Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 237  —  91. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um Icesave-reikninga o.fl.

     1.      Hver undirritaði viljayfirlýsingu/samkomulag við Hollendinga vegna Icesave-reikninganna í október 2008?
    Baldur Guðlaugsson, fyrir hönd fjármálaráðuneytisins, Áslaug Árnadóttir, fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, og Ronald van Roeden, sendiherra Hollands í Ósló, fyrir hönd Hollands. Skjalið hefur verið gert opinbert og má nálgast á upplýsingasíðu stjórnvalda (skjal nr. 11) www.island.is.

     2.      Hafa íslensk stjórnvöld undir höndum lögfræðilega úttekt eða álit um það að íslensk stjórnvöld hafi ekki greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninganna umfram það sem er í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta?
    Íslensk stjórnvöld hafa látið vinna ýmsar greinargerðir um þetta efni. Í áliti Schjödt-lögmannsstofunnar í Brussel frá október 2008 segir að því megi halda fram að ríkið verði ekki gert ábyrgt fyrir því að innstæðukerfi virki ekki ef það hefur sett slíkt kerfi á fót eftir bestu getu. Stefán Geir Þórisson lögmaður kemst hins vegar að andstæðri niðurstöðu í áliti frá 8. nóvember 2008. Þessi lögfræðiálit og önnur eru aðgengileg á upplýsingasíðu stjórnvalda (skjöl nr. 14–24) www.island.is.

     3.      Hvert er innihald bréfs sem fjármálaráðherra ritaði 6. eða 7. nóvember 2008 þar sem Ísland sagði sig frá vinnuferli sem ákveðið var á fundi fjármálaráðherra EES/ESB í Brussel 4. nóvember?
    Innihald bréfsins má nálgast á upplýsingasíðu stjórnvalda (skjal nr. 30) www.island.is.