbr. 4. gr. laganna. Um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun gildir reglugerð nr. 124/2003.
    4. Félagsráðgjafar. Um félagsráðgjafa gilda lög um félagsráðgjöf, nr. 95/1990, með síðari breytingum. Rétt til að kalla sig félagsráðgjafa hefur sá einn sem hefur til þess leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Óheimilt er að ráða til félagsráðgjafastarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 5. gr. laganna. Í 7. gr. laganna er tekið fram að félagsráðgjafar bera ábyrgð á starfi sínu. Um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf gildir reglugerð nr. 555/1999.
    5. Iðjuþjálfar. Um iðjuþjálfa gilda lög um iðjuþjálfun, nr. 75/1977. Rétt til að starfa sem iðjuþjálfi og kalla sig iðjuþjálfa hefur sá einn sem hefur leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Iðjuþjálfi starfar við hæfingu og endurhæfingu sjúkra og heilbrigðra sem fólgin er í þjálfun, fræðslu og kennslu, sbr. 4. gr. laganna. Iðjuþjálfi má ekki taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni, sbr. 5. gr. laganna. Óheimilt er að ráða til hvers konar iðjuþjálfastarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 6. gr. Iðjuþjálfa er heimilt að hafa sér til aðstoðar fólk sem ávallt skal starfa á ábyrgð og undir handleiðslu hans, sbr. 7. gr. laganna.
    6. Ljósmæður. Um ljósmæður gilda ljósmæðralög, nr. 67/1984, með síðari breytingum. Rétt til að kalla sig ljósmóður og stunda ljósmóðurstörf hefur sá einn sem hefur fengið leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Ljósmæður annast eftirlit með barnshafandi konum og foreldrafræðslu um meðgöngu og fæðingu. Þær starfa að fæðingarhjálp og mæðravernd, sbr. 4. gr. laganna. Óheimilt er að ráða til ljósmóðurstarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 5. gr. laganna.
    7. Lyfjafræðingar. Um lyfjafræðinga gilda lög um lyfjafræðinga, nr. 35/1978. Rétt til að kalla sig lyfjafræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn sem fengið hefur leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Um veitingu sérfræðileyfa handa lyfjafræðingum gildir reglugerð nr. 449/1978.
    8. Aðstoðarlyfjafræðingar. Um aðstoðarlyfjafræðinga gilda lög um lyfjafræðinga, nr. 35/1978. Rétt til að kalla sig aðstoðarlyfjafræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn sem hefur fengið til þess leyfi, sbr. 4. gr. laganna. Háskóli Íslands býður ekki lengur upp á nám sem lýkur með aðstoðarlyfjafræðingsprófi. Sjá nánar ákvæði til bráðabirgða.
    9. Lífeindafræðingar. Um lífeindafræðinga gilda lög um lífeindafræðinga, nr. 99/1980, með síðari breytingum, en heilbrigðisstéttin hét áður meinatæknar. Rétt til að starfa sem lífeindafræðingur og kalla sig lífeindafræðing hefur sá einn sem fengið hefur leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Óheimilt er að ráða sem lífeindafræðing aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 4. gr. laganna. Um veitingu sérfræðileyfa í lífeindafræði gildir reglugerð nr. 232/2007.
    10. Sálfræðingar. Um sálfræðinga gilda lög um sálfræðinga, nr. 40/1976, með síðari breytingum. Rétt til að kalla sig sálfræðing hefur sá einn sem hlotið hefur til þess leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Öðrum er óheimilt að nota starfsheiti sem er til þess fallið að gefa í skyn að þeir hafi hlotið löggildingu sem sálfræðingar, sbr. 1. gr. laganna. Um sérfræðileyfi sálfræðinga gildir reglugerð nr. 158/1990.
    11. Sjóntækjafræðingar. Um sjóntækjafræðinga gilda lög um sjóntækjafræðinga, nr. 17/ 1984, með síðari breytingum. Rétt til að kalla sig sjóntækjafræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn sem fengið hefur leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Sjóntækjafræðingar mæla sjón og fullvinna og selja sjónhjálpartæki (gleraugu og snertilinsur). Óheimilt er að ráða til hvers konar sjóntækjafræðistarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögunum, sbr. 6. gr. laganna. Sett hefur verið reglugerð nr. 1043/2004, um menntun sjóntækjafræðinga og takmarkanir á heimild þeirra til sjónmælinga hjá tilgreindum hópum.
    12. Sjúkraliðar. Um sjúkraliða gilda lög um sjúkraliða, nr. 58/1984, með síðari breytingum. Rétt til að starfa sem sjúkraliði og kalla sig sjúkraliða hefur sá einn sem fengið hefur leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Óheimilt er að ráða til sjúkraliðastarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 3. gr. laganna. Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þó getur sjúkraliði borið ábyrgð á störfum sínum gagnvart öðrum sérfræðingi sem hlotið hefur viðurkenningu enda hafi hjúkrunarfræðingur ekki fengist til starfa. Slík skipan má þó ekki standa lengur en í eitt ár, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Sett hefur verið reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða, nr. 897/2001.
    13. Sjúkraþjálfarar. Um sjúkraþjálfara gilda lög nr. 58/1976, um sjúkraþjálfun, með síðari breytingum. Rétt til að starfa sem sjúkraþjálfari og kalla sig sjúkraþjálfara hefur sá einn sem hefur fengið leyfi, sbr. 1. gr. laganna. Sjúkraþjálfari starfar við hæfingu og endurhæfingu sjúkra og heilbrigðra sem fólgin er í þjálfun, fræðslu og kennslu, sbr. 4. gr. laganna. Sjúkraþjálfari má ekki taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni, sbr. 5. gr. laganna. Óheimilt er að ráða til hvers konar sjúkraþjálfarastarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 6. gr. laganna. Sjúkraþjálfara er heimilt að hafa sér til aðstoðar fólk sem ávallt skal starfa á ábyrgð og undir handleiðslu hans, sbr. 7. gr. laganna. Sett hefur verið reglugerð, nr. 145/2003, um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun.
    14. Þroskaþjálfar. Um þroskaþjálfa gilda lög um þroskaþjálfa, nr. 18/1978. Rétt til að starfa sem þroskaþjálfi og kalla sig þroskaþjálfa hefur sá einn sem hefur fengið leyfi landlæknis, sbr. 1. gr. laganna. Þroskaþjálfar starfa við þjálfun, uppeldi og umönnun þroskaheftra, sbr. 3. gr. laganna og óheimilt er að ráða til þroskaþjálfastarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 4. gr. laganna. Sett hefur verið reglugerð um störf, starfsvettvang og starfshætti þroskaþjálfa, nr. 215/1987.
    Um aðrar löggiltar heilbrigðisstéttir gilda reglugerðir sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Lögin leystu af hólmi eldri lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, nr. 64/1971. Samkvæmt lögum um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta hafa þeir einir rétt til að nota starfsheiti sem fellur undir lögin sem hlotið hafa löggildingu landlæknis, sbr. 3. gr. laganna. Þær stéttir sem fallið geta undir lögin starfa við heilbrigðisstofnanir, kennslustofnanir heilbrigðisstétta eða matvælastofnanir. Þær starfa ýmist á eigin ábyrgð eða undir handleiðslu og á ábyrgð læknis eða annars sérfræðings á viðkomandi sviði, sbr. 4. gr. laganna. Lögin gera ráð fyrir að óheimilt sé að ráða til þeirra starfa sem undir lögin heyra aðra en þá sem hlotið hafa starfsleyfi landlæknis, sbr. 5. gr. laganna.
