Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 285  —  97. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um kynningarstarf vegna hvalveiða.

     1.      Hvernig hefur verið háttað kynningu á málstað og sjónarmiðum stjórnvalda í hvalveiðimálum á árunum 1998–2008, sbr. þingsályktun á 123. löggjafarþingi (92. mál), hverjir hafa markhóparnir verið og hverjir hafa skipulagt kynningarstarfið og annast það?
    Kynning á málstað Íslands varðandi hvalveiðimál hefur farið fram bæði gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum víða um heiminn í gegnum árin. Málið hefur verið tekið upp í viðræðum við stjórnvöld erlendra ríkja við ýmis tækifæri og ýmsir þættir afstöðu Íslands þannig kynntir fyrir bæði stjórnmálamönnum og embættismönnum. Áhersla hefur verið lögð á Bandaríkin í þessu efni. Einnig hefur málstaður Íslands verið kynntur fyrir forráðamönnum ýmissa fyrirtækja sem stunda verslun við Ísland. Þetta hefur verið gert bæði á vettvangi þar sem hvalveiðimál hafa einungis verið eitt umræðuefni af mörgum og þar sem hvalveiðimál hafa verið aðalumræðuefnið.
    Varðandi fjölmiðla þá hafa ráðherrar og ýmsir embættismenn í sjávarútvegsráðuneytinu og öðrum ráðuneytum kynnt hvalveiðimál og málefni þeim tengd fyrir blaðamönnum víða að. Hefur málstað Íslands þannig verið komið á framfæri við almenning ýmissa landa t.d. í gegnum dagblöð, netmiðla og útvarps- og sjónvarpsútsendingar. Þessir fjölmiðlar eru allt frá því að vera staðbundnir í ákveðnum borgum til þess að nást um allan heim, svo sem CNN, BBC WORLD og BBC World Service.
    Við kynningu á málstað Íslands hefur verið lögð áhersla á rétt Íslands til nýtingar á náttúruauðlindum sínum með sjálfbærum hætti. Upplýsingum um stöðu ólíkra hvalastofna hefur jafnfram verið komið á framfæri.
    Skipulagning og framkvæmd kynningarstarfsins hefur undanfarið verið í höndum starfsmanna ráðuneytisins, en viðamiklir þættir starfsins hafa verið unnir í samvinnu við önnur ráðuneyti, undirstofnanir og utanaðkomandi ráðgjafa. T.d. vann sérstakur ráðgjafi að kynningarstarfi í Bandaríkjunum á vegum sjávarútvegsins á árunum 2000–2008, en það starf sneri bæði að þessu málefni sem og öðrum hagsmunamálum íslensks sjávarútvegs.

     2.      Hversu miklir fjármunir hafa runnið til slíkrar kynningar af fjárlögum hvers árs á þessu tímabili, af ráðstöfunarfé ráðherra og úr einstökum sjóðum sem ráðherra ber ábyrgð á, og hvernig hefur þeim verið varið, flokkað eftir árum, svo sem til ráðgjafar- og almannatengslafyrirtækja heima og erlendis, samtaka sem berjast fyrir hvalveiðum, í auglýsingar (hvar?), til annars kynningarefnis (hvers?), ferða á ráðstefnur (hverjar?), annars ferðakostnaðar (hvers?) o.s.frv., bæði af fjárlagalið 05-190-1.33 og öðrum liðum ráðuneytisins?
    Það er mjög flókið og tímafrekt að taka saman þær upplýsingar sem þarf til að unnt sé að svara þessum lið fyrirspurnarinnar. Vegna mikilla anna við undirbúning fjárlaga auk sumarleyfa treystir ráðuneytið sér ekki til að veita svarið nú en mun taka þessar upplýsingar saman svo fljótt sem auðið er.