Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 67. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 198  —  67. mál.




Svar



samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Erlingsdóttur um framkvæmdir við Landeyjahöfn (Bakkafjöruhöfn).

     1.      Hyggst ráðherra tryggja nægt fé til að ljúka framkvæmdum við Landeyjahöfn (Bakkafjöruhöfn) þannig að siglingar Herjólfs geti hafist þaðan í júlí 2010?
    Áætlanir gera ráð fyrir að Landeyjahöfn kosti um 3,5 milljarða kr. Fjárveiting til og með árinu 2009 er 1.935 millj. kr. og hefur hún verið tryggð að fullu.
    Í fjárlagafrumvarpi 2010 eru verkinu tryggðar 770 millj. kr. Ætlunin er að bjóða út nú á næstunni þrjá verkþætti, þ.e. smíði þjónustuhúss, smíði ekjubrúar og dýpkun hafnar og innsiglingar, þegar þau tilboð liggja fyrir verður ljóst hversu mikið fé vantar til að klára það sem þarf til þess að siglingar geti hafist í júlí á næsta ári og verður það þá verkefni samgönguyfirvalda að tryggja fé til að þessi áform gangi eftir.

     2.      Hvaða hugmyndir eru uppi um almenningssamgöngur á landi til Reykjavíkur frá Landeyjahöfn?
    Almenningssamgöngur munu verða þarna á milli en ekki er lokið útfærslu á þeim, t.d. hvað varðar ferðafjölda.