Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 157  —  79. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar um ríkisjarðir.

     1.      Hversu margar jarðir í eigu ríkisins eru nýtanlegar til ábúðar?
    Ráðuneytið heldur upplýsingar um ríkisjarðir á forræði þess. Langflestar jarðirnar eru lögbýli, en auk þess eru jarðir, spildur og lóðir sem ekki eru lögbýli.
    Í 2. gr. jarðalaga segir að lögbýli sé „sérhver jörð sem hefur þann húsakost og það landrými eða aðstöðu að unnt sé að stunda þar landbúnað eða aðra atvinnustarfsemi“. Haldin er skrá um lögbýli í landinu.
    Samkvæmt lögbýlaskrá sem Hagþjónusta landbúnaðarins tók saman í desember 2007 eru 354 lögbýli skráð á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, inni í þeirri tölu eru lögbýli sem eru í umsjá ýmissa stofnana. Í sömu skrá eru 48 lögbýli skráð á forræði annarra ráðuneyta.
    Heldur vandast málið þegar kemur að svari við því hvort lögbýlin séu „nýtanleg til ábúðar“. Við athugun þess er eðlilegt að vísa til svofelldra skilgreininga á hugtökunum ábúð og landbúnaður í 2. gr. jarðalaga, nr. 81/2004.
    „ Ábúð merkir í lögum þessum afnotarétt af jörðum eða jarðahlutum til búrekstrar eða annars atvinnurekstrar á sviði landbúnaðar með réttindum og skyldum samkvæmt ábúðarlögum.
     Landbúnaður merkir í lögum þessum hvers konar vörslu, verndun, nýtingu og ræktun búfjár, ferskvatnsdýra, lands og auðlinda þess til atvinnu- og verðmætasköpunar, matvælaframleiðslu og þjónustu er tengist slíkri starfsemi.“
    Hér segir að ábúð merki afnotarétt til búrekstrar eða annars atvinnurekstrar á sviði landbúnaðar. Álykta má af þessu að búrekstur, með venjulegum hætti, sé ein grein landbúnaðar. Þetta öðlast frekari staðfestingu í hinni víðtæku skilgreiningu landbúnaðar en undir hana má mögulega fella mikinn hluta þeirrar atvinnustarfsemi sem fram getur farið á landi í dreifbýli. Eins og kunnugt er átti sér stað byggðaröskun á síðustu öld og m.a. þess vegna er yfirleitt ekki raunhæft að auglýsa eyðijarðir í eigu ríkisins til ábúðar. Einnig má í þessu sambandi benda á lélegar samgöngur og þjónustuleysi á afskekktum stöðum.

     2.      Hversu margar jarðir í eigu ríkisins eru í ábúð?
    Lögbýli á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins skráð í ábúð eru 155 talsins. Ekki er haldin skrá yfir búrekstur ábúenda eða hvort einhver þeirra hafi landbúnað að aðalatvinnu eður ei, en lögbýli er skráð úr ábúð og í eyði, ef það hefur ekki verið setið í fimm ár eða lengur, sbr. 2. gr. jarðalaga, nr. 81/2004.
    Lögbýli skráð í eyði samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. jarðalaga eru leigð eigendum eða ábúendum nágrannajarða til nytja, einnig heyra hér undir býli sem eru á forræði undirstofnana til uppgræðslu, skógræktar og annarra verkefna. Margar eyðijarðir í eigu ríkisins nýtast almenningi í landinu til útivistar.

     3.      Hversu margar jarðir í eigu ríkisins eru lausar til ábúðar og hvaða jarðir eru það?
    Á þessu ári hefur engin jörð á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins verið auglýst laus til ábúðar.

     4.      Hver er stefna ráðherra varðandi lausar jarðir til ábúðar?
    Aðeins er fyrirhugað að auglýsa til sölu á frjálsum markaði eina jörð á forræði ráðuneytisins í ár. Stefna ráðherra er að setja ríkisjarðir sem losna fremur í ábúð/leigu en að selja þær. Ráðherra hyggst almennt ekki selja eyðijarðir í eigu ríkisins, í því sambandi er vilji til að tryggja almenningi útivistarmöguleika í eyðibyggðum í eigu ríkisins. Jafnframt verður þeirri stefnu fylgt að fjölga ekki frístundalóðum á ríkisjörðum nema í undantekningartilvikum.