Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 88. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 90  —  88. mál.
Leiðrétting.




Tillaga til þingsályktunar



um útvarp frá Alþingi.

Flm.: Davíð Stefánsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason,
Guðmundur Steingrímsson, Lilja Mósesdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir,
Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að hefja undirbúning þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás. Stefnt verði að því að útvarp frá Alþingi hefjist eigi síðar en þegar þing kemur saman á vorþingi 2010.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var fyrst flutt á 131. löggjafarþingi (580. mál).
    57. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo: „Fundir Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti eða svo margir þingmenn, sem til er tekið í þingsköpum, krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.“
    Þingfundum hefur verið sjónvarpað um dreifikerfi sjónvarps Ríkisútvarpsins um árabil. Þessar sendingar hafa verið í beinni útsendingu meðan engin önnur dagskrá er í sjónvarpinu, en um leið og auglýstur dagskrártími hefst er lokað fyrir útsendingu frá Alþingi. Reynt er að senda þann hluta fundanna sem ekki náðist í beinni útsendingu út síðar, oftast snemma morguns daginn eftir. Þá hefur þingfundum einnig verið sjónvarpað beint um Sjónvarp Símans, Digital-Ísland og fleiri gagnaveitur, en þær teljast þó ekki opnar almenningi, enda bundnar við einkafyrirtæki sem selja aðgang í gegnum áskrift. Nú er einnig hægt að fylgjast með beinum útsendingum þingfunda á netinu. Það er því fátíðara en áður að almenningur geri sér ferð á þingpalla til að hlýða á það sem fram fer á þingfundi. Slíkt gerist þó jafnan ef á dagskrá eru mikil hitamál sem einstakir hópar í samfélaginu láta sig miklu skipta.
    Þessi fjölbreytta miðlun þjónar þó í reynd einungis takmörkuðum hópi. Ekki eru allir tengdir við netið með kraftmiklum tengingum og ekki hafa allir aðgang að breiðbandi eða öðrum gagnaveitum á ljósleiðaraneti. Þetta á sérstaklega við í dreifðari byggðum, þannig að segja mætti að hér halli á landsbyggðina þegar kemur að aðgengi að löggjafarvaldinu. Vitað er að margt eldra fólk sem dvelst heima nýtir sér síður aðgang að netinu. Þá er enn fjöldi fólks sem stundar vinnu vítt og breitt um landið annars staðar en við tölvuskjá, en gæti fylgst með útsendingum af þingfundum á hefðbundinni útvarpsrás.
    Enginn vafi er á að beint útvarp frá þingfundum mundi gera stærstum hluta landsmanna kleift að fylgjast með því sem þar fer fram. Auðveldara er að fylgjast með útsendingum í hljóðvarpi en sjónvarpi á meðan öðrum verkefnum er sinnt. Það er því mat flutningsmanna að beinar útvarpssendingar frá Alþingi ættu að vera sjálfsögð þjónusta í nútímalegu lýðræðisþjóðfélagi, á öld upplýsinga og fjölmiðlunar. Þær væru og í anda þess sem segir í stjórnarskránni um að fundir Alþingis skuli haldnir „í heyranda hljóði“.