Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 145  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnar Þór Másson og Hafstein Þór Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti, Gunnar Þ. Andersen og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Svein Arason frá Ríkisendurskoðun, Markús Möller frá Seðlabanka Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Hrafn Magnússon og Arnar Sigurmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Almar Guðmundsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Pál Harðarson frá Kauphöll Íslands, Nasdaq OMX Nordic, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Jakob Bjarnason, Björk Þórarinsdóttur og Þórð Pálsson frá Nýja Kaupþingi, Gunnar Viðar, Árna Þór Þorbjörnsson og Jón Þór Guðmundsson frá NBI, Tómas Sigurðsson og Vilhelm Má Þorsteinsson frá Íslandsbanka, Jón Gunnar Jónsson bankamann, Einar Guðbjartsson dósent við Háskóla Íslands og Mats Josefsson.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Jóni Gunnari Jónssyni, Mats Josefsson, ríkisskattstjóra, Samkeppniseftirlitinu, Fjármálaeftirlitinu, Ríkisendurskoðun, Félagi löggiltra endurskoðenda, Byggðastofnun, Landssamtökum lífeyrissjóða, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Seðlabanka Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu og Neytendasamtökunum.

Endurflutt frumvarp.
    Frumvarp þetta er nú endurflutt. Eins og fram kemur í áliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar frá síðasta þingi (þskj. 903, 411. mál) voru hugmyndir um stofnun miðlægs eignasýslufélags kynntar í áfangaskýrslu samræmingarnefndar sem taldi að um mikilvæga aðgerð væri að ræða í endurreisn íslenska bankakerfisins.
    Í frumvarpinu hefur verið tekið mið af breytingartillögum sem 1. minni hluti lagði til og koma þær helstu fram í e-lið 2. gr., lokamálslið 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr., lokamálslið 1. mgr. 6. gr., 2. mgr. 7. gr. og c-lið 8. gr. frumvarpsins. Einnig hefur verið aukið við ákvæði sem heimilar félaginu að aðstoða fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja, sbr. a-lið 2. gr., sbr. og 1. mgr. 1. gr. Hagsmunaaðilar sem komu á fund nefndarinnar töldu almennt að þessar breytingar sem gerðar hefðu verið frá síðasta þingi væru til bóta.
    Fulltrúar fjármálaráðuneytisins sem kynntu frumvarpið fyrir nefndinni tóku fram að það byggðist á grunni laga nr. 125/2008 og að starfsemi miðlægs eignaumsýslufélags kynni að reynast vel í ákveðnum tilvikum þegar um væri að ræða endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja og þegar vinna við hana væri umfangsmikil og erfið viðfangs fyrir hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Gengið væri út frá þeirri forsendu að nýju bankarnir þrír mundu í flestum tilvikum hafa burði til að leysa úr skuldavanda fyrirtækja sem væru í viðskiptum við þá.
    Fulltrúar nýju bankanna sem komu á fund nefndarinnar tóku fram að bankarnir hefðu sett sér umfangsmiklar og gagnsæjar verklagsreglur við lausn á skuldavanda fyrirtækja.

Fundur með Mats Josefsson.
    Mats Josefsson, fyrrverandi formaður samræmingarnefndar, kom á fund efnahags- og skattanefndar til að veita umsögn um frumvarpið. Þar lýsti hann þeirri skoðun sinni að við núverandi efnahagsaðstæður þar sem fjöldi atvinnufyrirtækja á í skuldaerfiðleikum væri geta og færni hinna nýstofnuðu banka til að annast endurskipulagningu þeirra takmörkunum háð. Eignaumsýslufélaginu væri ætlað að ráða til sín hóp reyndra sérfræðinga, sem í fyrstu yrðu fengnir erlendis frá, til að leysa þennan vanda. Miklu skipti fyrir atvinnulífið að koma efnahagsreikningum nýju bankanna í lag og jafnframt að fyrirtækjum yrði tryggð sanngjörn skuldameðferð sem byggðist á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðum þar sem jafnræði milli þeirra og gagnvart kröfuhöfum yrði tryggt.
    Josefsson taldi eðlilegt að heimild félagsins til íhlutunar tæki til fjármálafyrirtækja sem væru í eigu ríkisins eða hefðu þegið fjárframlag frá ríkinu í kjölfar efnahagshrunsins og jafnframt lagði hann áherslu á að vinna við endurskipulagningu færi fram innan þeirra sjálfra í stað þess að lánskröfur eða eignarhlutir í hlutaðeigandi atvinnufyrirtækjum færðust yfir til félagsins. Félaginu yrði þó, ef nauðsyn bæri til, að vera heimilt að fá slíkar eignir framseldar til sín.
    Að fenginni reynslu annarra Norðurlanda af fjármálakreppum taldi Josefsson ekki fært að skilgreina starfsemi félagsins nákvæmlega í lögum heldur þyrfti að eftirláta fjármálaráðherra svigrúm í þeim efnum. Benti hann m.a. á að tilvísun frumvarpsins til þjóðhagslega mikilvægs atvinnufyrirtækis væri loðin og óljós og gaf nefndinni þau ráð að fella hana brott.
    Framangreindar athugasemdir hafa gefið meiri hluta nefndarinnar tilefni til breytinga á frumvarpinu, bæði að því er varðar efni þess og uppsetningu. Í eftirfarandi umfjöllun verður gerð grein fyrir umræðum sem fram hafa farið innan nefndarinnar umfram það sem að framan er lýst. Vegna umfangs breytingartillagna sem meiri hlutinn leggur til er sá kostur valinn að fjalla um þær heildstætt.