    Á grundvelli laganna um starfsheiti og starfsheiti heilbrigðisstétta (og eldri laga um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir) hafa verið settar reglugerðir um 19 heilbrigðisstéttir og eru þær stéttir þar með löggiltar. Flestar þessara reglugerða voru settar á árunum 1986–1991. Síðan varð langt hlé á því að nýjar heilbrigðisstéttir væru löggiltar. Á árinu 2005 og 2006 voru tvær nýjar heilbrigðisstéttir löggiltar, þ.e. osteópatar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar, og árið 2007 fengu stoðtækjafræðingar löggildingu. Frá árinu 1991 hafa því einvörðungu þrjár nýjar heilbrigðisstéttir verið löggiltar.
    Heilbrigðisstéttir löggiltar með sérstökum reglugerðum eru:
    1. Lyfjatæknar. Um lyfjatækna gildir reglugerð um starfsréttindi og starfssvið lyfjatækna, nr. 199/1983. Starfssvið lyfjatækna eru störf við lyfjaafgreiðslu og lyfjagerð undir handleiðslu og á ábyrgð lyfjafræðings, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða til lyfjatæknistarfa aðra en þá sem hafa starfsréttindi, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.
    2. Geislafræðingar. Um geislafræðinga gildir reglugerð um geislafræðinga, nr. 185/2001. Geislafræðingur framkvæmir geislarannsóknir, geislameðferð og aðrar rannsóknir á fólki með myndgerðartækni samkvæmt fyrirmælum og í samráði við lækni, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða til geislafræðingsstarfa aðra en geislafræðinga og röntgenhjúkrunarfræðinga, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar og ákvæði til bráðabirgða. Geislafræðingar hétu áður röntgentæknar.
    3. Sjúkraflutningamenn. Um sjúkraflutningamenn gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna, nr. 504/1986. Sjúkraflutningamenn stunda skipulagða sjúkraflutninga. Þeir starfa á eigin ábyrgð, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.
    4. Næringarfræðingar. Um næringarfræðinga gildir nú reglugerð um starfsheiti og starfsréttindi næringarfræðinga, nr. 50/2007, sem leysti af hólmi eldri reglugerð frá árinu 1987. Næringarfræðingar starfa að næringarfræði við heilbrigðisstofnanir, kennslu-, rannsókna- og matvælastofnanir og víðar skv. 4. gr. reglugerðarinnar.
    5. Næringarráðgjafar. Um næringarráðgjafa gildir nú reglugerð um starfsheiti og starfsréttindi næringarráðgjafa, nr. 51/2007, sem leysti af hólmi eldri reglugerð frá árinu 1987. Næringarráðgjafarstarfa að næringarráðgjöf á heilbrigðisstofnunum, kennslu-, rannsókna-, matvælastofnunum og víðar, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.
    6. Læknaritarar. Um læknaritara gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur læknaritara, nr. 161/1987. Starfsvettvangur læknaritara er á heilbrigðisstofnunum og stofnunum hins opinbera er fara með stjórnunarmál á heilbrigðissviði. Þeir annast ritun, skýrslugerð og umsjón með öllum gögnum er varða sjúklinga og meðferð þeirra svo og annarra aðila er til heilbrigðisstofnana leita, samkvæmt nánari fyrirmælum lækna og undir handleiðslu og ábyrgð þeirra, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.
    7. Sjúkranuddarar. Um sjúkranuddara gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara, nr. 204/1987. Starfsvettvangur sjúkranuddara er á heilbrigðisstofnunum og eigin stofum. Með sjúkranuddi er átt við nudd í lækningaskyni samkvæmt tilvísun og á ábyrgð læknis, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Öðrum en sjúkranuddurum er óheimilt að starfa sem sjúkranuddarar, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Sjúkranuddara er skylt að halda dagbók um þá er leita til hans og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar.
    8. Matvælafræðingar. Um matvælafræðinga gildir reglugerð um starfsheiti og starfsréttindi matvælafræðinga, nr. 432/1987. Matvælafræðingar skulu starfa samkvæmt lögum og reglugerðum um matvæli og aðrar neysluvörur. Starfssvið matvælafræðinga er á heilbrigðisstofnunum, kennslustofnunum heilbrigðisstétta og matvælastofnunum. Matvælafræðingar starfa á eigin ábyrgð, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða sem matvælafræðinga aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.
    9. Talmeinafræðingar. Um talmeinafræðinga gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur talmeinafræðinga, nr. 618/1987. Starfssvið talmeinafræðinga er við greiningu, meðhöndlun og rannsóknir talmeina. Starfsvettvangur talmeinafræðinga er á heilbrigðisstofnunum, í skólum og eigin stofum. Þeir starfa á eigin ábyrgð en þó eingöngu samkvæmt tilvísun og í samráði við lækni sé um að ræða meðferð í lækninga-, rannsókna- eða endurhæfingarskyni, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Talmeinafræðingum er heimilt að hafa sér til aðstoðar fólk, sem ávallt skal starfa á ábyrgð og undir handleiðslu hans, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða sem talmeinafræðinga aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Talmeinafræðingi er skylt að halda skýrslur um þá er leita til hans í samræmi við fyrirmæli landlæknis, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar.
    10. Tannfræðingar. Um tannfræðinga gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur tannfræðinga, nr. 638/1987. Starfsvettvangur tannfræðinga er á heilbrigðisstofnunum, tannlæknastofnum og uppeldis- og kennslustofnunum. Tannfræðingar starfa undir handleiðslu og á ábyrgð tannlækna. Tannfræðingar starfa að fræðslu, ráðgjöf, skipulagningu og framkvæmd tannverndar. Auk þess starfa tannfræðingar að þeim verklegu störfum sem tannlæknar fela þeim og þeir hafa hlotið menntun til, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Tannfræðingi er skylt að halda sjúkraskýrslu um þá er leita til hans og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar.
    11. Matartæknar. Um matartækna gildir reglugerð um matartækna, nr. 27/1989. Matartæknar annast matreiðslu í heilbrigðisstofnunum undir stjórn og á ábyrgð matarfræðinga (nú næringarrekstrarfræðinga), sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða til matartæknistarfa aðra en þá sem hlotið hafa starfsréttindi, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.
    12. Hnykkjar. Um hnykki gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hnykkja, nr. 60/1990. Starfsvettvangur hnykkis er á heilbrigðisstofnunum og eigin stofum. Með hnykkingum er átt við meðferð á stoðkerfi líkamans. Ekki má hnykkir taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Hnykki er heimilt að hafa sér til aðstoðar starfsfólk sem ávallt skal starfa á ábyrgð hans, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Hnykki er skylt að halda dagbók um þá er leita til hans og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar.
    13. Tanntæknar. Tanntæknar hétu áður aðstoðarmenn tannlækna, sbr. reglugerð um menntun, réttindi og skyldur aðstoðarmanna tannlækna, nr. 258/1990. Þessi reglugerð var felld úr gildi með reglugerð um menntun, réttindi og skyldur tanntækna, nr. 259/1998. Með hinni nýju reglugerð er heiti stéttarinnar breytt í tanntækna. Starfsvettvangur tanntækna er á tannlæknastofum, heilbrigðisstofnunum, uppeldis- og fræðslustofnunum. Þeir annast móttöku sjúklinga, aðstoða tannlækna við klínísk störf, sjá um hreinsun áhalda og tækja, annast bókanir og bókhald vegna sjúklinga og tannverndarstörf. Þeir starfa samkvæmt fyrirmælum tannlækna og undir handleiðslu og á ábyrgð þeirra, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða sem tanntækna aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.
