Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 520  —  256. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um tekjuöflun ríkisins.

Frá 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Með frumvarpi þessu er ætlunin að afla ríkinu aukinna tekna með breytingum á ýmsum lögum, m.a. um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, fjármagnstekjur og tryggingagjald.
    
Flækjustig aukið.
    Gert er ráð fyrir að skattþrep hjá einstaklingum verði þrjú og skiptist þannig að af fyrstu 2,4 millj. kr. tekjum einstaklings greiðist 24,1% tekjuskattur, 27% af næstu 5,4 millj. kr. og 33% ef tekjur eru yfir 7,8 millj. kr. Þegar skattaðilar eru samskattaðir skal taka tillit til þess ef annar er undir 7,8 millj. kr. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 2.000 kr. og ákvæði um að afslátturinn fylgi vísitölu neysluverðs á að falla brott.
    Þriðji minni hluti bendir á að fjölgun skattþrepa sem ríkisstjórnin leggur til mun hafa í för með sér alls kyns flækjur í skattframkvæmdinni og verða dýr í rekstri. Undirbúningstíminn er nánast enginn – aðeins örfáir dagar – og aðlögun launakerfa fyrirtækja landsins tekur tíma og er dýr. Ljóst er að þungi framkvæmdarinnar lendir verulega á launagreiðendum. Fyrirsjáanlegt er að um verði að ræða verulega eftirávinnu að tekjuári loknu og að staðgreiðsluskil versni til muna frá því sem nú er.
    Þá er launakerfum landsmanna ætlað veigamikið hlutverk í framkvæmd breyttrar staðgreiðslu. Ljóst er að búast má við erfiðri byrjun ef af breytingunum verður og ýmislegt sem úrskeiðis getur farið. Þetta kemur á sama tíma og verulegur niðurskurður hefur farið fram innan skattkerfisins og aðhaldsaðgerðir verið í mannahaldi.
    Kostnaður skattgreiðenda við þessar breytingar verður verulegur og að margra áliti mjög vanmetinn í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis. Gera má ráð fyrir því að breytingarnar muni kosta um 200–300 millj. kr. en ekki gafst tími til að fara ítarlega ofan í forsendur og hvað sé raunhæft í þessum efnum vegna tímaskorts. Nú þegar hver einasta króna á að vera vegin og metin í útgjöldum ríkisins kemur spánskt fyrir sjónir að sjá vilja stjórnvalda til að eyða fjármunum almennings í þessar breytingar.
    Jafnframt er það viðurkennt að eftirágreiðsla skatta er ekki eins skilvirk og staðgreiðslan og því minni fjármunir sem munu renna í ríkissjóð. Hér gæti verið um hundruð milljóna að ræða – jafnvel milljarða. Það að hafa mörg skattþrep getur skapað hvata hjá einstaklingi sem er að vinna hjá fleiri en einum atvinnurekanda að telja allar sínar tekjur fram í lægsta skattþrepi og fresta vandanum um sinn og fá himinháan bakreikning frá skattinum sem óljóst er hversu vel mun innheimtast.
    Nefndarálit þetta er ritað seint á föstudagskvöldi en á laugardagsmorgni hyggst meiri hlutinn kynna þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu. Ekki er hægt að fjalla um þær breytingar hér þar sem ekki er fyllilega vitað hverjar þær verða. Frumvarpið á að taka út úr nefnd í beinu framhaldi og ræða í sölum Alþingis sama dag. Þetta verklag er óásættanlegt og vitlaust og má segja að kannski beri skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar þess merki. Ótal aðilar sem hafa veitt umsagnir um frumvarpið hafa gagnrýnt málsmeðferðina og samráðsleysið. Þrátt fyrir það hlustar meiri hlutinn ekki og heldur sinni stefnu – sama hvað hverjum finnst.
    Í ljósi þess hversu vanreifað málið er og vinnubrögðin ótrúlega handahófskennd leggur 3. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 18. des. 2009.

Birkir Jón Jónsson.