Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 184. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 429  —  184. mál.




Svar



dómsmála- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um sparnað af fyrirhuguðum breytingum á héraðsdómstólum, sýslumannsembættum og lögreglu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu miklir fjármunir munu sparast við boðaðar breytingar varðandi:
     a.      héraðsdómstólana,
     b.      sýslumannsembættin,
     c.      lögreglu?


Héraðsdómstólar.
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 er gerð krafa um að sparað verði um 50 millj. kr. í rekstri héraðsdómstólanna á næsta ári og verði heildarfjárveiting til þeirra á næsta ári 935,4 millj. kr. Hagræðingarkrafan á héraðsdómstólana samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er því 5% miðað við fjárveitingar fyrra árs. Ljóst er að héraðdómstólunum er gert að spara verulega fjármuni og næst það ekki án breytinga á rekstrarumhverfi dómtólanna. Frumvarpi ráðherra á þskj. 104 um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum, er m.a. ætlað að gera héraðsdómstólunum kleift að standa undir þessari hagræðingarkröfu.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu á það sér þann aðdraganda að dómstólaráð lagði í ársbyrjun 2009 tillögur fyrir ráðherra í tengslum við ráðagerðir um sparnað í rekstri héraðsdómstóla, þar sem því var m.a. hreyft að draga mætti talsvert úr kostnaði af þeim með því að sameina þá, en halda þó starfsemi þeirra áfram eftir þörfum um allt land á sérstökum starfsstöðvum. Með þessu mundi kostnaður minnka vegna yfirstjórnar og húsnæðis auk tækjabúnaðar og mannahalds, þó að dómurum yrði ekki fækkað. Um leið mætti stuðla að því að starfskraftar dómara nýttust betur með því að störf dómenda takmarkist ekki við tiltekið umdæmi og dómendur hvar sem er á landinu geti dæmt í málum sem fjallað er um á lægra dómstigi. Dómskerfið yrði þannig betur í stakk búið til að mæta álagi á einstökum starfsstöðvum þegar þörf krefði en nú sem stendur er málafjöldi mjög mismunandi eftir dómstólum. Á þennan hátt yrði búið í haginn til að mæta auknu álagi á héraðsdómstóla, sem reiknað hefur verið með vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Lagabreytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu fela einnig í sér beinan sparnað við yfirstjórn dómstólanna auk möguleika á frekari hagræðingu. Sparnaður af þeim breytingum sem fjallað er um í fyrrgreindu þingmáli er af ýmsu tagi, en ræðst mjög af því hvernig það svigrúm verður nýtt sem felst í sameiningu á umdæmum héraðsdómstólanna.
    Það sem liggur fyrir er að með því að hafa einn dómstjóra í stað þess að deila 2,15 stöðugildum á átta dómstjóra sparast rúmlega 6 millj. kr. á ári.
    Með því að vera með bakvaktir á tveimur stöðum á landinu í einum sameinuðum héraðsdómi mundu sparast rúmlega 20 millj. kr. til viðbótar á ári.
    Ef farin yrði sú leið að spara í húsnæði með því að leggja niður fast aðsetur dómstóls á t.d. tveimur stöðum (án þess að í því fælist samsvarandi fækkun starfsfólks) mundu sparast eitthvað á annan tug milljóna í viðbót en ekkert liggur fyrir um að til slíkra breytinga þyrfti að koma.
    Líklegt er þó að mesti sparnaðurinn liggi í því að lagaheimild fáist til þess dreifa álagi vegna málafjölda á héraðsdómara um allt land en erfiðara er að meta þann sparnað. Hann kemur fram í því að síður þarf að bæta við héraðsdómurum á einstökum dómstólum þar sem álag er mest.
    Komi til greiðslna vegna biðlaunaréttar vegna þessara breytinga er ekki unnt að gera ráð fyrir að öllum þessum sparnaði verði náð fram þegar við gildistöku þess frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi.

Sýslumannsembættin og lögregla.
    Fram hefur komið að á vegum ráðuneytisins er unnið að tillögum um breytt skipulag sýslumannsembætta og lögreglu. Gert er ráð fyrir að lagt verði fram frumvörp þessa efnis á þessu löggjafarþingi. Starfshópur, skipaður af ráðherra, hefur þegar skilað tillögum sínum um sameiningar lögregluembætta. Þá eru tillögur um endurskipulagningu sýslumannsembætta til vinnslu og munu þær berast ráðuneytinu í febrúar nk. Þessi mál eru ekki á því stigi að unnt sé að slá föstu hve mikið sparast við umræddar breytingar, en við þessa vinnu hefur verið leitast við að útfæra breytingar með þeim hætti að sparnaður í útgjöldum ríkisins á þessum sviðum beinist að yfirstjórn embætta og hagræðingu í bakvinnslu, en beinist ekki af fullum þunga á kjarnastarfsemi lögreglu og sýslumanna. Þannig verði komið til móts við hagræðingarkröfu fjárlagafrumvarps næsta árs án þess að veruleg skerðing verði á grunnþjónustu löggæslu- og sýslumannsembætta.
    Þess má geta að sameining lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu árið 2007 hefur gert lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kleift að ráðast í umtalsverða rekstrarhagræðingu sem ella hefði ekki verið möguleg án stórfelldra uppsagna eða svipaðra aðgerða.