    14. Fótaaðgerðafræðingar. Um fótaaðgerðafræðinga gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur fótaaðgerðafræðinga, nr. 184/1991. Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að starfsvettvangur fótaaðgerðafræðinga er á heilbrigðisstofnunum og á eigin stofum. Þar er fótaaðgerð skilgreind sem meðhöndlun fótameina, t.d. að fjarlægja harða húð og líkþorn, klippa og hreinsa neglur, þynna óeðlilegar þykkar neglur, sérsmíða spangir á niðurgrónar neglur og veita fræðslu og faglega ráðgjöf. Þar kemur og fram að fótaaðgerðafræðingar mega ekki án samráðs við lækni taka til meðferðar einstakling með augljós sjúkdómseinkenni, svo sem sýkingu í fótum, sykursýki, hjarta-, blóð- eða æðasjúkdóma. Fótaaðgerðafræðingi er heimilt að hafa starfsfólk sér til aðstoðar við annað en meðhöndlun fótameina og fræðslu og skal það ávallt starfa á ábyrgð hans, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Fótaaðgerðafræðingum er skylt að halda dagbækur um þá sem leita til þeirra og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar.
    15. Náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu. Um náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu gildir reglugerð um menntun, réttindi og skyldur náttúrufræðinga, sem starfa á sérhæfðum rannsóknarstofum heilbrigðisstofnana, nr. 272/1991. Náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu starfa á sérhæfðum rannsóknastofum heilbrigðisstofnana. Þeir sjá um þjónustu- og/eða grunnrannsóknir á sínu sérsviði, annast úrvinnslu gagna, fræðslu og þjálfun, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða í störf náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu aðra en þá sem hafa starfsleyfi, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.
    16. Næringarrekstrarfræðingar. Um næringarrekstrarfræðinga gildir nú reglugerð nr. 873/ 2006, um menntun, réttindi og skyldur næringarrekstrarfræðinga á heilbrigðisstofnunum, sem felldi úr gildi reglugerð um menntun réttindi og skyldur matarfræðinga, nr. 372/1993. Starfssvið næringarrekstrarfræðinga er stjórnun og rekstur stóreldhúsa á heilbrigðisstofnunum. Næringarrekstrarfræðingar veita næringarráðgjöf til hópa fólks, hanna matseðla út frá næringarráðleggingum og annast verklega kennslu nema í næringarrekstrarfræði og matartækni skv. 3. gr. reglugerðarinnar. Óheimilt er að ráða sem næringarrekstrarfræðing á heilbrigðisstofnanir aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.
    17. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar fengu löggildingu með reglugerð um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa, nr. 974/2006. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar stunda ráðgjöf á sviði áfengismála á ábyrgð lækna eða annarra háskólamenntaðra starfsmanna, sem fagráð telur hæfa og eru í starfi sínu háðir eftirliti landlæknis, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.
    18. Osteópatar. Osteópatar fengu löggildingu með reglugerð um menntun, réttindi og skyldur osteópata, nr. 229/2005. Starfsvettvangur osteópata er á heilbrigðisstofnunum og á eigin stofum. Starfssvið osteópata er meðhöndlun á stoðkerfi líkamans. Osteópati má ekki taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni skv. 4. gr. reglugerðarinnar.
    19. Stoðtækjafræðingar. Stoðtækjafræðingar fengu löggildingu með reglugerð um menntun, réttindi og skyldur stoðtækjafræðinga, nr. 460/2007. Starf stoðtækjafræðinga felst í smíði, ábyrgð á smíði, viðhaldi og eftirliti stoðtækja. Með stoðtæki er átt við „vélrænan og/eða tæknilegan búnað, sem er liður í meðferð sjúkdóma eða aðlögunar útlima og sem festir eru eða settir á eða við líkama og limi svo sem: a) gervilim sem koma skal algjörlega eða að hluta í stað útlims, b) spelkur eða umbúðir sem koma eiga í staðinn fyrir eða laga skerta getu líkamshluta“. Óheimilt er að ráða sem stoðtækjafræðing annan en þann sem hefur starfsleyfi skv. 2. gr. Stoðtækjafræðingar starfa á eigin ábyrgð en eru í starfi sínu háðir faglegu eftirliti landlæknis. Stoðtækjafræðingum er heimilt að ráða aðstoðarfólk, enda starfi það undir handleiðslu og á ábyrgð hans, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.
    Um útgáfu starfsleyfa til ríkisborgara á Evrópska efnahagssvæðinu gildir reglugerð nr. 244/1994, um staðfestingu starfsleyfa nokkurra heilbrigðisstétta o.fl. samkvæmt ákvæðum EES-samningsins, með síðari breytingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er lýst meginmarkmiði laganna, þ.e. að tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar og öryggi sjúklinga.
    Í 2. mgr. er gildissvið laganna afmarkað þannig að það taki til réttinda og skyldna löggiltra heilbrigðisstétta og annarra starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni eftir því sem við á. Um skyldur framangreindra aðila er að öðru leyti vísað til laga um réttindi sjúklinga og annarra laga eftir því sem við á.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. eru skilgreind hugtökin heilbrigðisstarfsmaður, löggilt heilbrigðisstétt, heilbrigðisstofnun, heilbrigðisþjónusta, sjúklingur og meðferð.
    Með heilbrigðisstarfsmanni er átt við einstakling sem starfar sem heilbrigðisstarfsmaður og hefur hlotið leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum á hverjum tíma. Skilgreiningin er samhljóða skilgreiningu í 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, og 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.
    Með löggiltri heilbrigðisstétt er átt við stétt sem fengið hefur löggildingu með sérlögum eða reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða samkvæmt ákvæðum laga þessara.
    Með heilbrigðisstofnun er átt við stofnun, þ.m.t. fyrirtæki eða starfsstofu þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta. Skilgreining á heilbrigðisstofnun er samhljóða skilgreiningu í 8. tölul. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.
    Með heilbrigðisþjónustu er átt við hvers kyns heilsugæslu, lækningar, hjúkrun, almenna og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, sjúkraflutninga, hjálpartækjaþjónustu og þjónustu heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga. Skilgreiningin er samhljóða skilgreiningu sama hugtaks í 1. tölul. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.
    Sjúklingur er skilgreindur sem notandi heilbrigðisþjónustu í samræmi við skilgreiningu á sjúklingi í 2. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Með hugtakinu sjúklingur í lögum þessum og lögum um réttindi sjúklinga er því átt við einstakling, heilbrigðan eða sjúkan, þegar hann notar heilbrigðisþjónustu.
    Hugtakið meðferð er skilgreint sem rannsókn, aðgerð eða önnur heilbrigðisþjónusta sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veitir til að greina, lækna, endurhæfa, hjúkra eða annast sjúkling. Skilgreiningin er samhljóða skilgreiningu á sama hugtaki í 2. gr. laga um réttindi sjúklinga að öðru leyti en því að hér hefur hugtakið heilbrigðisþjónusta verið tekið upp í skilgreininguna í samræmi við ný lög um heilbrigðisþjónustu. Ber samkvæmt þessu að horfa til skilgreiningar á hugtakinu heilbrigðisþjónusta þegar hugtakið meðferð er túlkað samkvæmt lögunum.

