Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 73. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 156  —  73. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar um framhaldsskólanám nemenda með fötlun eða þroskahömlun.

     1.      Hefur öllum nemendum með fötlun eða þroskahömlun, sem útskrifast úr grunnskóla í vor, verið tryggt lögbundið framhaldsskólanám í haust?
    Forinnritun nemenda með fötlun lauk 15. maí 2009 en almennri innritun í framhaldsskóla lauk á miðnætti 11. júní. Tilgangurinn með því að nemendur með fötlun geti sótt fyrr um er að fá upplýsingar um fjölda umsækjenda og óskir þeirra svo að auðveldara verði að veita þeim skólavist við hæfi. Vinnur menntamálaráðuneytið úr umsóknum fatlaðra í samstarfi við framhaldsskóla. Nemendur með fötlun hafa forgang umfram aðra nýnema við innritun. Með því á að vera tryggt að þeir eigi kost á lögbundnu framhaldsskólanámi í haust og mun menntamálaráðuneytið fylgja því eftir að svo verði.

     2.      Hversu mörgum nemendum með fötlun eða þroskahömlun, sem sótt hafa um framhaldsskólanám frá 1989, hefur verið neitað um skólavist í viðkomandi skólum?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um umsóknir og skólavist nemenda með fötlun í framhaldsskólum aftur til 1989. Árið 1998 voru fyrstu starfsbrautirnar fyrir nemendur með fötlun stofnaðar í framhaldsskólum og frá þeim tíma hefur engum nemanda verið neitað um skólavist á slíkum brautum.