Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 310  —  186. mál.




Svar



dómsmála- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um dómstólaráð.

     1.      Hvaða skýringar eru að baki síauknum kostnaði við rekstur dómstólaráðs?
    
Ráðuneytið leitaði eftir upplýsingum frá dómstólaráði sem lagðar eru til grundvallar við þetta svar.

Kostnaður vegna reksturs dómstólaráðs á árunum 2001 til 2008.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008
29.627.281 26.508.475 24.500.319 26.822.727 24.887.787 30.155.017 37.112.501 38.109.787

    Innifalið í rekstri dómstólaráðs er ekki aðeins kostnaður vegna reksturs ráðsins sjálfs heldur verulegur sameiginlegur kostnaður af rekstri héraðsdómstóla. Í rekstrarkostnaði felast því laun dómstólaráðs, sem skipað er fimm ráðsmönnum, laun framkvæmdastjóra í fullu starfi, ritara í 70% starfi ásamt launum prófarkalesara í 50% starfi sem sinnir störfum fyrir dómara utan héraðsdóms Reykjavíkur. Dómstólaráð greiðir allan rekstrarkostnað við heimasíðu héraðsdómstólanna, rekstur og þróun málaskrár og hefur greitt heildarkostnað netþjónustu allra dómstólanna frá árinu 2007. Þannig greiðist og kostnaður vegna ferða héraðsdómara sem sinna meðdómara- og setudómarastörfum fyrir aðra dómstóla af rekstrarfé dómstólaráðs. Þá greiðir dómstólaráð kostnað vegna endurmenntunar héraðsdómara og annarra starfsmanna. Ætla má að beinn kostnaður við rekstur dómstólaráðs, þ.e. laun ráðsins og starfsmanna þess ásamt skrifstofukostnaði, hafi verið um 20 millj. kr. á árinu 2008.
    Helstu skýringar á hækkun kostnaðar frá 2005 til 2006 eru að á þeim tíma var prófarkalesari ráðinn í 50% starf fyrir héraðsdómstólana utan Reykjavíkur, auk þess sem fram fór vinna við uppsetningu héraðsdóma á heimasíðu og þarfagreining vegna fyrirhugaðrar nýrrar málaskrár héraðsdómstólanna.
    Skýring á auknum kostnaði frá 2006 til 2007 felst í því að frá 1. janúar 2007 greiðir dómstólaráð fyrir þjónustu Þjóðskrár, sem felst í rekstri tölvupóstsamskipta dómstólanna. Fyrir þann tíma greiddu dómstólar ekki fyrir þá þjónustu sem unnin var hjá tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytis. Héraðsdómstólar fengu sérstaka 8 millj. kr. fjárveitingu til að greiða fyrir þessa þjónustu frá og með 1. janúar 2007.

     2.      Telur ráðherra kostnaðinn eðlilegan, t.d. í samanburði við kostnað héraðsdómstólanna?
    
Mikilvægt er að gera grein fyrir því að á rekstrarlið eru færð talsverð útgjöld sem eru sameiginleg fyrir dómstólana og valin hefur verið sú leið að færa kostnaðinn á dómstólaráð í stað þess að skipta honum hlutfallslega niður á þá dómstóla sem njóta þjónustunnar, sbr. 1. lið fyrirspurnarinnar. Hæpið virðist að bera þennan miðlæga kostnað saman við kostnað af rekstri einstakra dómstóla eða kostnað af héraðsdómstólunum að öðru leyti, enda um gjörólík verkefni og fjárhæðir að ræða.
     3.      Þiggja fulltrúar í dómstólaráði laun fyrir annað en setu í ráðinu?
    
Nei. (Gert er ráð fyrir að hér sé átt við laun frá dómstólaráði.)

     4.      Hvaða þjónustukaup eru á bak við áætlaðan 20.012.710 kr. kostnað ráðsins fyrir árið 2009?
    Þjónustukaup voru áætluð 30.483.855 kr. á árinu 2009. Heildarkostnaður vegna þjónustukaupa það sem af er árinu, frá janúar til og með nóvember, er hins vegar 12,4 millj. kr. og hefur stærsti hluti þeirrar fjárhæðar verið greiddur fyrir þjónustu Þjóðskrár, eða um 10,9 millj. kr. á árinu 2009. Annar kostnaður hefur farið til greiðslu vegna viðhalds heimasíðu og málaskrár. Í áætlaðri fjárhæð var gert ráð fyrir vinnu við gerð nýrrar málaskrár fyrir héraðsdómstóla. Af þeirri vinnu hefur hins vegar ekki orðið vegna kröfu um hagræðingu hjá dómstólum í júní 2009 um 17,2 millj. kr.

     5.      Hvað skýrir áætlaðan 3.370.000 kr. ferðakostnað ráðsins fyrir árið 2009?

    Ferðakostnaður var áætlaður 3.370.000 kr. á árinu 2009. Þar af eru 1.320 þús. kr. vegna endurmenntunar starfsmanna. Verulegs aðhalds hefur verið gætt í ferðakostnaði og er heildarferðakostnaður ráðsins 550 þús. kr. það sem af er ári. Stærsti hluti þess kostnaðar er vegna ferða dómara sem sinna meðdómara- eða setudómarastörfum við aðra dómstóla en þeir starfa við.