Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 175. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 196  —  175. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um upplýsingar í ökuskírteini um vilja til líffæragjafar.

Flm.: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðbjartur Hannesson,


Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja með reglugerð um ökuskírteini að á þeim séu upplýsingar um vilja til líffæragjafar.

Greinargerð.


    Tillaga þessa efnis var áður lögð fram á 132. og 133. löggjafarþingi en fékkst þá ekki rædd.
    Mikilvægi líffæragjafa er óumdeilt. Þær bjarga lífi margra og geta aukið lífsgæði líffæraþega til muna. Hér á landi, sem annars staðar, er þörfin fyrir gjafalíffæri mun meiri en framboðið og því mjög áríðandi að fjölga líffæragjöfum.
    Það er þess vegna nauðsynlegt að upplýsingar um vilja til líffæragjafa verði sem aðgengilegastar. Vandfundin er heppilegri leið en að notast við upplýsingar á ökuskírteini viðkomandi til að gera þann vilja ljósan. Í Bandaríkjunum hefur sú leið verið farin og í sumum löndum er þessar upplýsingar að finna á sjúkratryggingaskírteini.
    Í dag geta einstaklingar skráð afstöðu sína til líffæragjafar á þar til gerð kort eða í svokallaða lífsskrá hjá landlæknisembættinu. Fáir hafa hins vegar nýtt sér þessa kosti og því brýnt að leitað verði nýrra leiða í þessum efnum.
    Það er afar mikilvægt að allir séu hvattir til að íhuga hvort þeir vilji gefa líffæri. Með því að áskilja slíka skráningu á ökuskírteini þarf fólk að gera upp við sig hvort það hefur áhuga á að gefa líffæri. Það má leiða líkur að því að allt of fáir velti þessu fyrir sér.

Ættingjar hafna líffæragjöf í 40% tilvika.
    Í 2. gr. laga um brottnám líffæra, nr. 16/1991, kemur fram að liggi fyrir samþykki einstaklings megi, að honum látnum, nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Enn fremur segir m.a. að liggi slíkt samþykki ekki fyrir sé heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna.
    Í niðurstöðum athugunar á líffæragjöfum á Íslandi í 10 ár, frá 1992–2002, kom m.a. fram að þegar leitað var samþykkis ættingja fyrir líffæragjöf var erindinu neitað í um 40% tilvika.
    Landlæknir hefur sagt að dregið hafi úr því að fólk leyfi að líffæri séu tekin úr ættingjum og lítur það alvarlegum augum. Það getur verið afar erfitt fyrir ættingja þess látna að ákveða á þessari sorgarstundu hvort líffæri viðkomandi verða gefin, m.a. vegna þess að málin hafa ekkert verið rædd á meðan hinn látni var á lífi. Það hlýtur því að vera heppilegra að fleiri ákveði sjálfir hvort þeir vilji gefa líffæri, enda sé það í samræmi við sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga.
Ekki afturvirk breyting.
    Í 52. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, kemur m.a. fram að ráðherra setji reglur um efni og form ökuskírteina. Í 47. gr. reglugerðar um ökuskírteini, nr. 501/1997, með áorðnum breytingum, segir að ökuskírteini skuli vera af EES-gerð í samræmi við ákvæði I. viðauka. Í reglugerðinni og viðaukum hennar kemur fram að viðbótarupplýsingar geti verið í ökuskírteini, t.d. innlendar tákntölur sem eingöngu gildi innan viðkomandi lands.
    Flutningsmenn telja að æskilegt sé að vilji Alþingis komi fram í þessu mikilvæga máli og álykti því með beinum hætti að þessar nauðsynlegu upplýsingar eigi að koma fram á ökuskírteinum.
    Flutningsmenn telja að áskilnaður um afstöðu til líffæragjafar í ökuskírteini eigi ekki að virka aftur í tímann um útgefin ökuskírteini heldur eigi einungis við þau ökuskírteini sem gefin yrðu út eftir að breytingar á áðurnefndri reglugerð hefðu verið gerðar. Verði tillaga þessi samþykkt og reglugerð um ökuskírteini breytt í samræmi við hana yrði þó hvenær sem er unnt að breyta skráningu um líffæragjöf á ökuskírteini.
    Flutningsmönnum þykir einnig rétt að framkvæmd skráningar í líffæraskrá verði endurskoðuð og þannig vakin meiri athygli en gert er í dag á þessum möguleika.