Um 3. gr.


    Í greininni eru taldar upp þær 32 heilbrigðisstéttir sem þegar hafa fengið löggildingu. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda við lagafrumvarp þetta.
    Starfsheitið „aðstoðarlyfjafræðingur“ er fellt brott úr upptalningu um tilgreiningu heilbrigðisstétta, enda er ekki lengur boðið upp á þetta nám hjá lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þeir sem fengið hafa starfsleyfi sem aðstoðarlyfjafræðingar halda rétti sínum til að nota starfsheitið og starfa sem slíkir, sbr. ákvæði til bráðabirgða.
    Með brottfalli laga um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, nr. 24/1985, sbr. 32. gr. frumvarps þessa, fellur niður heimild ráðherra til að löggilda nýja heilbrigðisstétt með reglugerð. Ný heilbrigðisstétt verður þá einungis löggilt með lagabreytingu þar sem heiti hinnar nýju heilbrigðisstéttar yrði bætt við upptalningu 3. gr. á löggiltum heilbrigðisstéttum.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um nám og menntunarskilyrði hverrar stéttar er lögin taka til, að fengnum tillögum viðkomandi starfsstétta og umsögn landlæknis.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi.

Um 5. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að setja skuli, með reglugerðum, skýr fyrirmæli um skilyrði sem uppfylla þarf til að mega kalla sig starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi, m.a. um það hvaða náms og eftir atvikum starfsþjálfunar er krafist til að hljóta starfsleyfi í viðkomandi grein á Íslandi. Þar skulu einnig vera ákvæði um starfssvið viðkomandi heilbrigðisstéttar og afmörkun þess. Hver stétt skal sinna þeim störfum sem hún hefur þekkingu og hæfni til og getur starfssvið tveggja eða fleiri heilbrigðisstétta því eftir atvikum skarast. Starfssvið hverrar stéttar skal ákveðið á grundvelli menntunar og hæfni og með tilliti til öryggis sjúklinga. Jafnframt skal kveðið á um hvenær leitað skuli umsagnar kennslustofnunar eða annarra aðila um hvort umsækjandi um starfsleyfi hér á landi uppfylli þau námsskilyrði sem sett eru í viðkomandi grein heilbrigðisfræða. Gert er ráð fyrir að umsagnaraðilar verði einkum viðkomandi kennslustofnun, fagfélag eða sérfræðiráð. Við setningu þessara reglugerða skal gæta skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og Fríverslunarsamtökum Evrópu eða með öðrum alþjóðasamningum.
    Þegar ekki er um að ræða samninga við önnur ríki um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi er hér gert ráð fyrir heimild til að ákveða í reglugerð að umsækjandi um starfsleyfi sanni kunnáttu sína í greininni með því að gangast undir hæfnispróf. Jafnframt verði heimilt að setja með reglugerð skilyrði um íslenskukunnáttu og þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf, enda sé slík kunnátta nauðsynleg í starfinu, einkum vegna öryggis sjúklinga. Er þetta efnislega í samræmi við 3. gr. læknalaga.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að starfsleyfi skuli ekki veitt ef skilyrði sviptingar starfsleyfis, samkvæmt lögum um landlækni, eru fyrir hendi.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að heimilt sé að taka gjald af umsækjendum vegna kostnaðar við hæfnispróf.

