Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 58. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 171  —  58. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um verðmat Deloitte/Oliver Wyman á eignasöfnum nýju bankanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert er verðmat (verðbil) Deloitte/Oliver Wyman á fasteignalánum bankanna til heimila sem hlutfall af höfuðstól?
     2.      Hvert er verðmat (verðbil) Deloitte/Oliver Wyman á lánum til fyrirtækja sem hlutfall af höfuðstól?
     3.      Hvernig hefur verðmat á eignum bankanna breyst síðan í október 2008? Hefur það lækkað og þá hversu mikið?


    Viðskiptaráðuneytið á ekki beina aðkomu að þeim samningum sem gerðir hafa verið við Deloitte og Oliver Wyman. Þær upplýsingar sem kann að vera að finna í gögnum frá þessum aðilum eru því ekki tiltækar í ráðuneytinu.
    Til þess að bregðast við fyrirspurninni ritaði ráðuneytið Fjármálaeftirlitinu erindi og óskaði eftir því að það tæki saman svör við spurningum þeim sem lagðar eru fram í fyrirspurninni.
    Er svar Fjármálaeftirlitsins eftirfarandi:
    Rétt er að taka fram að stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir ríkri þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Að því er varðar 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar bendir Fjármálaeftirlitið á að efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd Alþingis stendur til boða að fá lesaðgang að I. hluta verðmatsskýrslu Deloitte, eins og fram kom á sameiginlegum fundi nefndanna, sem Fjármálaeftirlitið var viðstatt í júní 2009, að því gefnu að skaðleysisyfirlýsing Deloitte yrði undirrituð. Auk þess gerir Fjármálaeftirlitið kröfu um að viðkomandi staðfesti trúnað, m.a. með vísan til 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Áskilnað um undirritun skaðleysisyfirlýsingar er að finna í samningi um verðmat nýju bankanna, dags. 24. desember 2008, milli Deloitte og Fjármálaeftirlitsins. Í samningnum er kveðið á um að afurðir samningsins séu trúnaðarmál á milli samningsaðila en veita mætti utanaðkomandi aðilum aðgang að niðurstöðum verðmatsins uppfylli þeir skilyrði sem tilgreind eru í samningnum er lúta að skaðleysi og að það sé ekki í andstöðu við íslensk lög, m.a. er lúta að þagnarskyldu.
    Varðandi 3. tölul. fyrirspurnarinnar bendir Fjármálaeftirlitið á Yfirlit yfir mat á eignum og skuldum nýju bankanna sem var birt þann 24. apríl 2009 á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar er tekið saman yfirlit yfir helstu forsendur og aðferðir sem unnið var eftir við verðmat á eignum og skuldum nýju bankanna, en þar kemur m.a. eftirfarandi fram: „Niðurstöður: Vegna þeirra neikvæðu efnahagshorfa sem gert er ráð fyrir við matsgerðina, er matið á gangvirði lægra en bókfært heildarvirði þessara eigna bankanna fyrir flutning þeirra. Á sama hátt leiðir það af ofangreindri skilgreiningu á gangvirði að ýmsar kringumstæður sem leiða myndu til enn lægra mats falla utan við svið greiningar Deloitte.“