Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 247. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 403  —  247. mál.




Svar



samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um afskriftir eða lengingu lána sveitarfélaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Kemur til greina að stjórnvöld beiti afskriftum eða lengi lán sveitarfélaga svo að þau eigi möguleika á að komast yfir tímabundna erfiða fjárhagsstöðu? Ef svo er, hvenær?

    Í umræðum um fjárhagsvanda sveitarfélaga í kjölfar efnahagshrunsins hefur það komið upp í viðræðum ríkis og sveitarfélaga hvort og hvernig hægt væri að aðstoða þau sveitarfélög sem skuldsettust eru, hvort heldur er vegna erlendra eða innlendra lána. Mál þessi hafa t.d. verið til umræðu í svokallaðri Jónsmessunefnd, sem er samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga og starfar á grundvelli viðauka við samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga í tengslum við erindi frá Lánasjóði sveitarfélaga um samvinnu við ríkið vegna endurfjármögnunar til sveitarfélaga og stofnana þeirra til að auðvelda endurgreiðslu höfuðstóls þeirra erlendu lána sem eru á gjalddaga á þessu ári og næsta ári. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um slíka samvinnu.
    Ráðuneytið mun hins vegar meta hvert tilvik fyrir sig, því fjárhagsstaða sveitarfélaga er misjöfn og mörg þeirra hafa ágætar forsendur þrátt fyrir allt til að mæta þeim þrengingum sem við er að glíma þessi missirin. Eins og greint var frá í svari við annarri fyrirspurn (246. mál) er það hlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að gera ráðuneytinu viðvart ef í óefni stefnir. Ráðuneytið hefur því ekki, að svo stöddu, lagt til að gripið verði til samræmdra aðgerða til að taka á skuldavanda sveitarfélaga en telur að upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga og samráð á grundvelli ferlis samkvæmt VII. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, varpi ljósi á aðstæður einstakra sveitarfélaga.
    Ráðuneytið telur þó rétt að gera grein fyrir því, að á vegum samráðsnefndar um efnahagsmál, sem sömuleiðis starfar á grundvelli samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga, er unnið að mótun hagstjórnarsamnings milli ríkis og sveitarfélaga á grundvelli vegvísins þar að lútandi sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fjármálaráðherra og formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu 1. október sl. Meðal atriða í slíkum hagstjórnarsamningi verður ákvæði um samstarf hins opinbera varðandi lánamál, m.a. um skuldastýringu sem einnig taki til fyrirtækja í opinberri eigu. Tilgangurinn er að tryggja að lántökur opinberra aðila og afborganir og vextir af þeim séu í samræmi við stöðu gjaldeyrismála og stefnu í gengismálum hverju sinni.