Um 6. gr.


    Veiting starfsleyfa heilbrigðisstétta var flutt frá heilbrigðisráðherra til landlæknis með lögum nr. 12/2008, um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis. Hér er því ekki um að ræða efnisbreytingu. Í greininni er kveðið á um að landlæknir veiti heilbrigðisstarfsmönnum leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem slíkir hér á landi að uppfylltum skilyrðum laga og reglugerða.
    Í 2. mgr. er undirstrikað að synjun landlæknis um veitingu starfsleyfis sé kæranleg til ráðherra samkvæmt stjórnsýslulögum, þannig að umsækjandi um starfsleyfi geti kært ákvörðun landlæknis til ráðherra og þannig látið fjalla um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum.

Um 7. gr.


    Hér er kveðið á um að rétt til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hafi einungis þeir sem fengið hafa til þess leyfi landlæknis.

Um 8. gr.


    Það færist sífellt í vöxt að ýmsar starfsstéttir, þar á meðal heilbrigðisstéttir, afli sér framhaldsmenntunar og sérþekkingar á fagsviði sínu víða um lönd. Auknar sérþarfir með vaxandi fólksfjölda, nýjungar í vísindum og tækni, breytt þjóðfélagssýn o.fl. ýta undir slíka þróun. Má þar nefna starfsstéttir eins og lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Í 1. mgr. 8. gr. er kveðið á um að ráðherra geti, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og kennslustofnun, ákveðið með reglugerð hvort löggilda skuli sérfræðigrein innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og þá hvaða sérfræðigreinar. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. skal einkum litið til hagsmuna sjúklinga við ákvörðun um hvort löggilda eigi nýja sérfræðigrein. Hagsmunir sjúklinga eru einkum fólgnir í því að staðfest sé að heilbrigðisstarfsmenn sem þeir leita til hafi nauðsynlega þekkingu og hæfni á tilteknu sérsviði. Með þessu ákvæði er undirstrikað að það eru hagsmunir sjúklinga sem skulu vera ráðandi fremur en hagsmunir stéttarinnar af því að fá að kalla sig sérfræðing.
    Í reglugerð um sérfræðileyfi skal kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að mega kalla sig sérfræðing og í hvaða tilvikum skuli leitað umsagnar kennslustofnunar eða annarra aðila. Mikilvægt er að reglugerðir um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfa hafi að geyma skýrar reglur um námskröfur, kröfur til starfsþjálfunar og reynslu og aðrar kröfur sem taldar eru nauðsynlegar til þess að einstaklingur megi kallað sig sérfræðing. Einnig er mikilvægt að kveðið verði á um samanburð náms sem ekki hefur áður verið viðurkennt við þær námskröfur sem gerðar eru og nám sem viðurkennt hefur verið.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að gætt skuli skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur tekið á sig samkvæmt alþjóðasamningum.

Um 9. gr.


