Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 211. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 400  —  211. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ólafar Nordal um dvalar- og hjúkrunarrými fyrir aldraða.

     1.      Hver er þörfin á dvalar- og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða? Er fyrirsjáanlegur skortur á slíkum rýmum? Óskað er eftir sundurgreiningu miðað við dvalarrými annars vegar og hjúkrunarrými hins vegar.
    Fjöldi hjúkrunarrýma á landinu er nú 2587 og fjöldi dvalarrýma 711 en hvoru tveggja mun fækka nokkuð um áramótin 2009–2010 vegna niðurskurðar í ríkisútgjöldum. Á biðlista eftir hjúkrunarrýmum eru nú um 200 manns. Á biðlista eftir dvalarrýmum eru um 100 manns.
    Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um fjölgun hjúkrunarrýma og fækkun fjölbýla frá 12. ágúst 2008 var stefnt að því að fram til ársins 2012 yrði hjúkrunarrýmum fjölgað um 400 á landsvísu til að mæta þeirri þörf sem þá var fyrirsjáanleg og byggja 380 rými til að fækka fjölbýlum. Sú áætlun er nú í endurskoðun því ákveðnar vísbendingar eru um að ekki þurfi að fjölga hjúkrunarrýmum í sama mæli á næstu árum og framkvæmdaáætlunin gerði ráð fyrir. Hins vegar hefur verið ákveðið að bæta mjög aðstöðu þeirra sem þurfa að dvelja í hjúkrunarrýmum. Nú eru 174 hjúkrunarrými í byggingu og munu þau leysa af hólmi eldra húsnæði.
    Þá heimilaði ríkisstjórnin félags- og tryggingamálaráðherra 13. október sl. að vinna með fjármálaráðherra að því að efna fyrirheit í fyrrgreindri framkvæmdaáætlun með lánveitingum úr Íbúðalánasjóði og með samningum um greiðslu ríkissjóðs á húsaleigu fyrir 361 hjúkrunarrými í níu sveitarfélögum. Af þessari heildartölu verður raunfjölgun rýma einungis 60 hjúkrunarrými.
    Ekki er fyrirhuguð frekari fjölgun dvalarrýma, fremur fækkun þar sem önnur úrræði, eins og þjónustuíbúðir og aukinn stuðningur heima, ættu að mæta þörf flestra sem óska eftir vistun í dvalarrými.

     2.      Hefur ráðuneytið kannað kosti þess að nýta húsnæði sem nú stendur autt og ónotað til hagsbóta fyrir aldraða?
    Öldrunarþjónusta er nærþjónusta og því vinnur félags- og tryggingamálaráðuneytið með hverju sveitarfélagi fyrir sig að bættri þjónustu og aðstöðu fyrir aldraða. Eitt sveitarfélag óskaði eftir því snemma árs 2009 að ákveðið húsnæði yrði skoðað með tilliti til þess hvort unnt væri að nota það sem hjúkrunarrými fyrir aldraða. Á því húsnæði hefði þurft að gera töluverðar breytingar til að mæta grunnviðmiðum um innra skipulag hjúkrunarheimila. Viðkomandi sveitarfélag hefur ekki tekið málið aftur upp við félags- og tryggingamálaráðuneytið.