Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 134. máls.

Þskj. 187  —  134. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf.,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Í stað 2. og 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Í stað tíu gjalddaga skulu gjalddagar einstaklinga vera 1. ágúst, 1. október og 1. desember. Gjalddagi lögaðila er 1. nóvember. Dragist framlagning álagningarskrár fram yfir 1. ágúst eða 1. nóvember færast gjalddagar til um einn mánuð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um síðustu áramót lauk innheimtu afnotagjalds fyrir útvarpsafnot, sbr. ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf. Um leið var tekið upp útvarpsgjald sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda í júlí ár hvert. Með lögum nr. 174/ 2008, er tóku gildi 1. janúar sl., var m.a. ákveðið að gjalddagi útvarpsgjalds yrði einn, sbr. d-lið 1. gr. laganna. Í ljósi breyttra efnahagsaðstæðna og í þágu greiðenda gjaldsins þykir rétt að endurskoða þessa tilhögun. Með frumvarpi þessu er lagt til að gjalddagar vegna einstaklinga verði þrír í stað eins, þ.e. 1. ágúst, 1. október og 1. desember. Gjalddagi lögaðila verður á hinn bóginn 1. nóvember. Þá er tekið fram að dragist framlagning álagningarskrár fram yfir fyrsta gjalddaga einstaklinga eða lögaðila færist gjalddagar til um einn mánuð. Í stað þess að þurfa að greiða gjald þetta í einu lagi í ágúst, svo sem fer um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, er einstaklingum skapað það hagræði að greiðsla gjaldsins dreifist á þrjá gjalddaga.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 6/2007,
um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að gjalddögum útvarpsgjalds fjölgi úr einum í þrjá hjá einstaklingum en hjá lögaðilum verði einn gjalddagi. Gert er ráð fyrir að gjalddagarnir hjá einstaklingum verði 1. ágúst, 1. október og 1. desember en 1. nóvember hjá lögaðilum. Markmiðið með þessari breytingu er skapa fjárhagslegt hagræði fyrir einstaklinga með dreifingu á greiðslu útvarpsgjaldsins. Þessi breyting felur í sér auknum innheimtukostnað með fleiri innheimtuseðlum sem þarf að senda út. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um 9 m.kr. með auknum fjölda útsendra innheimtuseðla. Þessi viðbótarútgjöld munu falla til hjá Fjársýslu ríkisins sem heyrir undir fjármálaráðuneytið. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum 2009.