Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 42. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 195  —  42. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um aðstoðarmenn ráðherra og tímabundnar ráðningar.

     1.      Hversu margir eru aðstoðarmenn ráðherra?
    Ráðherrar hafa einn aðstoðarmann hver og samtals eru þeir 12.

     2.      Hversu margir starfsmenn hvers ráðuneytis eru ráðnir tímabundið, hver eru verkefni þeirra, var viðkomandi starf auglýst og hvenær var ráðið í viðkomandi stöður?
    Með hliðsjón af efni fyrirspurnarinnar er bent á að samkvæmt reglum nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, með síðari breytingum, eru tilteknar heimildir til ráða starfsmenn tímabundið í þjónustu ríkisins án auglýsingar, m.a. vegna afleysinga.
    Jafnframt skal upplýst að ríkisstjórnin hefur ákveðið, að tillögu forsætisráðherra, að skipa nefnd til að endurskoða núgildandi lög um Stjórnarráð Íslands og til þess að fjalla sérstaklega um framtíðarfyrirkomulag varðandi ráðningar innan Stjórnarráðsins. Nefndinni er m.a. falið að fjalla um innra skipulag ráðuneyta innan Stjórnarráðsins og starfsheiti starfsmanna; um pólitíska aðstoðarmenn ráðherra, m.a. um stöðu pólitískra aðstoðarmanna innan ráðuneytis, ráðningu þeirra, starfslok og fjölda þeirra; um auglýsingaskyldu starfa hjá hinu opinbera og frávik frá þeirri skyldu, m.a. vegna tímabundinna aðstæðna, og loks um heimildir til tilflutnings embættismanna og annarra starfsmanna innan Stjórnarráðsins, m.a. um málsmeðferð og formkröfur laganna og mögulega flutningsskyldu. Gert er ráð fyrir því að við endurskoðunina verði m.a. litið til lagareglna sem um þetta gilda annars staðar á Norðurlöndunum og víðar eftir atvikum.
    Svör við fyrirspurninni eru eftirfarandi sundurliðuð eftir ráðuneytum:

Forsætisráðuneytið.
    Tveir starfsmenn hafa nú tímabundna ráðningu í forsætisráðuneytinu. Annars vegar er um að ræða starf upplýsingafulltrúa ráðuneytisins sem ráðið var í tímabundið 18. ágúst sl. Hins vegar var laganemi ráðinn tímabundið 1. september sl. í 30% í starf ritara úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Störfin voru ekki auglýst.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið.
    Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur frá áramótum ráðið fimm starfsmenn tímabundið. Tveir starfsmenn, báðir lögfræðingar, voru ráðnir í eitt ár, annar frá febrúar sl. og hinn frá miðjum júní sl. Þrír voru ráðnir sem sumarstarfsmenn, laganemar og lögfræðingur, og þar af var ráðning eins framlengd til ársloka. Störfin voru ekki auglýst.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið.
    Lögfræðingur var ráðinn í félags- og tryggingamálaráðuneytið án auglýsingar 2. júní sl. á velferðarsviði og fékk áframhald á ráðningu á jafnréttis- og vinnumálasviði. Bókasafnsfræðingur var ráðinn án auglýsingar 1. september sl. í verkefni á sviði skjalavörslu í ráðuneytinu. Sérfræðingur fluttist frá forsætisráðuneytinu án auglýsingar 20. apríl sl. til að sinna verkefnum vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Lögfræðingur var ráðinn án auglýsingar 16. júlí sl. til að sinna lögfræðilegri ráðgjöf ásamt ákveðnum verkefnum sem skrifstofustjóri stjórnsýslu- og stefnumótunarsviðs sinnti áður hjá ráðuneytinu (en sá sem gegndi því starfi fluttist til forsætisráðuneytis fyrr á árinu.) Lögfræðingur var ráðinn án auglýsingar 1. júlí sl. í verkefni sem lúta að sameiningu stofnana og skuldavanda heimilanna.

Fjármálaráðuneytið.
    Alls eru sex starfsmenn í ráðuneytinu ráðnir tímabundið. Sérfræðingur var ráðinn 1. ágúst sl. til að sinna tímabundum verkefnum á sviði rafrænnar stjórnsýslu. Ráðningarsamningur hans er til 31. janúar 2010. Sérfræðingur var ráðinn 9. mars sl. til að sinna verkefnum á sviði banka- og fjármálamarkaða. Ráðningarsamningur hans er til 30. nóvember nk. Sérfræðingur var ráðinn 16. júlí sl. sem upplýsingafulltrúi ráðuneytisins og til að sinna vefstjórn að hluta. Ráðningarsamningur hans er til 31. desember nk. Sérfræðingur var ráðinn á starfsmannaskrifstofu 1. janúar sl., upphaflega sem starfsmaður jafnréttisnefndar en eftir að þeim störfum lauk hefur viðkomandi sinnt öllum helstu verkefnum skrifstofunnar. Ráðningarsamningurinn gildir til 31. desember nk. Lögfræðingur var ráðinn á tekju- og skattaskrifstofu 11. júní sl. Ráðningarsamningurinn gildir til 10. júní 2010. Sérfræðingur var ráðinn sem ráðgjafi ráðherra 12. febrúar sl. og sinnir aðallega verkefnum er varða málefni fjármálastofnana. Ráðningarsamningurinn gildir til 31. desember nk. Störfin voru ekki auglýst.

