Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 406  —  299. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um inneignir íslenskra ríkisborgara á Icesave-reikningum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir íslenskir ríkisborgarar áttu inneignir á svonefndum Icesave-reikningum í Bretlandi og Hollandi árið 2008, hvar voru þeir búsettir og hversu háar voru fjárhæðirnar?

    Landsbanki Íslands hf. var almennt hlutafélag skráð á markaði þar til í október 2008. Þó svo að Fjármálaeftirlitið, á grundvelli laga nr. 125/2008, hafi gripið inn í rekstur þess var það eftir sem áður viðskiptabanki á samkeppnismarkaði. Viðskiptabankar lúta reglum laga um fjármálafyrirtæki og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og reglum settum á grundvelli þeirra, m.a. um meðferð trúnaðarupplýsinga.
    NBI hf. er einnig hlutafélag og þótt ríkissjóður eigi hlutabréf í honum lýtur hann lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fer fjármálaráðherra með hluti ríkissjóðs í þessum viðskiptabanka.
    Ráðuneytið hefur ekki undir höndum neinar upplýsingar um starfsemi einstakra fyrirtækja á fjármálamarkaði. Né hefur það undir höndum upplýsingar um bankainnstæður einstakra viðskiptamanna bankanna. Eftirlit með starfsemi á fjármálamarkaði er í höndum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nema lausafjáreftirlit sem Seðlabanki Íslands hefur á sinni könnu.
    Þrátt fyrir framangreint leitaði ráðuneytið til slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. og innti eftir því hvort unnt yrði að gefa svar við fyrirspurninni. Svar slitastjórnar var svohljóðandi:
    „Landsbanka Íslands hf. er ekki fært að upplýsa hverjir voru innlánseigendur að Icesave- reikningum bankans sakir bankaleyndar. Við stofnun á Icesave-reikningi á sínum tíma, þurftu væntanlegir innstæðueigendur að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi búsetu, persónuskilríki, lánshæfi og aðra þætti til að koma í veg fyrir svik og peningaþvætti. Þessum upplýsingum var safnað saman á þeirri forsendu að gætt yrði að réttarvernd einstaklinga á grunni persónuverndarlaga. Aðeins er hægt að birta þær vegna lagalegra ástæðna, þ.m.t. ef þar til bær stjórnvöld, s.s. vegna rannsóknar sakamála eða þ.u.l., hafa farið fram á það eða þá á grundvelli skriflegs samþykkis innstæðueigenda.“