Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 130. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 284  —  130. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um skólaeinkunnir og inntöku nemenda í framhaldsskóla.

     1.      Hefur ráðherra látið kanna skólaeinkunnir (í íslensku, ensku, stærðfræði, dönsku, náttúrufræði og samfélagsfræði) hjá nemendum sem útskrifuðust úr grunnskóla nú í vor og hvort skólaeinkunnir nemenda í 10. bekk hafa hækkað milli áranna 2008 og 2009?
    Menntamálaráðuneytið hefur ekki látið kanna kerfisbundið skólaeinkunnir með tilliti til hækkunar á milli ára. Athugun á skólaeinkunnum nemenda sem fengu skólavist í einum af þeim fjórum framhaldsskólum sem mest voru til umræðu á höfuðborgarsvæðinu nú í vor sýnir að meðaltal skólaeinkunna í íslensku, stærðfræði og ensku var ekki marktækt hærra en árin 2007 og 2008.

     2.      Ef í ljós kom mikill munur á einkunnum á milli skóla og að einkunnadreifing er með öðrum hætti en undanfarin ár, hvert er mat ráðherra á því og hver gæti verið ástæðan?
    Eins og segir í svari við fyrri spurningu er ekki vitað um mun á einkunnum á milli skóla og breytingar á einkunnadreifingu í grunnskólum. Samkvæmt Námsmatsstofnun má almennt segja að töluverður breytileiki er í einkunnagjöf milli skóla, milli kennara í einstaka námsgreinum og milli einstakra kennara sömu námsgreinar. Grundvöllur skólaeinkunna er annar en samræmdra og því ekki víst að samræmi eigi að vera á milli þessa tveggja tegunda námsmats. Samræmt námsmat hefur þann tilgang að aðstoða skóla við að vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur, veita nemendum, forsjáraðilum og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda og veita upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim námsgreinum sem prófað er úr, miðað við aðra skóla landsins. Skólaeinkunnir eru mat á því hvernig hver nemandi stendur út frá þeim viðmiðum sem skólinn hefur sett sér í skólanámskrá og eru bundnari skólastefnu hvers skóla.

     3.      Hefur í þessu sambandi verið kallað eftir faglegu áliti sérfræðinga í námsmati, t.d. hjá Námsmatsstofnun, og eftir áliti skólastjórnenda grunn- og framhaldsskóla hvað varðar þetta nýja fyrirkomulag og reynslu þeirra af því?
    Leitað hefur verið álits Námsmatsstofnunar sem vísar í jákvæða umsögn sem lögð var fram á sínum tíma um frumvarp til laga um grunnskóla þar sem stofnunin lýsti sig almennt mjög hlynnta þeim breytingum sem gerðar voru á samræmdu námsmati með upptöku könnunarprófa í 10. bekk. Breytingarnar miðuðu að því að gera samræmd próf nýtilegri fyrir vinnu nemenda og kennara og fjarlægja marga þá galla sem hrjáðu þáverandi kerfi. Stofnunin telur ekki tímabært að fella dóm um reynsluna af núverandi fyrirkomulagi. Ekki hefur á þessu stigi gefist tóm til að kalla eftir áliti skólastjórnenda en þeir lýstu á sínum tíma yfir stuðningi við breytingar á samræmdu námsmati.

     4.      Hefur ráðherra hug á að kalla saman faghóp til þess að fara yfir reynsluna af breyttu fyrirkomulagi og fá hann til þess að leggja mat á kosti og galla og leiðir til úrbóta ef í ljós kemur að þess er þörf?
    Menntamálaráðuneytið mun meta vandlega reynsluna af innritun í framhaldsskóla nú í vor og þar með talið álitamál varðandi skólaeinkunnir. Ýmsar ábendingar hafa þegar kom fram við útskriftar- og innritunarferlið í heild. Verður væntanlega leitað til fagaðila um slíkt mat.

     5.      Hvenær má ætla að almennur hluti námskrár taki gildi og þá ákvæði um skólaeinkunnir?

    Áætlanir ráðuneytisins gera ráð fyrir að almennur hluti aðalnámskrár verði gefinn út vorið 2010.

     6.      Telur ráðherra eðlilegt að grunnskólar hafi engin samræmd viðmið eða leiðbeiningar frá ráðuneytinu hvað varðar skólaeinkunn upp úr 10. bekk, þ.e. við lok skyldunáms?

    Aðalnámskrá sem gefin er út af menntamálaráðuneyti skilgreinir þau samræmdu viðmið sem skólar þurfa að fara eftir. Út frá þeim móta skólar sér skólanámskrá en skólaeinkunnir eiga að byggja á þessum viðmiðum og taka mið af þeim áherslum sem dregin eru fram í skólanámskrá. Samkvæmt nýjum grunnskólalögum skal útfæra ákvæði um lok grunnskóla og útskrift í aðalnámskrá. Til greina kemur að gefa út sérstaklega reglur eða viðmið um námsmat og útskrift áður en aðalnámskrá verður gefin út í heild.

