Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 173. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 192  —  173. mál.




Fyrirspurn



til heilbrigðisráðherra um málefni Neyðarmóttöku vegna nauðgunar.

Frá Önnu Pálu Sverrisdóttur.



     1.      Hvað kostar starfsemi Neyðarmóttöku vegna nauðgunar? Á að ganga lengra í sparnaðaraðgerðum á Neyðarmóttökunni en gert hefur verið á undanförnum árum?
     2.      Er hætt við að kostnaður heilbrigðisþjónustunnar við áfallastreituröskun eða aðrar geðraskanir í kjölfar nauðgunar geti aukist ef starfsemi Neyðarmóttökunnar er skert?
     3.      Hvers eðlis er starfsemi Neyðarmóttökunnar? Er þeirri hugmyndafræði sem lá að baki Neyðarmóttökunni við stofnun hennar enn þá fylgt af hálfu heilbrigðisyfirvalda? Er t.d. viðurkennt í verki að komur á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar eru allt annars eðlis en aðrar komur á bráðadeild og því þarf annars konar þjónustu sem krefst mikillar nærgætni og tíma?
     4.      Er starfsumhverfi Neyðarmóttökunnar fyrst og fremst hugsað út frá hagsmunum brotaþola þess glæps sem nauðgun er og að brotaþoli fái bestu mögulega þjónustu?
     5.      Hvernig ætla heilbrigðisyfirvöld að tryggja að reyndir læknar framkvæmi skoðun á brotaþola, sem getur skipt sköpum við meðferð máls vegna nauðgunar fyrir dómi? Er rétt að fyrirhugað sé að breyta fyrirkomulagi læknisþjónustu Neyðarmóttökunnar?
     6.      Hvernig hefur starfsemi Neyðarmóttökunnar reynst í samanburði við svipuð úrræði annars staðar á Norðurlöndunum? Hve margir leita til Neyðarmóttökunnar og hver er kostnaðurinn samanborið við Norðurlöndin?
     7.      Hefur Neyðarmóttakan hlutverki að gegna í baráttunni við mansal og vændi? Ef svo er, í hverju felst það hlutverk?
     8.      Mun ráðherra beita sér fyrir að stór samráðsfundur um málefni Neyðarmóttökunnar, sem skrifað var m.a. um í frétt í Morgunblaðinu 15. september sl., verði haldinn?


Skriflegt svar óskast.