    Hér er kveðið á um að landlæknir veiti umsækjendum leyfi til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar að uppfylltum skilyrðum laganna, reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og á grundvelli skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir samkvæmt alþjóðasamningum, sbr. 29. gr.
    Í 2. mgr. er hnykkt á því að synjun landlæknis um veitingu starfsleyfis sé kæranleg til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um 10. gr.


    Hér er kveðið á um að enginn megi kalla sig löggiltu starfsheiti heilbrigðisstéttar eða starfa sem slíkur nema hann hafi fengið til þess leyfi landlæknis. Með sama hætti má heilbrigðisstarfsmaður í einni löggiltri heilbrigðisstétt ekki kalla sig starfsheiti annarrar löggiltrar heilbrigðisstéttar eða kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur, nema hafa til þess leyfi landlæknis. Við túlkun á því hvenær heilbrigðisstarfsmaður er að starfa sem slíkur og hvenær hann fer inn á lögverndað starfssvið annarrar heilbrigðisstéttar verður að líta til þess að víða er veruleg skörun á starfssviði heilbrigðisstétta og mörkin eru ekki alltaf skýr. Við mat á því hvort heilbrigðisstarfsmaður hefur farið inn á lögverndað starfssvið annarrar stéttar skal litið til hagsmuna sjúklinga af því að heilbrigðisstarfsmaður hafi nauðsynlega faglega þekkingu og hæfni til viðkomandi starfa, fremur en hagsmuna heilbrigðisstéttar af því að útiloka aðrar heilbrigðisstéttir frá því að sinna tilteknum störfum.
    Einungis þeim sem fengið hefur leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar er heimilt nota starfsheiti stéttarinnar. Einungis þeim sem fengið hafa slíkt leyfi er heimilt að taka sjúklinga til meðferðar, vinna önnur störf sem heyra undir lögverndað starfssvið löggiltrar heilbrigðisstéttar, gefa sjúklingum læknisfræðilegar eða faglegar ráðleggingar og afhenda sjúklingum lyf sem einungis er heimilt að selja í lyfjabúðum, í samræmi við ákvæði lyfjalaga.

Um 11. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að landlæknir geti gefið út tímabundið starfsleyfi til heilbrigðisstarfsmanna með erlent nám eða próf sem er viðurkennt samkvæmt alþjóðasamningum, en uppfyllir ekki þær kröfur um nám sem gerðar eru hér á landi til að nota starfsheiti viðkomandi heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi. Er þetta í samræmi við ákvæði tilskipunar 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Þar er heimilt að krefjast þess að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, svo sem að námstími sé a.m.k. einu ári styttri en hér á landi eða að námið sé að inntaki verulega frábrugðið inntaki náms hér á landi og að starfsgreinin sé lögvernduð, að umsækjandi um starfsleyfi ljúki allt að þriggja ára aðlögunartíma eða taki hæfnispróf. Til að umsækjandi geti starfað á aðlögunartíma þarf hann tímabundið starfsleyfi.
    Nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis verða sett í reglugerð.

Um 12. gr.


    Hér vísað til ákvæða laga um landlækni varðandi sviptingu og afsal starfsleyfis, takmörkun starfsleyfis og endurveitingu starfsleyfis.

Um 13. gr.


    Ákvæðið fjallar um faglegar kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisstarfsmanna.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. er efnislega í samræmi við ákvæði 1. mgr. 9. gr. læknalaga og sambærileg ákvæði sérlaga og reglugerða sem gilda um aðrar heilbrigðisstéttir.
    Samkvæmt 3. mgr. ber heilbrigðisstarfsmaður, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga sem til hans leita. Lög um réttindi sjúklinga gilda að öðru leyti um upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanns gagnvart sjúklingi.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að heilbrigðisstarfsmaður skuli virða faglegar takmarkanir sínar og vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns ef ætla má að hann sé faglega hæfari til að veita honum viðeigandi þjónustu. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í læknalögum eða lögum um aðrar heilbrigðisstéttir en telja verður þó að þessi skylda hvíli á heilbrigðisstéttum. Rétt þykir þó að árétta þessa skyldu í lögum. Heilbrigðisstarfsmaður sem virti ekki faglegar takmarkanir sínar eða léti undir höfuð leggjast að vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns þegar það ætti við, gæti þurft að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um landlækni.
    Í 5. mgr. er heimild fyrir ráðherra til að kveða á um endurmenntun heilbrigðisstarfsmanna með reglugerð.

Um 14. gr.


    Ákvæðið er efnislega eins og ákvæði 8. gr. læknalaga.

Um 15. gr.


    Ótvírætt má telja að samkvæmt eðli máls og ákvæðum gildandi laga, m.a. laga um landlækni, sé heilbrigðisstarfsmanni óheimilt að starfa undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Rétt þykir þó að kveða skýrt á um þetta í lögum um heilbrigðisstarfsmenn.
    Í 2. mgr. felst það nýmæli að heilbrigðisstofnunum verði heimilt, að höfðu samráði við landlækni, að setja reglur um bann við notkun heilbrigðisstarfsmanna á áfengi eða öðrum vímuefnum tiltekinn tíma áður en vinna þeirra hefst.

Um 16. gr.


    Í greininni er undirstrikað að heilbrigðisstarfsmaður skuli sjá til þess að aðstoðarmenn og nemar sem starfa undir hans stjórn hafi nægilega hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að geta innt af hendi þau störf sem hann felur þeim.
    Sambærilegt ákvæði hefur um alllangt skeið verið í læknalögum, sbr. 7. gr., og ýmsum sérlögum og reglugerðum um löggiltar heilbrigðisstéttir. Þá eru ákvæði í gildandi lögum eða reglugerðum um að tannlæknar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, talmeinafræðingar, hnykkjar og fótaaðgerðafræðingar geti notið aðstoðar annarra heilbrigðisstarfsmanna og/eða annarra starfsmanna við störf sín. Hér er ákvæðið víkkað og látið ná til allra heilbrigðisstarfsmanna sem eftir atvikum geta haft aðstoðarmann. Þá er gert ráð fyrir að auk heilbrigðisstarfsmanna geti aðrir starfsmenn svo og nemar verið heilbrigðisstarfsmanni til aðstoðar, enda hafi hann gengið úr skugga um að aðstoðarmaðurinn eða neminn sé fær um að vinna verkið undir hans eftirliti og stjórn.
    Í 2. mgr. segir að ráðherra geti, að fenginni umsögn landlæknis, sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis.