     7.      Telur ráðherra að jafnræðis hafi verið gætt við inntöku nemenda í framhaldsskóla nú í vor?
    Ekki er ástæða til að ætla annað en að framhaldsskólar hafi gætt jafnræðis við inntöku einstakra nemenda nú í vor út frá þeim innritunarreglum sem stjórnendur þar höfðu sett sér. Gagnrýnt hefur verið að innritunarkerfið útilokaði umsækjendur með góðar umsóknir frá skólavist. Er t.d. gagnrýnt að nemandi sem flyst í varaskóla fái ekki þar inni þótt einkunnir hans séu hærri en þeirra lægstu sem fengu skólavist í þeim sama skóla í gegnum aðalval. Þetta er mjög vel skiljanlegt sjónarmið. Skólarnir hafa gjarnan tekið við nemendum með þá í fyrsta vali og þar með lokað á umsóknir úr varavali. Þetta er ekki bara kerfislægt atriði því heyrst hefur frá skólameisturum að þeir meti fyrsta val til forgangs umfram örlítið hærri meðaleinkunn frá nemanda með skólann í varavali. Þannig er ekki einhlítur skilningur á því að afgreiða beri aðalval í samhengi við fyrirliggjandi varaval. Ákvarðanir skólameistara um inntöku eru kæranlegar til ráðuneytisins og hafa engar slíkar kærur borist vegna innritunar. Hvað varðar jafnræði milli tiltekinna hópa svo sem eftir búsetu eða öðrum þáttum þá hafa borist ábendingar um að kerfi innritunar geti falið í sér mismunun og verður það tekið til skoðunar sem hluti af mati á innritun í heild sinni. Ættu niðurstöður úr þeirri skoðun að liggja fyrir í haust.

     8.      Telur ráðherra eðlilegt að framhaldsskólar hafi markað sér stefnu um inntökuskilyrði eftir að umsóknarfrestur rann út nú í vor?
    Í reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla segir að framhaldsskólar skuli birta í skólanámskrá þær forsendur sem lagðar er til grundvallar við mat á umsókn um innritun og þær kröfur sem skóli gerir til undirbúnings náms á einstökum námsbrautum. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að framhaldsskólar hafi vikið frá þeim viðmiðum um innritun sem þeir hafa gefið út.

     9.      Hefur ráðherra skoðað þann möguleika að nemendum standi til boða að taka samræmd próf jafnhliða skólaeinkunn, að taka upp hverfisskóla eins og áður var eða að framhaldsskólum verði leyft að bjóða upp á inntökupróf?
    Mikilvægt er að árétta að innritun 96% nemenda gekk greiðlega fyrir sig og vandinn sem upp kom virtist fyrst og fremst eiga við þá fjóra bóknámsskóla sem staðsettir eru miðsvæðis í höfuðborginni. Eins og segir í svari við fyrri spurningu þá mun menntamálaráðuneyti fara yfir innritun í framhaldsskóla nú í vor með tilliti til þess sem betur mætti fara. Í samræmi við lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla er mikilvægt að innritun í framhaldsskóla falli skýrlega að markmiðum laganna um samfellu náms á ólíkum skólastigum. Inntaka í framhaldsskóla á að vera samstarfsverkefni grunn- og framhaldsskóla þar sem ráðgjöf og leiðsögn til nemenda er höfð að leiðarljósi við val á námi og skóla. Æskilegt er að slíkt samráð fari fram á lokaári nemenda í grunnskóla og í apríl verði nánast búið að ganga frá skráningu í skólana. Til að svo geti orðið þarf að koma á markvissu samstarfi og upplýsingaflæði milli grunn- og framhaldsskóla þannig að nemendur geti flust á milli skólastiga á ábyrgan og upplýstan hátt. Vísar að þess konar samstarfi grunn- og framhaldsskóla eru þegar til staðar. Það hefur einnig ótvíræða kosti að sem flest börn sem ljúka grunnskóla geti gengið að menntun við hæfi í nálægum framhaldsskóla. Ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til þeirra kosta sem nefndir eru í spurningunni. Hins vegar er ljóst að samræmt mat mun áfram vera mikilvæg stoð í gæðamati og samræmd könnunarpróf verða haldin í haust samkvæmt nýjum grunnskólalögum. Ráðuneytið hefur ekki heimilað framhaldsskólum sem þess hafa óskað að taka upp inntökupróf.

     10.      Hefur ráðherra markað sér stefnu hvað varðar aukna faglega ráðgjöf í námsmati og formlegt eftirlit með námsmati í grunnskólum landsins?
    Við innleiðingu nýrra laga um grunnskóla verður hugað almennt að faglegri ráðgjöf um námsmat sem og aðra þætti skólastarfs. Hvað varðar formlegt eftirlit með námsmati þá eru ákvæði um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs í lögum um grunnskóla og reglugerð sem verða útfærð frekar í aðalnámskrá. Til greina kemur að ráðuneytið gefi út leiðbeiningar um námsmat fyrir grunn- og framhaldsskóla og beiti sér fyrir þróunarverkefnum á því sviði.