Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 231  —  2. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur, Glóey Finnsdóttur og Kristínu Rannveigu Snorradóttur frá umhverfisráðuneyti, Gunnlaugu Einarsdóttur frá Umhverfisstofnun, Björn Lárus Örvar og Einar Mäntylä frá ORF líftækni hf., Gunnar Á. Gunnarsson frá kynningarátaki um erfðabreyttar lífverur og Vottunarstofunni Túni, Dominique P. Jónsson frá kynningarátaki um erfðabreyttar lífverur og Slow Food Reykjavik Convivium. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Skógrækt ríkisins, Dominique Jónsson, kynningarátaki um erfðabreyttar lífverur, ORF Líftækni ehf., Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskólanum á Akureyri, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Félagi umhverfisfræðinga á Íslandi, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum atvinnulífsins, formanni ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur og verkfræði- og náttúruvísindasviði, líf- og umhverfisvísindadeild, heilbrigðisvísindasviði og hugvísindasviði Háskóla Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/ EBE. Frestur Íslands til að innleiða tilskipunina í íslenska löggjöf rann út 28. mars 2008.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur sem snúa einna helst að því að kveða ítarlegar á um málsmeðferðarreglur þegar sótt er um leyfi til að markaðssetja, sleppa eða dreifa erfðabreyttum lífverum. Kveðið er m.a. á um að leyfisbeiðandi skuli láta fara fram mat á umhverfisáhættu þegar hann sækir um leyfi til að sleppa eða dreifa erfðabreyttri lífveru auk þess sem nýjum ákvæðum er að meginstefnu ætlað að tryggja að almenningur hafi meiri aðgang að upplýsingum og ákvarðanatöku en verið hefur þegar erfðabreyttar lífverur eru annars vegar. Þá er lagt til að við lögin bætist gjaldskrárheimild. Í gildandi lögum er Umhverfisstofnun nú þegar heimilt að krefja umsækjanda um endurgreiðslu kostnaðar vegna sérstakra rannsókna eða úttekta sem gera þarf vegna umsóknar enda hafi umsækjanda verið tilkynnt um kostnaðinn og hann haft tækifæri að draga umsókn sína til baka áður en til hans stofnast. Við þetta bætist nú heimild til að krefjast endurgreiðslu kostnaðar vegna kynningar sem fer fram á umsókn.
    Nefndin fagnar framkomnu frumvarpi enda telur hún mikilvægt að almenningur hafi aðgang að upplýsingum og ákvarðanatöku varðandi mál sem fjalla um sleppingu, dreifingu eða markaðssetningu erfðabreyttra lífvera.
    Í lögum um erfðabreyttar lífverur er að finna skilgreiningu á hugtakinu „slepping og dreifing“ og er lögð til breyting á þessu hugtaki í frumvarpinu. Í frumvarpstextanum er þó víðast hvar eingöngu notað orðið „slepping“ sem hefur ekki sjálfstæða orðskýringu. Nefndin vekur athygli á því að í lögunum sjálfum eru þessi orð ávallt notuð saman til samræmis við orðskýringu og leggur því til þá breytingu að eins verði farið með þetta í frumvarpinu. Þá leggur nefndin til breytingu á skilgreiningu hugtaksins „slepping og dreifing“ enda nauðsynlegt að merking hugtaksins sé skýr í lögum. Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að hugtakið ætti ekki einungis við sleppingu og dreifingu erfðabreyttrar lífveru heldur einnig starfsemi með lífveruna utan húss. Það mundi því falla undir hugtakið að rækta eða ala slíka lífveru utan húss. Tekur nefndin undir þessi sjónarmið. Þá telur nefndin ekki nægjanlegt að kveða á um að beitt sé tálmunum til að hindra áhrif frá lífverunum enda geta slíkar tálmanir verið af mismunandi toga. Tillaga nefndarinnar lítur að því að undir hugtakið falli það að hleypa, sleppa, dreifa, rækta og ala erfðabreyttar lífverur utan húss án þess að loka þær af með veggjum.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að ákaflega mikilvægt væri að umsagnir frá ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur væru unnar á faglegan hátt. Nefndin tekur undir þetta og áréttar að varast þurfi að ráðgjafarnefndin sé skipuð fólki sem á hagsmuna að gæta. Stjórnsýslureglur um hæfi eiga við en nefndin telur rétt að lagatextinn sé skýrari og afdráttarlausari hvað þetta varðar. Leggur nefndin því til breytingu á 5. gr. frumvarpsins þess efnis að ráðherra beri að eiga samráð við sérfræðistofnanir í náttúrufræði og siðfræði auk þess sem skýrt verði kveðið á um að forðast skuli tengsl við hagsmunaaðila.
