Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 148  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja kemur nú fram í annað skipti frá ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á síðasta löggjafarþingi vegna andstöðu flestra umsagnaraðila og stjórnarandstöðu þar sem við fyrstu sýn virtist vera um ríkisvæðingu atvinnulífsins að ræða.
    Frumvarpið hefur tekið miklum breytingum frá síðasta löggjafarþingi og er sumt þar sem til framfara horfir. Ágæt samvinna hefur verið um málið innan efnahags- og skattanefndar en í ljósi þess hversu miklar breytingar meiri hlutinn leggur til við frumvarpið má færa fyrir því gild rök að eðlilegt sé að senda málið aftur út til umsagnar. Svo mikilvægt mál sem þetta þarf að fá vandaða efnismeðferð þannig að yfir vafa sé hafið að ekki séu mistök falin í lagasetningunni. Enn eru miklar efasemdir um frumvarpið hjá aðilum sem gegna lykilhlutverki í endurreisn íslensks efnahagslífs í samvinnu við stjórnvöld. Má þar nefna Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og stjórnendur ríkisbankanna þriggja. Því er mikilvægt að á milli 2. og 3. umræðu fjalli nefndin aftur efnislega um málið í samráði við helstu hagsmunaaðila. Það hlýtur að vera keppikefli stjórnvalda á tímum sem þessum að eiga sem víðtækast samráð, m.a. við aðila vinnumarkaðarins, og að sem mest sátt ríki um þær aðgerðir sem frá stjórnvöldum koma.
    Á tímum gjaldeyrishafta og þegar ríkið fer með eignarhald fjármálafyrirtækja sem eru með um 90% markaðshlutdeild þarf að tryggja að viðskiptalíf og stjórnmál blandist ekki um of. Sagan kennir Íslendingum að slík tengsl eru vægast sagt varhugaverð og ekki er svo ýkja langt síðan almenningur fékk húsnæðislán á grundvelli flokksskírteinis og það sama má segja um innflutning á atvinnutækjum. Gjaldeyrishöft voru sett á í kjölfar kreppunnar miklu, það tók þjóðina hálfa öld að vinna sig út úr þeim gjaldeyrishöftum. Það nauðsynlegt að Ísland vinni sig sem allra fyrst út úr höftum á gjaldeyri og að frjálsræði komist á að nýju í rekstri fjármálastofnana.
    Í þessu ljósi er varhugavert að gera ráð fyrir að einungis einn ráðherra skipi stjórn hins nýja eignaumsýslufélags. Ekki eru dregin í efa heilindi þess fjármálaráðherra sem nú starfar en það er ekki við hæfi að Alþingi setji lög á grundvelli persónu fjármálaráðherrans. Það að ráðherrann einn komi að skipun á stjórn félagsins, sem er falið mjög vítt valdsvið samkvæmt frumvarpinu, felur í sér hættu á því að pólitískir samherjar verði skipaðir í stjórn félagsins. Alþingi Íslendinga á ekki að samþykkja löggjöf sem felur þessa hættu í sér. Þess vegna er mikilvægt að fleiri en einn aðili komi að skipan stjórnar félagsins. Minni hlutinn telur einnig rétt að a.m.k. þrír af fimm stjórnarmönnum hafi íslenskan ríkisborgararétt og búsetu hér á landi og annar af varamönnum í stjórn enda mikilsvert að einstaklingar með þekkingu á íslenskum aðstæðum og lagaumhverfi eigi hlut að máli, til þess m.a. að koma í veg fyrir að ókunnugleiki valdi töfum og/eða mistökum í endurskipulagningarferlinu.
    Mikilvægt er að við endurskipulagningu fyrirtækja sé faglegra vinnubragða gætt í hvívetna til að draga megi úr óhjákvæmilegri gagnrýni sem upp hlýtur að koma frá samkeppnisaðilum á markaði og starfsmönnum fyrirtækjanna sjálfra. Að sama skapi tekur minni hlutinn undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að reglur um sölu á eignarhlutum ríkisins í hlutafélögum verði lögfestar fremur en að byggja í því efni á reglugerð. Skýrt þarf að liggja fyrir hvernig félagið mun standa að sölu eignarhluta í atvinnufyrirtækjum.
    Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur í efnahagsmálum á undanförnum mánuðum. Því miður hafa stjórnarflokkarnir ekki gert þær tillögur að sínum og í raun má segja að þörfin á róttækum aðgerðum í efnahagsmálum hafi aldrei verið eins knýjandi og í dag. Tækifæri Íslands til að sigla út úr ólgusjó kreppunnar eru einnig mikil en núverandi stjórn hefur hins vegar ekki séð til lands í þeim efnum. Verði ráðist í tillögur Framsóknarflokksins má færa fyrir því gild rök að Íslendingar verði fyrstir þjóða komnir í uppbyggingarstarf á ný. Reyndar hangir fleira á spýtunni en aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja. Ógnvænlegt er ef Alþingi Íslendinga ætlar að staðfesta Icesave-ríkisábyrgðina án þess að hafa kynnt sér til hlítar hvað slíkt þýði fyrir íslenskt samfélag til lengri tíma litið.
    Frekari skuldsetningu ríkisins þarf því hindra með öllum tiltækum ráðum. Eins og fram kemur í umsögn Viðskiptaráðs Íslands um frumvarp þetta segir í skýrslu OECD, Corporate Governance of State-Owned Enterprises, A Survey of OECD Countries frá árinu 2005, að félög af þeim toga sem kveðið er á um í frumvarpi þessu hafi leitt til óhóflegrar skuldsetningar og séu hvorki skilvirk þegar kemur að endurskipulagningu rekstrar né fjármálastjórn. Að mati minni hlutans þarf því að koma í veg fyrir að eignaumsýslufélagið verði áhættusamur þáttur í hinni erfiðu fjárhagslegu stöðu sem vinna þarf úr á næstu árum.
    Við þær aðstæður sem nú eru í íslensku efnahagslífi, þar sem undantekningartilfelli geta orðið að venjum, er mikilvægt að vandað sé til verka. Kallað er á nýjar og auknar kröfur á hendur stjórnendum opinberra fyrirtækja. Því væri rétt að mati minni hlutans að koma á fót sérstakri tilnefningarnefnd sem hefði það hlutverk að finna tilvonandi stjórnarmenn og meta hæfi þeirra. Niðurstöður nefndarinnar yrðu að því búnu lagðar fyrir ráðherra. Í tilnefningarnefnd ættu sæti fulltrúi ráðherra og fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, eftirlitsstofnunum og háskólasamfélaginu.
    Þá telur minni hlutinn að brýnt sé að ríkið setji sér skýra eigendastefnu gagnvart eignaumsýslufélaginu. Eftirfarandi málaflokkar þurfa að vera skýrt afmarkaðir: markmið eignarhaldsins, skuldbindingar ríkisins í dag og í framtíðinni, rammi um starfsemina sem slíka, hverjar séu helstu skyldur og hlutverk stjórnarinnar, hvernig upplýsingaflæðinu eigi að vera háttað og í hvaða tilvikum ríkið megi beita eigendarétti sínum umfram aðalfundi.
    Í ljósi framangreinds telur minni hlutinn það ekki forsvaranlegt að samþykkja frumvarpið í núverandi horfi.

Alþingi, 16. júní 2009.



Birkir Jón Jónsson.