Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 129. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 276  —  129. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ásbjörns Óttarssonar um áhrif frestunar stóriðjuframkvæmda á þjóðarbúið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða áhrif mundi það hafa á þjóðarbúskapinn ef stóriðjuframkvæmdir vegna byggingar álvers í Helguvík og stækkunar í Straumsvík og tilheyrandi orkuframkvæmdir frestast
     a.      um eitt ár,
     b.      um tvö ár,
     c.      um þrjú ár?


    Í meginspá fjármálaráðuneytisins um framvindu þjóðarbúskaparins frá 12. maí sl. er gert ráð fyrir þeim framkvæmdum sem fyrirspurnin fjallar um. Ráðuneytið hefur hins vegar gert fráviksspá þar sem gerð er grein fyrir áhrifum þess að framkvæmdirnar verði alls ekki og er fjallað um hana í framangreindri skýrslu. Það er ekki einfalt mál að gera slíkar fráviksspár enda er innbyrðis samhengi hagstærða mjög mikið og því ekki mögulegt að reikna út til fullnustu áhrif af mismunandi frestun framkvæmda innan þess tímaramma sem svari við fyrirspurninni er settur.
    Eins og fram kemur í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins falla áform um stórframkvæmdir vel að líklegustu framvindu þjóðarbúskaparins á næstunni. Framundan er tími mjög lítils hagvaxtar og slaka á vinnumarkaði en slíkt eru kjöraðstæður þannig að slík verkefni nýtist án þess að valda eftirspurnarþrýstingi og verðbólgu eða ryðja burt öðrum framkvæmdaáformum.
    Ef framangreindum framkvæmdum verður frestað um eitt ár eykur það mjög líkurnar á því að hér verði samdráttur á næsta ári en ekki lítils háttar hagvöxtur eins og annars er gert ráð fyrir. Frestun um tvö ár eða lengur veldur því að mjög miklar líkur eru á að samdráttur verði á næsta ári og að hann kunni að standa lengur en annars.
    Verði þessum verkefnum frestað um tvö eða þrjú ár mun stærsti kúfur umsvifa vegna þeirra lenda á tímabili þar sem spár í dag telja að hagkerfið verði að komast á skrið á nýjan leik og slaki að hverfa. Slík tímasetning væri því óheppileg.
    Rétt er að hafa í huga að þó svo færi að þær framkvæmdir sem spurt er um sérstaklega frestuðust kynnu önnur minni og meðalstór verkefni að fara af stað á þessum tíma. Nokkur slík verkefni eru í undirbúningi.