Úrlausn á skuldavanda rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.
    Innan nefndarinnar var við umfjöllun málsins lögð áhersla á mikilvægi þess að aðferð við skuldameðferð atvinnufyrirtækja byggðist á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðum þannig að gætt væri jafnræðis milli fyrirtækja og gagnvart kröfuhöfum þeirra. Meðferðina ætti ekki að einskorða við þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki þótt leiða megi líkum að því að starfssvið félagsins verði nánar afmarkað í reglugerð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Meiri hlutinn leggur til að ráðherra gefi aðilum vinnumarkaðarins kost á að gefa álit sitt áður en hún verður sett.
    Meiri hlutinn leggur til að gildissvið frumvarpsins og þar af leiðandi heimildir félagsins taki til fjármálafyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu ríkisins og þeirra sem þegið hafa fjárframlag frá ríkinu í kjölfar bankahrunsins, sbr. 2. gr. laga nr. 125/2008. Þar sem ríkið er eigandi nýju bankanna telur meiri hlutinn að faglegt traust eigi og verði að ríkja í samstarfi þeirra við félagið. Sama eigi við þegar verkefni félagsins beinast að fjármálafyrirtækjum sem ríkið hefur lagt til fjármuni á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis.
    Nefndin ræddi einstök úrræði til lausnar skuldavanda fyrirtækjanna, t.d. greiðslufresti, umbreytingu lánaskulda í hlutafé eða aðrar skilmálabreytingar. Meiri hlutinn telur ekki raunhæft að mælt sé fyrir um það í lögum hvernig beitingu þeirra skuli háttað í einstökum tilvikum. Meiri hlutinn leggur samt sem áður ríka áherslu á að úrræðin komi að gagni við að fyrirbyggja að verðmæt og rekstrarhæf fyrirtæki fari forgörðum í meira mæli en orðið hefur vegna hrunsins. Innan nefndarinnar hafa jafnframt komið fram sjónarmið um að þeir sem misst hafa fyrirtæki þrátt fyrir skynsamlegan rekstur fái tækifæri til að eignast þau aftur.
    Með „rekstrarhæfum atvinnufyrirtækjum“ í 1. mgr. 1. tölul. breytingartillagnanna á meiri hlutinn við þau fyrirtæki sem skila framlegð eða eru líkleg til þess eftir endurskipulagningu.