    Vakin var athygli nefndarinnar á því að gengið væri lengra en í tilskipuninni hvað varðar kynningu á útdrætti og/eða matsskýrslu umsóknar um markaðssetningu erfðabreyttra lífvera annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í tilskipuninni er kveðið á um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli gera þessar upplýsingar aðgengilegar fyrir almenning en ákvæði frumvarpsins skyldar Umhverfisstofnun til að kynna upplýsingarnar. Nefndin telur líkur á því að kynning sú sem mælt er fyrir um geti reynst stofnuninni kostnaðarsöm og þar sem gengið er lengra en nauðsynlegt er leggur nefndin til þá breytingu að kveðið sé á um að upplýsingarnar verði aðgengilegar, sem verði nánar útfært í reglugerð.
    Í 14. gr. frumvarpsins er kveðið á um kostnað sem heimilt er að krefja umsækjanda um og er ákvæðið lítillega breytt frá gildandi lögum sem felur í sér að Umhverfisstofnun verði heimilt að krefja umsækjanda um greiðslu kostnaðar sem fellur til vegna kynningar. Athygli nefndarinnar var vakin á því að ekki væri getið þess kostnaðar sem fellur til vegna lögbundins eftirlits Umhverfisstofnunar og leggur nefndin því til breytingu á ákvæðinu þess efnis.
    Þá leggur nefndin til breytingar á 15. gr. frumvarpsins enda er ákvæðið ekki í samræmi við samsvarandi ákvæði tilskipunarinnar þar sem er í 9. gr. hennar kveðið á um að aðildarríki skuli hafa samráð um fyrirhugaða sleppingu, dreifingu eða markaðssetningu við almenning og eftir því sem við á við tiltekna hópa. Ekki er því gengið nægilega langt með 15. gr. sem ætlað er að lögfesta heimildarákvæði. Þá telur nefndin rétt að benda á misræmi hvað þetta varðar í orðalagi íslenskrar þýðingar tilskipunarinnar og enskrar útgáfu hennar.
    Vegna misskilnings sem gætt hefur varðandi upplýsinga- og samráðsskyldu almennings vill nefndin þó árétta að skylda Umhverfisstofnunar til að upplýsa um sleppingu erfðabreyttra lífvera, sem kveðið er á um í b-lið 7. gr., er ekki af sama toga og skylda stofnunarinnar til samráðs skv. 15. gr. frumvarpsins. Stofnuninni er skylt að upplýsa um sleppingu en samráð skv. 15. gr. tekur til fyrirhugaðrar sleppingar, dreifingar eða markaðssetningar erfðabreyttra lífvera.
     Nefndin leggur að auki til þá breytingu að við frumvarpið bætist ákvæði sem aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af reglugerðinni sem frumvarpinu er ætlað að innleiða. Í skýrslu utanríkismálanefndar Alþingis frá 8. október 2008 segir að frá árinu 2000 hafi verið gert ráð fyrir því að sá háttur yrði hafður á að utanríkisráðherra legði tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi vegna EES-gerða sem kölluðu á lagabreytingar. Þær breytingar væru síðan lagðar fram í formi frumvarps af fagráðherra samhliða því sem EES-þingsályktunartillagan er lögð fyrir þingið eða í framhaldi af samþykkt hennar. Eitthvað hefur þó borið á því að lagt sé til að stjórnskipulegum fyrirvara sé aflétt með frumvarpsákvæði en slíkt verður til þess að þingið fær ekki gerðina sjálfa birta í þingskjali. Þó svo að nefndin leggi hér til þá breytingu að stjórnskipulegum fyrirvara sé aflétt með frumvarpsgrein áréttar hún mikilvægi þess að samræma framkvæmd þess hvernig ríkisstjórninni er veitt heimild til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og aflétta þannig stjórnskipulegum fyrirvara af EES-gerðum sem kalla á lagabreytingar hér á landi.
    Loks leggur nefndin til breytingar á texta til einföldunar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Vigdís Hauksdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júlí 2009.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Birgir Ármannsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Kristján Þór Júlíusson.