Um 17. gr.


    Ákvæðið er að mestu samhljóða 1., 2., 3., 5. og 7. mgr. 15. gr. læknalaga en hún gildir einnig um aðra heilbrigðisstarfsmenn samkvæmt tilvísun í læknalög í sérlögum um heilbrigðisstarfsmenn og lögum um starfsréttindi heilbrigðisstétta. Hér er orðalagi ákvæðis læknalaga breytt þannig að það eigi við um alla sem starfa innan heilbrigðisþjónustunnar hvort sem þeir tilheyra löggiltri heilbrigðisstétt eða ekki. Um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings fer samkvæmt lögum um sjúkraskrár.
    Eins og fram kemur í frumvarpinu gildir þagnarskylda nema lög bjóða annað eða rökstudd ástæða sé til að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar. Dæmi um slík ákvæði er t.d. í IV. kafla barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Í kaflanum er fjallað um tilkynningarskyldu þeirra sem hafa afskipti af börnum og er m.a. fjallað sérstaklega um tilkynningarskyldu lækna, ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. Jafnframt kemur fram í fyrrgreindum kafla að tilkynningarskylda samkvæmt ákvæðinu gangi framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Um 18. gr.


    Í 1. mgr. er vísað til ákvæða laga um landlækni um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að veita landlækni upplýsingar, m.a. vegna eftirlits með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu og til gerðar heilbrigðisskýrslna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sömu aðilum sé skylt að veita ráðuneytinu nauðsynlegar upplýsingar við meðferð og úrlausn stjórnsýslumála. Hér er um að ræða nýmæli í lögum, en þótt telja verði að slík upplýsingaskylda sé fyrir hendi þykir rétt að árétta hana sérstaklega í lögum.
    Í 3. mgr. er fjallað um vitnaskyldu heilbrigðisstarfsmanna og er ákvæðið samhljóða 4. mgr. 15. gr. læknalaga að öðru leyti en því að í stað orðsins læknir kemur heilbrigðisstarfsmaður. Ákvæði 4. mgr. 15. gr. læknalaga gildir einnig um aðra heilbrigðisstarfsmenn samkvæmt tilvísun í læknalög í sérlögum um heilbrigðisstarfsmenn og lögum um starfsréttindi heilbrigðisstétta. Hér er því ekki um efnisbreytingu að ræða.

Um 19. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 11. gr. læknalaga en rýmkað til að ná til allra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á. Ekki þarf að hafa mörg orð um nauðsyn þess að hvers konar gögn á sviði heilbrigðisþjónustunnar séu skýr og greinargóð og að ekki þurfi að velkjast í vafa um innihald þeirra og merkingu.
    Ákvæði 2. mgr. fjallar um skyldu til að láta í té vottorð um sjúkling vegna viðskipta hans við hið opinbera og er efnislega samhljóða 12. gr. læknalaga.
    Gert er ráð fyrir heimild ráðherra til útgáfu reglugerðar þar sem setja megi nánari fyrirmæli um útgáfu vottorða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna. Slík reglugerðarheimild er nú í 2. mgr. 11. gr. læknalaga, sjá reglugerð nr. 586/1991.

Um 20. gr.


    Hér vísað til ákvæða lyfjalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim um heimild til kaupa í heildsölu á tilteknum nauðsynlegum lyfjum til reksturs starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns.

Um 21. gr.


    Hér er hnykkt á skyldu heilbrigðisstarfsmanns til að færa sjúkraskrá, en að öðru leyti er vísað til ákvæða laga um sjúkraskrár og stjórnvaldsákvæða samkvæmt þeim.

Um 22. gr.


    Ákvæði þetta er í samræmi við 13. gr. læknalaga, nr. 53/1988, en samkvæmt almennri tilvísun í flestum sérlögum um heilbrigðisstéttir og lögum um starfsréttindi heilbrigðisstétta gildir sama um aðrar heilbrigðisstéttir eftir því sem við á. Hér er því lagt til að ákvæði 13. gr. læknalaga verði umorðað þannig að það taki til allra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á með tilliti til menntunar og þjálfunar hvers og eins. Heilbrigðisstarfsmanni ber samkvæmt ákvæðinu að veita fyrstu nauðsynlega aðstoð í skyndilegum og alvarlegum sjúkdóms- eða slysatilfellum nema alvarleg forföll hamli.

Um 23. gr.


    Hér er að finna nýmæli. Í ákvæðinu felst almenn hvatning og ábending til heilbrigðisstarfsmanna um að gæta hófs í hvívetna, velja ódýrari lyf og kostnaðarminni meðferð þegar þess er kostur, senda sjúklinga ekki í fleiri rannsóknir en þörf krefur og sóa hvorki tíma sjálfs sín né sjúklingsins að óþörfu. Hér er því um að ræða stefnumarkandi ákvæði þar sem brýnt er fyrir heilbrigðisstarfsmönnum að þeim beri fyrir sitt leyti að stuðla að sparsemi og nýtni innan heilbrigðisþjónustunnar og sjúkratryggingakerfisins og draga með því móti úr óhóflegum kostnaði og óeðlilegri þenslu.

Um 24. gr.