Framsal eigna til félagsins og skuldbindingar ríkisins.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að félagið hafi heimild til þess að kaupa eignarhluta í atvinnufyrirtækjum ef nauðsyn ber til og einkum vegna mikils umfangs endurskipulagningar. Aðeins í undantekningartilvikum er gert ráð fyrir að félagið þurfi að kaupa veðkröfur í fyrirtækjum og er það skýrt með hliðsjón af aðferðafræði við uppgjör nýju og gömlu bankanna.
    Á fundum nefndarinnar var rætt hvernig staðið yrði að framsali eigna til félagsins og hvers konar greiðsla kæmi fyrir af þess hálfu. Eins og áður sagði lagði Josefsson áherslu á að félagið ætti ekki að kaupa lánskröfur eða eignarhluta í fyrirtækjum nema nauðsyn bæri til. Erfitt væri að leggja mat á verðmæti eigna nú um stundir, væri kaupverð of hátt yrði litið svo á að félagið væri að umbuna eigendum, væri kaupverð of lágt væri félagið að mismuna. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið eins og fram kemur í c-lið 3. tölul. breytingartillagnanna sem tekur bæði til lánskrafna og eignarhluta í fyrirtækjum.
    Færð voru rök fyrir því að greiðsla félagsins vegna kaupa á eignum yrði innt af hendi í formi skuldabréfs sem tæki mið af sannvirði þeirra. Mikilvægt væri að félagið tryggði sig gegn áhættu samfara lækkun eignaverðs enda þótt ekki væri við því að búast að það yrði rekið með hrein hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi.
    Nefndin ræddi áhættu ríkissjóðs vegna félagsins. Fram komu tvenns konar sjónarmið, annars vegar það að félagið væri opinbert hlutafélag og þar af leiðandi bæri eigandi þess, ríkið, aðeins takmarkaða áhættu. Hins vegar voru leidd að því rök að ríkið mundi „de facto“ bera áhættu vegna starfa þess.
    Fram komu sjónarmið um að stofnfé félagsins væri verulega vanáætlað samkvæmt frumvarpinu en við meðferð málsins upplýsti fjármálaráðuneyti að endanlegt mat á fjárþörf þess mundi ekki liggja fyrir fyrr en efnahagsreikningar nýju bankanna hefðu verið stofnaðir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þriggja manna nefnd annist mat á heildarupphæð stofnfjár og árlegri fjárþörf félagsins, sbr. 2. mgr. 7. gr. Meiri hlutinn leggur til að greinin falli brott og að hluthafafundi verði heimilað að auka við hlutafé félagsins að fenginni heimild í fjárlögum, sbr. breytingartillögu í 2. mgr. 2. tölul.
    Meiri hlutinn sér ekki ástæðu til að fallast á, að svo stöddu, að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að færa eignarhald á félaginu til annars félags í eigu ríkissjóðs eins og gert er í 4. gr. frumvarpsins. Ekki liggi fyrir hvaða félag um sé að ræða en ábendingar komu fram um að tilvist þess tengdist eigendastefnu fyrir ríkið sem unnið væri að í fjármálaráðuneyti.
    
Vægi samkeppnissjónarmiða í starfsemi félagsins.
    Nefndin ræddi vægi samkeppnissjónarmiða í starfsemi félagsins, einkum í ljósi umsagnar Samkeppniseftirlitsins um þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til og óskað var eftir með skömmum fyrirvara við vinnslu þeirra. Í umsögninni taldi eftirlitið að tillögudrögin kynnu að fara í bága við markmið samkeppnislaga og að gefin fyrirheit um að samræma úrlausnir fjármálafyrirtækja við skuldavanda atvinnufyrirtækja drægju verulega úr þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins og áliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar við fyrra frumvarp.
    Meiri hlutinn vill af þessu tilefni ítreka það sem áður hefur komið fram um mikilvægi þess að félagið gæti hlutlægni, gagnsæis og jafnræðis við meðferð rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja í skuldavanda. Meiri hlutinn fær ekki séð að sjónarmiðum um virka samkeppni verði beitt fullum fetum til lausnar á skuldavanda hlutaðeigandi fyrirtækja og hafnar því að láta hæfni þeirra til samningagerðar alfarið skilja á milli feigs og ófeigs. Meiri hlutinn hefur þó skilning á áhyggjum Samkeppniseftirlitsins eins og undirstrikað er í 1. tölul. breytingartillagnanna.
    Meiri hlutinn tekur undir það sem fram kemur í áliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar við fyrra frumvarp um mikilvægi þess að félagið ráðstafi eignarhlutum í fyrirtækjum eins skjótt og markaðsaðstæður leyfa og jafnframt að teknu tilliti til sjónarmiða um virka samkeppni og dreifða eignaraðild. Undirstrikað hafi verið á fundum nefndarinnar mikilvægi þess að heimila aðkomu áhugasamra fjárfesta að söluferlinu, einkum einstaklinga og lífeyrissjóða.
    Meiri hlutinn telur að gæta þurfi fleiri sjónarmiða við söluferlið en þeirra sem að framan er getið, sbr. c-lið 3. tölul. breytingartillagnanna. Ber að skoða þau í ljósi líftíma félagsins en skv. 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að hann verði fimm ár frá stofnun. Meiri hlutinn telur æskilegra að félagið ljúki störfum fyrir tilgreindan dag og leggur til að það verði 31. desember 2015.
    
