Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 116. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Prentað upp.

Þskj. 147  —  116. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson,


Jónína Rós Guðmundsdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Siv Friðleifsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn ráðgjafarstofu fyrirtækja. Markmið ráðgjafarstofunnar verði að aðstoða fyrirtæki sem eiga í greiðsluörðugleikum við endurskipulagningu rekstrar eða við að hætta rekstri.

Greinargerð.


    Óveður ríkir nú í íslensku og alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Gjaldþrot Glitnis, Landsbankans og Kaupþings hafa orsakað geysilega erfiðleika hjá bæði íslenska ríkinu og í atvinnulífinu. Ljóst má vera að fjölmörg fyrirtæki eiga í miklum greiðsluerfiðleikum og eiga á hættu að verða gjaldþrota eða hætta rekstri á næstu missirum. Árið 2008 urðu 748 fyrirtæki gjaldþrota og er gert ráð fyrir mikilli fjölgun gjaldþrota á þessu ári. Nýjustu tölur sýna 63% aukningu í apríl á þessu ári frá apríl í fyrra. Sérfræðingar virðast sammála um að fjöldi þeirra sem eiga núna í miklum erfiðleikum eða muni lenda í örðugleikum á næstu vikum og mánuðum verði margfaldur á við venjulegt árferði. Því er mikilvægt að setja upp stuðningskerfi sem allra fyrst fyrir þessi fyrirtæki ef atvinnulífið á að eiga sér viðreisnar von og forða almenningi frá fjöldaatvinnuleysi og félagslegum afleiðingum þess.
    Ráðgjafarstofa fyrir fyrirtæki í greiðsluörðugleikum mundi gegna svipuðu hlutverki og ráðgjafarstofa fyrir heimili. Hún mundi aðstoða eigendur og stjórnendur fyrirtækja við að yfirfara reksturinn, semja við lánardrottna og ráðleggja um áframhaldandi rekstur eður ei. Hugmyndin er ekki ný af nálinni, og á við hvort sem stormar geisa í efnahagslífinu eða þegar vel gengur. Evrópusambandið setti fram þess háttar hugmyndir í verkefninu Restructuring, Bankruptcy and a Fresh Start árið 2002. Ef samfélög telja það þess virði að einstaklingar hefji rekstur fyrirtækja, þá þarf að vera til stuðningskerfi til að takast á við rekstrarörðugleika og gjaldþrot fyrirtækja. Dæmi um stuðning landa við fyrirtæki í rekstrarörðugleikum er Schuldenhelpline, sem er hjálparsími og vefsíða fyrir einstaklinga og lítil fyrirtæki í Þýskalandi, Entreprise Prévention í Frakklandi og Startvækst vefsíðan í Danmörku. Þannig er mest áhersla lögð á að aðstoða einstaklinga (einyrkja) og lítil fyrirtæki, þar sem meiri líkur eru á að stærri fyrirtæki geti nálgast nauðsynlega aðstoð og þekkingu til að vinna sig út úr rekstrarörðugleikum eða hætta rekstri.
    Mikilvægt er að ráðgjafarstofa starfi náið með öðru stuðningskerfi við atvinnulífið og dómskerfinu. Tilvalið væri að ráðgjafarstofan starfaði með Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem þegar styður markvisst við frumkvöðla, lítil og meðalstór fyrirtæki. Stofan mundi leiða samvinnu endurskoðenda, fjármálastofnana, lögfræðinga, skiptastjóra, dómstóla, Ábyrgðasjóðs launa og ríkisskattstjóra til að hjálpa rekstraraðilum að komast út úr erfiðleikunum eða taka ákvörðun um rekstrarstöðvun. Stjórnendum yrði kennt hver viðvörunarmerkin væru, utanaðkomandi ráðgjöf gæti komið að eins fljótt og hægt er, og skýrar upplýsingar yrðu aðgengilegar um leiðir út úr erfiðleikum, svo sem um endurskipulagningu rekstrar, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti. Nauðsynlegt er að bjóða upp á þjónustuna bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, og mundi stuðningsnet Nýsköpunarmiðstöðvar um land allt henta vel.
    Samfélagslegar afleiðingar af gjaldþroti fyrirtækja eru margvíslegar. Eigendur geta misst allt sitt, starfsmenn missa atvinnuna og lánardrottnar tapa fjármunum. Álag á starfsmenn og eigendur getur verið geysilega mikið og jafnvel leitt til varanlegs heilsuskaða. Því skiptir miklu að ríkið grípi strax til aðgerða til að lágmarka skaðann bæði fyrir einstaklinga og samfélagið, enda ætti stuðningskerfi fyrirtækja í greiðsluörðugleikum að vera jafn mikilvægur þáttur í að byggja og viðhalda stöðugu atvinnulífi og sá stuðningur sem veittur er fyrirtækjum í upphafi rekstrar. Í þeim tilgangi er þessi tillaga flutt.