Heilbrigðisráðuneytið.
    Enginn starfsmaður er ráðinn tímabundið í heilbrigðisráðuneytinu.

Iðnaðarráðuneytið.
    Hjá iðnaðarráðuneytinu starfa nú tveir starfsmenn sem hafa verið ráðnir tímabundið. Lögfræðingur á skrifstofu nýsköpunar og þróunar var ráðinn í tímabundið starf frá 1. maí sl., eftir auglýsingu. Tímabundin ráðning lögfræðings á skrifstofu orkumála, frá 1. maí sl., var framlengd eftir að ráðningartíma lauk í lok ágúst vegna aukinna verkefna í framhaldi af aðildarumsókn til Evrópusambandsins. Starfið var ekki auglýst.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
    Alls hafa fjórir starfsmenn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu tímabundna ráðningu og eru allir í 100% starfi. Verkefni þeirra eru eftirfarandi: Starfsmaður var ráðinn 1. júní sl. sem verkefnastjóri samstarfsverkefnis mennta- og menningarmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, Lýðheilsustöðvar og nemendafélaga framhaldsskóla um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum. Starfsmaður var ráðinn 1. júní sl. sem ráðgjafi ráðherra í menntamálum. Starfsmaður var ráðinn 1. ágúst sl. til þess að vinna að innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla. Starfsmaður var ráðinn 1. september sl. sem verkefnastjóri aðgerða í málefnum nýbúa í framhaldsskólum. Ekkert fyrrgreindra starfa var auglýst.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.
    Starfsmaður var ráðinn í afleysingar vegna fæðingarorlofs starfsmanns til að gegna starfi lögfræðings fjarskiptamála. Ráðningartími er frá 1. ágúst 2009 til 1. ágúst 2010. Starfsmaður var ráðinn til 1. desember nk. í tímabundið verkefni vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandsumsóknar Íslands. Þessi störf voru ekki auglýst.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
    Starfsmaður var verkefnaráðinn án auglýsingar í tvo til þrjá mánuði í haust sem ráðgjafi við skoðun á lögum og reglum um fiskveiðistjórnun.

Umhverfisráðuneyti.
    Enginn starfsmaður er ráðinn tímabundið í umhverfisráðuneytinu.

Utanríkisráðuneytið.
    Fimm starfsnemar eru tímabundið ráðnir í utanríkisráðuneytinu, tveir á aðalskrifstofu ráðuneytisins, tveir í sendiráðinu í Brussel og einn í þýðingamiðstöð ráðuneytisins. Starfsnemastöðurnar á aðalskrifstofu og í þýðingamiðstöð byggjast á samningi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri um að taka á móti starfsnemum frá þessum háskólum. Störfin voru því auglýst innan háskólanna. Ráðið var í stöðurnar á aðalskrifstofu frá 1. júní sl., annars vegar til 31. desember nk. og hins vegar til 31. ágúst sl. Starfsnemi við þýðingamiðstöðina var ráðinn frá 1. júlí 2008 til 31. október nk. Starfsnemastöðurnar í Brussel voru auglýstar 15. mars sl. og ráðið í þær frá 1. júlí til 31. desember nk. Tveir háskólamenntaðir starfsmenn starfa við Evrópumál. Annar þeirra var ráðinn á grundvelli auglýsingar sem birt var 16. desember 2007, hann hóf störf 1. janúar 2008 og verður til 31. desember nk. Hinn starfsmaðurinn er í afleysingum til næstu áramóta og var ráðinn án auglýsingar. Einn ritari starfar tímabundið á skrifstofu upplýsingamála. Starfið var auglýst í ágúst 2008 og ráðið í það frá og með 1. september sama ár. Einn starfsmaður starfar tímabundið í skjalasafni. Starfið var ekki auglýst. Ráðið var í stöðuna frá og með 1. september sl.

Efnahags- og viðskiptaráðuneyti.
    Einn starfsmaður efnahags- og viðskiptaráðuneytisins er ráðinn tímabundið og starfar hann sem lögfræðingur í ráðuneytinu. Starfið var ekki auglýst og ráðið var í stöðuna 1. janúar sl.