Hæfi stjórnar, framkvæmdastjóra og annarra sem starfa á þess vegum.
    Samkvæmt frumvarpinu er kosning stjórnar á valdi fjármálaráðherra sem fer með eignarhlut ríkisins í því. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra, sem síðan ræður aðra starfsmenn. Nefndin ræddi ýmsar leiðir varðandi það hvernig best væri að tryggja faglega ráðningu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og fjarlægð þeirra frá pólitískum áhrifum.
    Meiri hlutinn leggur til að staða framkvæmdastjóra skuli auglýst. Enn fremur að stjórn, framkvæmdastjóri og aðrir sem starfa í þess þágu upplýsi um hvert það atriði sem er til þess fallið að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að ráðherra gefi þinginu skýrslu þar sem m.a. komi fram hvernig gengið hafi verið úr skugga um almenn og sérstök hæfisskilyrða þessara aðila og hagsmunatengsl.
    Meiri hlutinn var sammála um mikilvægi þess að bæði stjórn og framkvæmdastjóri verði skipuð hæfum einstaklingum sem hafa til að bera víðtæka þekkingu á verksviði félagsins. Innan nefndarinnar voru þó nokkuð skiptar skoðanir um hvort ástæða væri til að binda hendur fjármálaráðherra við val stjórnarmanna umfram það sem gert væri í frumvarpinu, t.d. með því að koma á fót sérstakri tilnefningarnefnd.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórn félagsins hafi mikilvægu hlutverki að gegna við skilgreiningu á því hvað teljist þjóðhagslega mikilvægt atvinnufyrirtæki en þar sem lagt hefur verið til að þetta skilyrði falli brott er ekki þörf á að fjalla um það frekar.

Gagnsæi í störfum félagsins og valdheimildir.
    Nefndin ræddi hvernig haga beri upplýsingagjöf um starfsemi félagsins með hliðsjón af lögbundinni þagnarskyldu sem starfsmenn fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitsins hafa. Einnig fjallaði nefndin um hvernig hátta skyldi aðgangi félagsins að upplýsingum fjármálafyrirtækja.
    Meiri hlutinn er sammála um mikilvægi þess að tryggja beri gagnsæi í störfum félagsins og eftir ítarlegar umræður leggur hann til að Ríkisendurskoðun annist fjárhagsendurskoðun félagsins og að stjórn félagsins verði heimilað að ráða innri endurskoðanda eða endurskoðunarfélag, sbr. breytingartillögu í b-lið 6. tölul. Þar er enn fremur lagt til að félagið gefi efnahags- og skattanefnd Alþingis að lágmarki tvisvar á ári skýrslu um starfsemi þess og að fjármálaráðherra gefi þingheimi ítarlega skýrslu um starfsemina með sama millibili.
    Loks bendir meiri hlutinn á að félagið er opinbert hlutafélag í skilningi hlutafélagalaga, nr. 2/1995, sbr. og breytingalög nr. 90/2006.
    Félaginu er ætlað að starfa í formi opinbers hlutafélags og samkvæmt því má fyrir fram gera ráð fyrir að starfsemi þess falli ekki undir ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Meiri hlutinn telur samt sem áður nokkurn vafa leika á því hvort reynt geti á meðferð opinbers valds í störfum þess þar sem því er m.a. ætlað að hlutast til um lánamál sem samið hefur verið um á frjálsum markaði. Telur meiri hlutinn að umræddir lagabálkar eigi ekki að gilda um starfsemi félagsins þar sem beiting þeirra gæti tafið fyrir störfum þess. Félaginu er eins og áður hefur komið fram ætlað að greiða fyrir skjótri úrlausn á skuldavanda rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja í samstarfi við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki.
    Í a-lið 6. tölul. breytingartillagna meiri hlutans er gert ráð fyrir að félagið hafi aðgang að upplýsingum fjármálafyrirtækja, sem hann leggur til að frumvarpið taki til og eru á starfssviði félagsins. Ákvæðinu er ætlað að styrkja lagalegan grundvöll að starfi félagsins og að teknu tilliti til þess að upplýsingarnar geta varðað viðkvæm málefni aðila.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þór Saari skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 16. júní 2009.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Lilja Mósesdóttir.



Magnús Orri Schram.


Pétur H. Blöndal.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Þór Saari,


með fyrirvara.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.