Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 146. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 344  —  146. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um brottflutning af landinu.

    Forsætisráðherra óskaði eftir svörum Hagstofu Íslands við þeim spurningum sem fram koma í fyrirspurninni og fara þau hér á eftir. Viðhlítandi svör er ekki unnt að veita vegna skorts á upplýsingum og greiningu gagna.

     1.      Hvað er áætlað að margir Íslendingar hafi nú þegar flutt úr landi vegna afleiðinga bankahrunsins og hve margir útlendingar sem starfað hafa hér?
    Hagstofa Íslands hefur ekki greint brottflutning frá landinu eftir því hvort hann megi rekja til afleiðinga bankahrunsins og telur sig því ekki geta svarað þeirri spurningu sem hér um ræðir án þess að afla frekari upplýsinga.

     2.      Hve margir er áætlað að flytjist úr landi árlega, nú í ár og næstu þrjú árin?
    Hagstofan birti mannfjöldaspá 17. desember 2008 fyrir tímabilið 2008–2050. Ein af grunnforsendum hennar er að venju spá um búferlaflutninga til og frá landinu. Fram til ársins 2003 sýna gögn Hagstofunnar tiltölulega venjubundið mynstur búferlaflutninga og greint hefur verið frá opinberlega. Þegar tók til áranna 2004–2007 breyttist þetta mynstur búferlaflutninga í svo mikilvægum atriðum að endurskoða þurfti frá grunni mannfjöldaspána, einkum til næstu ára. Hagstofan álítur að búferlaflutningar árin 2009–2011 verði best metnir í nánu samhengi við rauntölur um búferlaflutninga fyrri ára, einkum áranna 2004– 2007. En vitaskuld dugir það eitt ekki til að spá fyrir um mannfjöldaþróun því hagsveiflur og vinnuaflseftirspurn í nágrannalöndum Íslands eru þættir sem hafa áhrif á hina endanlegu niðurstöðu um aðflutta og brottflutta frá Íslandi á næstu árum. Hvað sem öðru líður telur Hagstofan að árin 2004–2011 beri að skoða sem einstakt tímabil í fólksfjöldaþróun hérlendis. Hefur mannfjöldaspá Hagstofunnar tekið mið af þessu áliti.
    Almennt séð flytur fólk mest búferlum utan og innan lands á aldrinum 20–30 ára og á það jafnt við um bæði kynin. Það sem gerðist árin 2004–2007 má með hliðsjón af þessu draga saman í knappa niðurstöðu um að aðflutningur til landsins hafi að verulegu leyti verið borinn uppi af útlendum körlum á öllu aldursbilinu 20–50 ára. Þetta telur Hagstofan að muni snúast við árin 2009–2011. Í forsendum Hagstofunnar er ekki beinlínis gert ráð fyrir landflótta útlendinga frá Íslandi. Gert er ráð fyrir að 66% allra erlendra karla og 44% kvenna sem komu hingað árin 2004–2007 hafi flutt af landi brott fyrir árslok 2011. Í sögulegu samhengi er hlutfall brottfluttra útlendinga lægra, sem þýðir að fleiri þeirra setjast hér að í venjulegu árferði. Hins vegar voru búferlaflutningar útlendinga árin 2004–2007 ekki dæmigerðir í ljósi sögunnar og því má telja að árin 2009–2011 verði það ekki heldur hvað Ísland varðar.
    Hagstofan spáir neikvæðum flutningsjöfnuði bæði karla og kvenna árin 2009–2011, sbr. niðurstöður í meðfylgjandi töflu. Hagstofan spáir því jafnframt að jafnvægi verði náð í búferlaflutningum árið 2012 og að frá því ári að telja verði aftur komið á það ástand í búferlaflutningum sem einkenndi í meginatriðum íslenskan veruleika fram til ársins 2003. Samkvæmt mannfjöldaspánni er talið að árið 2009 flytjist um 4.800 fleiri frá landinu en til þess. Þessi þróun mun halda áfram árið 2010 en þá verður flutningsjöfnuðurinn neikvæður um 3.200 manns og 2.300 manns árið 2011. Í meðfylgjandi töflu má finna svar við spurningu þingmannsins.

Spá um flutningsjöfnuð eftir kyni 2009–2012.

2009 2010 2011 2012
Íslendingar og útlendingar
Alls –4.771 –3.209 –2.289 108
Karlar –3.472 –2.281 –1.637 48
Konur –1.299 –928 –652 60
Útlendingar
Alls –3.711 –2.152 –1.230 151
Karlar –2.906 –1.718 –1.070 71
Konur –805 –434 –160 80
Útlendingar, %
Alls 77,8 67,1 53,7
Karlar 83,7 75,3 65,4
Konur 62,0 46,8 24,5

     3.      Hvernig skiptast þeir eftir
                  a.      atvinnugreinum,
                  b.      fjölskyldustöðu, þ.e. fjölskyldufólk eða einhleypir, og
                  c.      kyni?

    Hagstofa Íslands greinir ekki spá um búferlaflutninga eftir atvinnugreinum eða fjölskyldustöðu og telur sig því ekki geta svarað a- og b-lið án frekari rannsókna. Varðandi c-lið vísast til töflu í svari við 2. tölul.

     4.      Til hvaða landa má áætla að fólk flytji einkum?
    Hagstofa Íslands greinir ekki í spá um búferlaflutninga þau lönd sem flutt er til og getur því ekki svarað þessari spurningu án frekari rannsókna.

     5.      Hvað er áætlað að margir Íslendingar snúi ekki heim frá útlöndum í ár og næstu þrjú árin vegna afleiðinga bankahrunsins og í hvaða atvinnugreinum eru þeir einkum?
    Hagstofa Íslands hefur ekki upplýsingar um Íslendinga sem ekki ætla að snúa heim frá útlöndum í ár eða næstu þrjú ár og gildir þá einu hvort þeir hafa flutt vegna afleiðinga bankahrunsins eða af öðrum ástæðum og getur því ekki svarað þessari spurningu án frekari rannsókna.

    (Byggt er á upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Heimild: Spá um mannfjölda 2008–2050, Hagtíðindi 93. árg. 71. tbl., sjá einnig www.hagstofa.is.)