Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 291. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 508  —  291. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um fjárfestingarsamninga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve mörgum fjárfestingarsamningum telur ráðherra að verði lokið á næstu:
     a.      4 vikum,
     b.      8 vikum,
     c.      32 vikum,
     d.      52 vikum?


    Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um heimild til undirritunar fjárfestingarsamningsins vegna byggingar og rekstrar gagnavers Verne Holdings ehf. í Reykjanesbæ. Drög að þeim fjárfestingarsamningi voru árituð 23. október sl. Óvíst er hve langan tíma Alþingi telur sig þurfa til umfjöllunar um frumvarpið svo að ekki er hægt að tímasetja hvenær samningur verður undirritaður. Undirritun er með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Þekkt er að það ferli getur tekið frá þremur og upp í átta mánuði.
    Alþingi hefur einnig til lokastaðfestingar, eftir athugasemdir ESA, heimildarlög vegna fjárfestingarsamnings um uppbyggingu álvers í Helguvík.
    Á vegum ráðuneytisins standa ekki yfir aðrar formlegar viðræður um frágang fjárfestingarsamninga. Þótt Fjárfestingarstofa vinni nú að nokkrum fjárfestingarverkefnum í samvinnu við erlenda aðila er ekki unnt að tímasetja fjárfestingarákvarðanir eða óskir um fjárfestingarsamninga nú. Þá veltur það m.a. á staðarvali fjárfestingarverkefnanna hvort þau muni falla undir þau svæði á byggðakorti ESA þar sem heimilt er að beita ívilnunum.
    Af hálfu ráðherra er að því stefnt að fjárfestingarsamningar byggðir á sértækum heimildarlögum og með fyrirvara um samþykki ESA heyri senn sögunni til með samþykkt nýrrar rammalöggjafar um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga. Fyrrnefndur fjárfestingarsamningur vegna álvers í Helguvík, sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar öðru sinni, sýnir hve langur og ógagnsær núverandi ferill er. Frumvarp um rammalöggjöf um ívilnanir verður lagt fram á vorþingi 2010 með það að markmiði að örva fjárfestingu í atvinnurekstri hér á landi og tryggja markvissa beitingu ívilnana til fjárfestinga, innan þess ramma sem ákvæði EES- samningsins setja. Frumvarpið er unnið í kjölfar skýrslu starfshóps iðnaðarráðherra frá því í apríl 2009.