    Hér er kveðið á um þær kröfur sem gera skal til upplýsinga um þjónustu heilbrigðisstarfsmanna. Ákvæði þetta kemur í stað ákvæðis um auglýsingar í lögum um tannlækningar og læknalögum, en ákvæði síðarnefndu laganna gildir um flestar aðrar heilbrigðisstéttir samkvæmt tilvísun í lögum eða reglugerðum um viðkomandi heilbrigðisstéttir. Ráðherra verði heimilt að setja nánari ákvæði um veitingu upplýsinga með reglugerð.

Um 25. gr.


    Hér er áréttuð skylda heilbrigðisstarfsmanna og þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu utan ríkisstofnana til að hafa vátryggingu samkvæmt ákvæðum laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000.

Um 26. gr.


    Samkvæmt 26. gr. læknalaga er læknum óheimilt að reka lækningastofu eftir 75 ára aldur. Hér lagt til að aldursmörkin verði færð niður í 70 ár og ákvæðið rýmkað þannig að það taki til allra heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu. Opinberir starfsmenn hætta að jafnaði störfum þegar þeir verða sjötugir og þykir rétt að miða við þá almennu reglu. Þá er lagt til að í stað ákvæðis 2. málsl. 26. gr. læknalaga um að landlæknir geti veitt undanþágu frá 75 ára aldurshámarki til eins árs í senn komi heimild til að framlengja leyfi heilbrigðisstarfsmanns til að reka eigin starfsstofu um tvö ár í senn þó aldrei oftar en þrisvar. Heilbrigðisstarfsmanni væri þá í reynd óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir 76 ára aldur.

Um 27. gr.


    Nauðsynlegt þykir að unnt verði að binda heimildir til að beita ákveðnum meðferðar- eða rannsóknaraðferðum við tiltekna heilbrigðisstarfsmenn eða heilbrigðisstéttir og leggja bann við tilteknum meðferðum með reglugerð, enda sé það talið mikilvægt til að vernda hagsmuni sjúklinga. Hér er því gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að nánar tilgreindum rannsóknar- eða meðferðaraðferðum skuli eingöngu beitt af heilbrigðisstarfsmönnum eða nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum eða sérfræðingum og að tilteknar meðferðar- eða rannsóknaraðferðir skuli aðeins notaðar af þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem til þess hafa fengið sérstakt leyfi landlæknis. Þá getur ráðherra lagt bann við notkun tiltekinnar meðferðar- eða rannsóknaraðferðar. Reglugerðir skv. 1. mgr. skulu settar að fengnum tillögum landlæknis og umsögn viðkomandi fagfélags.

Um 28. gr.


    Í greininni er kveðið á um viðurlög ef brotið er gegn ákvæðum laganna eða reglna sem settar eru á grundvelli þeirra. Er lagt til að refsirammi laganna verði sektir eða fangelsi allt að þremur árum, en sami refsirammi gildir m.a. um brot á lögum um meðferð persónuupplýsinga.

Um 29. gr.


    Á grundvelli gagnkvæmra samninga, m.a. við Evrópusambandið, er landlækni heimilt að gefa út starfsleyfi á grundvelli viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005, og á grundvelli stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Enn fremur er landlækni heimilt að staðfesta starfsleyfi á grundvelli Norðurlandasamnings um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir.
    Hér er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja nánari ákvæði í reglugerð um skilyrði til að öðlast starfsleyfi á grundvelli alþjóðlegra samninga. Þar yrði m.a. kveðið á um skilyrði til þess að fá starfsleyfi á grundvelli náms í viðkomandi grein utan Íslands og um samanburð slíks náms við þær námskröfur sem gerðar eru. Við setningu þessara reglugerða skal gæta þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu og Fríverslunarsamningi Evrópu eða með öðrum alþjóðasamningum. Í þeim reglugerðum skal jafnframt kveða á um málsmeðferð þar sem gert er grein fyrir kæruleiðum, málshraða, rökstuðningi þegar um synjanir er að ræða og fleira eftir því sem við á.

Um 30. gr.


    Ákvæðið felur í sér heimild fyrir ráðherra að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laganna.

Um 31. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 32. gr.


    Hér eru talin upp þau lög um heilbrigðisstéttir sem falla brott við gildistöku laga þessara.

Um 33. gr.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um breytingar á öðrum lögum sem hafa að geyma tilvísun til læknalaga.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Um aðstoðarlyfjafræðinga gilda lög um lyfjafræðinga, nr. 35/1978. Með breytingu á námi lyfjafræðinga úr cand. pharm. gráðu í B.S. gráðu og meistaragráðu hjá lyfjafræðideild Háskóla Íslands verður ekki boðið upp á nám sem lýkur með aðstoðarlyfjafræðingsprófi. Hér er gert ráð fyrir að þau starfsleyfi sem gefin hafa verið út haldi gildi sínu.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn.


    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði rammalöggjöf um réttindi og skyldur heilbrigðisstétta. Löggiltar heilbrigðisstéttir eru nú 32 talsins og gilda sérlög um 14 þeirra en 19 stéttir hafa verið löggiltar með reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Þau lög sem hér eru til umfjöllunar taka við af gildandi lögum og reglugerðum á þessu sviði án þess að breytingar verði á stjórnsýslulegri umgjörð við mat og úrskurði. Verði frumvarpið að lögum verða nýjar heilbrigðisstéttir framvegis ekki löggiltar nema með breytingu á lögunum. Megintilgangurinn með rammalöggjöfinni er að samræma og einfalda gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn, gera þau markvissari og hnitmiðaðri en áður og færa þau til nútímahorfs þannig að heilbrigðisþjónustan og störf og starfsvið heilbrigðisstétta geti þróast með eðlilegum hætti innan ramma löggjafar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.