Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 83. máls.

Þskj. 84  —  83. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88 12. júní 2008,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)



1. gr.

    Í stað ártalsins „2010“ í 1. málsl. 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og í 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII og í ákvæði til bráðabirgða VIII, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 156/2008, kemur: 2012.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum um meðferð sakamála var gert ráð fyrir að 1. janúar 2009 tæki til starfa nýtt embætti héraðssaksóknara. Í kostnaðarmati því sem fylgdi frumvarpinu (þskj. 252, 233. mál 135. löggjafarþings) kom fram að yrði embætti héraðssaksóknara komið á fót leiddi það til um 62 millj. kr. hækkunar rekstrarkostnaðar á þessu sviði dómsmálaráðuneytisins. Þá var einnig gert ráð fyrir að við stofnun embættisins félli til tímabundinn stofnkostnaður sem næmi um 10 millj. kr. vegna kaupa á húsgögnum og tækjum. Kostnaðarumsögnin miðaðist því við 72 millj. kr. viðbótarútgjöld á ársgrundvelli. Með lögum nr. 156/2008 var ákveðið að fresta því fram til 1. janúar 2010 að setja embætti héraðssaksóknara á stofn. Var sú breyting liður í sparnaðaraðgerðum dómsmálaráðuneytisins vegna fjárlagaársins 2009. Nú er ljóst að vegna enn frekari sparnaðaraðgerða ráðuneytisins vegna komandi fjárlagaárs verður enn á ný að fresta því að embætti héraðssaksóknara verði sett á stofn.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði laga um meðferð sakamála um embætti héraðssaksóknara komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2012. Fyrir þann tíma skuli dómsmálaráðherra auglýsa laus til umsóknar embætti héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara og saksóknara embættisins og skipa í þau, svo og hefja undirbúning að því að embættisskrifstofan taki til starfa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2008,
um meðferð sakamála.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnun sérstaks embættis héraðssaksóknara verði frestað fram til 1. janúar 2011. Gert hafði verið ráð fyrir að embættið tæki til starfa árið 2009 og 35,4 m.kr. fjárveitingu til embættisins árið 2009 í frumvarpi til fjárlaga. Árlegur kostnaður var metinn á 62 m.kr., auk 10 m.kr. stofnkostnaðar. Vegna þeirra hagræðingaraðgerða sem gripið var til við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2009 var þessum áformum frestað. Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnun embættisins verði aftur frestað um eitt ár. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu framangreind útgjöld ekki falla til á næsta ári. Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010.