Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 115. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 213  —  115. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um mat nýju bankanna á eignasafni þeirra.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert er verðmat (verðbil) Íslandsbanka á:
                  a.      verðtryggðum fasteignalánum bankans til heimila sem hlutfall af höfuðstól,
                  b.      gengistryggðum fasteignalánum bankans til heimila sem hlutfall af höfuðstól,
                  c.      verðtryggðum lánum til fyrirtækja sem hlutfall af höfuðstól,
                  d.      gengistryggðum lánum til fyrirtækja sem hlutfall af höfuðstól?
     2.      Hvert er verðmat (verðbil) NBI á:
                  a.      verðtryggðum fasteignalánum bankans til heimila sem hlutfall af höfuðstól,
                  b.      gengistryggðum fasteignalánum bankans til heimila sem hlutfall af höfuðstól,
                  c.      verðtryggðum lánum til fyrirtækja sem hlutfall af höfuðstól,
                  d.      gengistryggðum lánum til fyrirtækja sem hlutfall af höfuðstól?
     3.      Hvert er verðmat (verðbil) Nýja Kaupþings banka á:
                  a.      verðtryggðum fasteignalánum bankans til heimila sem hlutfall af höfuðstól,
                  b.      gengistryggðum fasteignalánum bankans til heimila sem hlutfall af höfuðstól,
                  c.      verðtryggðum lánum til fyrirtækja sem hlutfall af höfuðstól,
                  d.      gengistryggðum lánum til fyrirtækja sem hlutfall af höfuðstól?

    Réttur alþingismanna til þess að óska eftir upplýsingum með því að beina fyrirspurn til ráðherra takmarkast skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 49. gr. þingskapalaga, við opinber málefni. Nýju bankarnir eru hlutafélög í eigu ríkisins sem teljast til einkaréttarlegra aðila og njóta lögbundinnar verndar um viðskiptalegar upplýsingar. Um ríkishlutafélög gilda almennt sömu reglur og um önnur hlutafélög og takmarkast réttur alþingismanna til að krefja ráðherra upplýsinga um slík félög við það hvort upplýsingarnar eigi að vera opinberar samkvæmt lögum. Opinberar upplýsingar um rekstur viðkomandi félaga eru m.a. birtar í ársskýrslum þeirra.
    Í þessu sambandi má m.a. horfa til þeirra sjónarmiða sem fram koma í upplýsingalögum, nr. 50/1996, um upplýsingaskyldu stjórnvalda, en lögin taka ekki til starfsemi einkaaðila nema að því leyti sem hún lýtur að því að taka ákvarðanir, í skjóli stjórnsýsluvalds, um rétt eða skyldu manna.
    Að mati fjármálaráðuneytisins lúta þær upplýsingar sem óskað er eftir í fyrirspurninni ekki að málefnum sem talist geta opinber í fyrrgreindum skilningi. Þá verður að líta til þess að nýju bankarnir starfa í samkeppni sín á milli og við önnur fyrirtæki á fjármálamarkaði og því gæti það skaðað hagsmuni félaganna verði upplýsingar af því tagi sem spurt er um gerðar opinberar. Ekki er unnt að svara fyrirspurninni efnislega af framangreindum ástæðum.
    Þrátt fyrir þau almennu viðhorf ráðuneytisins sem að framan er lýst er það afstaða þess að almennt beri að veita almenningi og þeim sem mál varða sem mestar og gleggstar upplýsingar um starfsemi ríkisins og félaga í ríkiseigu. Hefur forsvarsmönnum nýju bankanna verið kynnt efni þessa svars og athygli þeirra vakin á því að mikilvægt sé að tryggt verði sem allra mest gagnsæi í starfsemi þeirra,og að bankarnir leggi sig fram um að veita greinargóðar upplýsingar um starfsemi sína. Munu slíkar áherslur koma fram í eigendastefnu stjórnvalda sem tekur til starfsemi fjármálastofnana í ríkiseigu. Eigandastefna mun koma fram á næstu dögum og er hún mikilvægur liður í að tryggja framgang þeirrar áætlunar sem unnið er eftir og miðar að endurreisn og endurfjármögnun bankanna, sem m.a. byggir á þeim áformum sem fram koma í frumvarpi til laga um Bankasýslu ríkisins. Alþingi hefur það frumvarp nú til meðferðar.